Tónlist, Klassík

Velkomin heim - Harpa Ósk Björns­dóttir sópr­an­söng­kona

Verð

0 kr

Næsti viðburður

sunnudagur 28. ágúst - 16:00

Salur

Hörpuhorn

Tónleikaröðin Velkomin heim býður ungt tónlistarfólk úr röðum klassískra og jasstónlistarmanna velkomið heim þegar það lýkur námi erlendis. Tónleikaröðin er samstarfsverkefni FÍT-klassískrar deildar FÍH, FÍH og Hörpu. Tónleikaröðin er styrkt af Ýli tónlistarsjóði, Menningarsjóði FÍH og Tónlistarsjóði.

Flytjendur:
Harpa Ósk Björnsdóttir, sópran
Sebastian Fuß, píanó

Efnisskrá
Útskriftartónleikar Hörpu Óskar fara fram í Leipzig í júlí 2022 og verður efnisskrá tónleikanna endurtekin
hér á landi á tónleikunum í Hörpu þann 28. ágúst. Efnisskráin skiptist í tvo hluta: Fyrri hluti tónleikanna er
helgaður verkum íslenskra kventónskálda sem eru hluti af lokaritgerð Hörpu um Tónlistarkonur á Íslandi á
18. og 19. öld og tengslanet þeirra og verða flutt ljóð og píanóverk eftir m.a. tónskáldin Valgerði Briem,
Jórunni Viðar og Hildigunni Rúnarsdóttur. Seinni hluti tónleikanna er efnisskrá bachelorlokaprófs Hörpu
sem samanstendur af ljóðum og aríum eftir Mozart, Grieg, Sibelius, Charpentier, Verdi, Puccini og
Stravinsky. Með Hörpu leikur Sebastian Fuß píanóleikari.

Harpa Ósk Björnsdóttir
Sópransöngkonan Harpa Ósk er fædd og uppalin í Kópavogi. Hún hóf að læra söng 15 ára gömul í
tónlistarstarfi Langholtskirkju hjá Þóru Björnsdóttur, því næst við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu
Kolbrúnu Harðardóttur og að lokum við Listaháskóla Íslands hjá Ólöfu, Þóru Einarsdóttur, Hönnu Dóru
Sturludóttur og Kristni Sigmundssyni. Árið 2019 þreytti Harpa frumraun sína með Íslensku Óperunni í
hlutverki Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, hún var einn sigurvegara Ungra Einleikara, keppni
Sinfóníuhljómsveitar Íslands og LHÍ, og sigraði háskólaflokk keppninnar Vox Domini, þar sem hún hlaut
titilinn “Rödd ársins 2019”. Harpa hefur hlotið ýmsa styrki síðustu misseri, þ.á.m. námsstyrk
Landsbankans, tónleikastyrk frá Ýli og styrki úr minningarsjóðum Vilhjálms Vilhjálmssonar, Ruthar
Hermanns og Jóns Stefánssonar.

Síðastliðin þrjú ár hefur Harpa stundað nám við Hochschule für Musik und Theater „Felix Mendelssohn
Bartholdy“ Leipzig undir leiðsögn Prof. Caroline Stein og næsta haust stendur henni til boða pláss við
óperudeild August Everding Leiklistarakademíunnar í München. Næstu verkefni Hörpu á óperusviðinu
eru m.a. hlutverkin Titania í A Midsummer Night’s Dream í Hofoper Jena, smalastúlkan í Toscu við Oper
Leipzig, Taumännchen í Hans og Grétu við Oper Halle, og hlutverk í þremur ótengdum uppsetningum á
Töfraflautunni, fyrst hlutverk Paminu í Machern í Leipzig, þar á eftir Erste Knabe í gestauppsetningu Oper
Leipzig við óperuhúsið í Regensburg og loks Papagena með Sinfóníuhljómsveit Íslands í febrúar 2023.


Viðburðahaldari

Dægurflugan

Miðaverð er sem hér segir:

A

0 kr.

Dagskrá

sunnudagur 28. ágúst - 16:00