Aðgengi

Við viljum að allir hafi gott aðgengi að Hörpu — þar eru allir velkomnir
Njótið þess að koma í Hörpu. Vinsamlegast gefið ykkur nægan tíma, hvort sem þið komið fótgangandi eða þurfið að leggja bíl eða hjóli. Allt tekur sinn tíma, hvort sem þið þurfið að ná í miða, nota fatahengið eða gæða ykkur á veitingum eða drykk fyrir viðburð.

Aðgengi fyrir hreyfihamlaða

Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er í öllu húsinu. Í Eldborg, aðalsal Hörpu, eru tvö stæði fyrir hjólastóla sem eru gjaldfrjáls. Einnig er hægt að taka út sæti fyrir hjólastóla víða um salinn fyrir gesti sem kaupa miða.  Við minnum gesti á að taka fram tímanlega við miðasölu ef þörf er á stæðum fyrir hjólastóla, einnig í gjaldfrjálsu stæðin. Vinsamlega látið vita minnst tveimur sólarhringum fyrir viðburð.  

Sérstök bílastæði eru fyrir hreyfihamlaða við inngang inn í Hörpu frá bílastæðahúsi. Inni í byggingunni er greið leið fyrir alla með lyftu sem tengir allar hæðir. Allar hurðir miðast við umferð hreyfihamlaðra og sérstök salerni fyrir hreyfihamlaða eru víða um húsið.

Aðstoð við heyrnaskerta

Fólk sem notar heyrnartæki hefur verulegt gagn af tónmöskvakerfi eða sambærilegu kerfi sem er notað til að draga úr aukahljóðum og bæta hlustun. Í Hörpu er hægt að fá afnot af slíkum búnaði en hann virkar þannig að það eru sendar í loftinu sem gefa frá sér innrautt merki. Merkið sendist í móttakara, heyrnartól eða hljóðslaufu sem virkar með heyrnartækjum. Gestir sem óska eftir að fá afnot af búnaðinum eru beðnir um að láta vita í miðasölu þegar miðar eru keyptir.

Aðstoð við blinda og sjóndapra

Gestir eru vinsamlega beðnir um að láta vita tímanlega í miðasölu ef þörf er á aðstoð.

Börn á tónleikum

Foreldrum og forráðamönnum er vinsamlega bent á að alltaf þarf að kaupa sæti fyrir börn í Eldborg, nema annað sé tekið fram. Börn þurfa alltaf að vera í fylgd með fullorðnum og á ábyrgð þeirra.

Fatahengi

Opið fatahengi er við miðasölu Hörpu, fyrir gesti hússins. Hægt er að geyma flíkur í lokuðu rými í miðasölu gegn gjaldi.

Staðsetning

Harpa er í miðbæ Reykjavíkur við gömlu höfnina. Innkeyrsla er frá Sæbraut, góð gönguleið er yfir Tryggvagötuna að húsinu. Hægt er að ganga meðfram sjónum og koma að Hörpu austanmegin. Útsýni er frá húsinu í allar áttir.