poster image

Fimm stjörnu dómar

Gagnrýnendur Fréttablaðsins og Morgunblaðsins fara lofsamlegum orðum um tónleika Berlínarfílharmóníunnar sem áttu sér stað í Eldborg á þriðjudagskvöld.


                                                                 "Viðburður í frásögur færandi"

 Flúrlampalýstir gímaldsgluggar Hörpunnar flöktu undan ótal skuggum væntingarfullra tónleikagesta á þriðjudagskvöld þegar ein fremsta sinfóníuhljómsveit veraldar heimsótti dísarhöll Íslendinga í fyrsta skipti. Hvert einasta áheyrnarsæti Eldborgar var skipað að tvö hundruð kórsætum meðtöldum, og ekki að sökum að spyrja. Allt ku hafa selzt upp á örfáum mínútum ef marka má flugufregnir frá því tveimur mánuðum áður þegar tilkynnt var með skömmum fyrirvara. Sat því ef að líkum lætur margur tónkerinn eftir með sárt ennið. Líkt og til að undirstrika óumdeilanlegan hápunkt vetrarins bárust hálftíma fyrir upphaf tónleikanna ylþýðir ómar um jarðhæðina frá strengjakvartett við stigafótinn. Framtakið minnti jafnframt á þrautseigan tónlistaráhuga þjóðar er reisti húsið og kláraði í hvínandi blóra við biksvartar kreppuspár. Enda hljóta margir að hafa tekið undir í huga með sir Simon Rattle í viðtali Mbl. sama dag er hann lýsti væntingu sinni um að Harpa ætti eftir að verða tíður viðkomustaður sinfóníuhljómsveita á leið vestur eða austur um haf. 

Fari svo, ætti hagur þessarar umdeildu tónstrympu þjóðarinnar að vænkast. Vonir hlustenda í þá veru vænkuðust enn þegar hljómsveitin hóf leik sinn; einkum þó þegar sviptingar mögnuðust í Debussy og Ravel. Því þótt ekki sé kinnroðalaust frá að segja, þá kom fljótt upp í huga manns hvort jafn dæmalaus stjörnuspilamennska og þar gat að heyra hefði reynzt jafn tilkomumikil í lakari hljómburði á við Háskólabíó. Eða jafnvel hvort Eldborgarsalurinn væri - þrátt fyrir þegar ærin lofmæli - enn vanmetinn að hljómburðargæðum! Einkum í ljósi fullyrðinga um hið gagnstæða frá sumum mér víðsigldari mönnum með eigin reynslu frá fremstu tónleikasölum heims. Vonandi skjátlast þeim, jafnvel þótt mestu valdi sá er á heldur.

 Að minnsta kosti heyrðust engin merki um að Eldborgarheyrðin aftraði Berlínarbúum frá að sýna sínar beztu hliðar. Og þær voru, frómt frá sagt, engu líkar. Eftir að norpandi handanheimsklasar Atmosphères eftir Ligeti fjöruðu út, er bíóunnendur tengja við uppgröft einsteinungsins á tunglinu í »2001«, geimmynd Kubricks (1968), leiddi Rattle beint yfir í helgigeislavirkan jarteinaforleik Wagners að Lohengrin, líkt og fyrir milliliðalausa tímavél, í ægitærri túlkun. Impressjónísk ballettverk Debussys og Ravels buðu upp á sannkallaða virtúósahópspilamennsku og mynduðu að mínu viti hápunkta kvöldsins; minntu sláandi á lofsyrði fyrri tíma um Mannheimssveitina 1750-80 sem »fyrirmyndarher skipaðan eintómum herforingjum«, enda var afburðaspilari í hverju rúmi. Sjaldan ef nokkru sinni áður gat hér að heyra jafn víðfeðma dýnamík og svellandi snerpu í ávallt fullkomnu innbyrðis jafnvægi, og lá við að maður risi ósjálfrátt úr sæti, líkt og fyrstu upplifendur crescendósins. Hjá annarri eins kynngi lit- og hrynbrigða gat Rínarsinfónía Schumanns - þrátt fyrir fyrsta flokks meðferð - naumast vakið sambærilega hrifningu, enda kom verkvalið mér svolítið spánskt fyrir sjónir eftir undangengnar eldflaugasýningar. Engu að síður var fullnaðarsigurinn löngu kominn í höfn, og sópandi hylling áheyrenda á fæti var því ekki nema fyrirsjáanleg að leikslokum. Hér fór sannkallaður úrvalsviðburður - og lengi í frásögur færandi.

 Ríkharður Örn Pálsson, Morgunblaðið                                                                     "Litrík, rafmögnuð, unaðsleg"

 Einar Pálsson skrifaði á sínum tíma umdeilda ritröð um rætur íslenskrar menningar. Hann færði þar rök fyrir því að margt í íslensku fornsögunum væri hluti af goðsagnaheimi Kelta og landa í kringum Miðjarðarhafið. Mér er sagt að hann hafi eitt sinn hitt skáldið og fræðimanninn Robert Graves, sem skrifaði um svipað efni. Einar var bæði víðlesinn og fróður, en þegar hann hitti Graves leið honum eins og tíu ára barni sem hafði villst inn í kennslustund í háskóla. Mér datt þetta í hug á tónleikum Berlínarfílharmóníunnar undir stjórn Sir Simon Rattle á þriðjudagskvöldið. Við eigum svo sannarlega ágæta sinfóníuhljómsveit með frábæru tónlistarfólki. En munurinn á henni og Berlínarfílharmóníunni er samt gríðarlegur. 

Ég sat á þriðja bekk fyrir hlé. Hljómsveitin hóf dagskrána á gömlum kunningja úr vísindaskáldsögunni 2001: A Space Odyssey . Það var Atmospheres eftir Ligeti. Tónlistin er mjög abstrakt. Hún virkar eins og hljómsveitarútsetning á raftónlist sem var í tísku um miðja síðustu öld. Hljómsveitin spilaði svo dásamlega vel, af svo gríðarlegri nákvæmni og fágun, að útkoman var ekki af þessum heimi. Málið er að nútímatónlist er oft ekki vel leikin. Fólk heldur þá að verkið sé leiðinlegt, því það hefur ekki samanburð við neitt annað. Þarna heyrðist glögglega hve Ligeti var magnað tónskáld. Forleikurinn að fyrsta þætti Lohengrin eftir Wagner var næstur á dagskrá. Hann hófst í beinu framhaldi af Ligeti, það var ekkert stoppað á milli. Þar sem verkin eru mjög ólík var þetta nokkuð djarft. En það gekk fyllilega upp. Wagner og Ligeti voru svo skemmtilegar andstæður, tónlist þeirra hljómaði enn áhugaverðari fyrir vikið. Wagner byrjaði rólega, en hápunktarnir voru yfirgengilegir. Og fínleg blæbrigði voru meistaralega vel mótuð. Þegar maður situr framarlega er auðvelt að heyra minnstu misfellur í spilamennskunni. En hér var allt fullkomið. Strengjaleikurinn var svo ótrúlega samtaka og veikir tónar svo tærir og stöðugir að það var einfaldlega ekki hægt að gera betur. 

Dansljóðið Jeux eftir Debussy var líka himneskt, fallega glitrandi og margbrotið. Og Daphnis og Chloe svítan nr. 2 eftir Ravel var hápunktur tónleikanna. Hún var yfirgengilega kraftmikil, hljómsveitarleikurinn unaðslega samstæður og litríkur, áferðarfagur og þéttur. Túlkun var bókstaflega rafmögnuð. Enda trylltust áheyrendur! Ég færði mig um set í hléinu, fór aftast í salinn, þar sem hljómburðurinn er slakari. Eftir hlé var 3. sinfónían eftir Schumann á dagskrá og það var áhugavert að heyra muninn þar og á þriðja bekk. Upplifunin var eins og að vera með eyrnatappa. Vissulega er Harpa frábært tónleikahús, en það er ekki hægt að ætlast til að allt hljómi jafn vel þar, sama hvar maður situr. Þarna aftast heyrðust smáatriðin ekki jafn greinilega - en heildarhljómurinn var samt flottur. Þessi sinfónía Schumanns er reyndar ekki með hans bestu verkum, og satt að segja var hún hálfgerður antí-klímax á eftir Ravel. Engu að síður var flutningurinn stórkostlegur. Ég heyrði Berlínarfílharmóníuna leika í París fyrir mörgum árum undir stjórn Herberts von Karajan. Það voru magnaðir tónleikar. Kvöldstundin nú var ekkert síðri. 

Jónas Sen, Fréttablaðið