Klassík, Sígild og samtímatónlist, Ókeypis viðburður

Velkomin heim : Erna Vala Arnar­dóttir píanó­leikari

Verð

0 kr

Næsti viðburður

sunnudagur 10. júlí - 16:00

Salur

Hörpuhorn

Á fyrstu tónleikum í röðinni Velkomin heim árið 2022 er loks komið að Ernu Völu Arnardóttur píanóleikara. Tónleikum Ernu Völu hefur verið frestað síðustu tvö ár vegna Covid og bjóðum við hana því sérstaklega velkomna heim!

Á dagskrá Ernu Völu verða tvö einleiksverk fyrir píanó:
Píanósónata nr 4, op. 30 eftir Alexander Schriabin
Kreisleriana op. 16 eftir Robert Schumann

Tónleikaröðin Velkomin heim býður ungt tónlistarfólk úr röðum klassískra og jasstónlistarmanna velkomið heim þegar það lýkur námi erlendis. Tónleikaröðin er samstarfsverkefni FÍT-klassískrar deildar FÍH, FÍH og Hörpu. Tónleikaröðin er styrkt af Ýli tónlistarsjóði, Menningarsjóði FÍH og Tónlistarsjóði.

Um listamanninn
Erna Vala Arnardóttir píanóleikari, fædd 1995, hefur komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum síðustu ár og unnið til fjölda verðlauna fyrir píanóleik sinn. Þar má helst nefna heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands árið 2018 og fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA-píanókeppninnar á Íslandi. Erna Vala hefur leikið einleik með bæði Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Hún hefur einnig komið fram sem gestalistamaður ýmissa hátíða, til dæmis Arctic Initiative í Washington D.C., Albignac Piano Festival í Frakklandi og Trinity Laban-samtímalistahátíðarinnar í London. Erna Vala stofnaði menningarfélagið Íslenska Schumannfélagið sumarið 2020 og starfar sem formaður þess. Félagið stefnir að því að stuðla að heilbrigðu og fjölbreyttu menningarlífi á Íslandi, kynna störf og tónlist Schumann-hjónanna og þeirra tengiliða, og skipuleggja áhugaverða viðburði og störf á Íslandi. Í ágúst mun félagið halda tónlistarhátíðina Seiglu í Hörpu, Sigurjónssafni og Hannesarholti. Erna Vala er listrænn stjórnandi hátíðarinnar.

Erna Vala hefur lokið meistaragráðu í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki hjá Hömsu Juris. Hún vinnur nú að doktorsnámi sínu við USC Thornton School of Music í Kaliforníu sem Fulbright-nemi undir handleiðslu Bernadene Blaha. Áður lauk hún bakkalárgráðu í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté. Hún hefur hlotið góða styrki til náms; Rótarýstyrk árið 2021, minningarstyrk um Birgi Einarsson 2020 og 2017, minningarstyrk um Jón Stefánsson 2019, minningarstyrk um Halldór Hansen 2018 og námsstyrk Landsbankans árið 2017. Þá var hún ein verðlaunahafa Ungra einleikara árið 2014.

Miðaverð er sem hér segir:

A

0 kr.

Dagskrá

sunnudagur 10. júlí - 16:00