Lystsköpun í Hörpu
Harpa leitar að metnaðarfullum samstarfsaðila til að reka glæsilegan veitingastað á jarðhæð hússins á nýju ári. Í boði er að taka við rekstri Hnoss, sem er núverandi veitingastaður, eða senda inn tilboð um að opna nýjan stað.
Harpa er bæði heimssvið og heimavöllur tónlistarinnar, alþjóðlegt ráðstefnuhús og einstakt listaverk sem laðar árlega til sín vel á aðra milljón innlendra og erlendra gesta. Viðburðir í Hörpu eru um 1.200 á ári. Á undanförnum misserum hefur færst mikið líf í næsta nágrenni hússins. Hótel, fjölmennir vinnustaðir, verslanir, veitingastaðir og afþreying á svæðinu í kringum Hörpu stækkar enn frekar markhóp veitingastaðarins.
Hér er einstakt tækifæri fyrir öflugt rekstrar- og veitingafólk sem vill slást í hóp framúrskarandi gestgjafa í Hörpu.
Umsóknir berist á gestgjafi@harpa.is.
Frestur til að sækja um er til og með 22. október nk.
Lýsing á Hörpu ohf.
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús er í eigu ríkisins (54%) og Reykjavíkurborgar (46%) og er rekið undir félaginu Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., kt. 660805-1250.
Starfsemin í Hörpu
Starfsemin í Hörpu er bæði kraftmikil og fjölbreytt. Á liðnu ári var fjöldi tónleika og listviðburða í Hörpu alls um 783 talsins og ríflega 452 ráðstefnur, fundir og tengdir viðburðir voru haldnir. Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt 96 tónleika og er lang stærsti einstaki viðburðarhaldarinn í húsinu. Íslenska óperan, sem einnig á sitt fasta aðsetur í Hörpu, var með 15 viðburði. Alls voru afgreiddir um 190.000 miðar á tónleika og tengda viðburði og margmiðlunarsýning í kjallara Hörpu laðaði til sín rúmlega 15.000 gesti. Harpa er einn af þremur mest sóttu áfangastöðum erlendra ferðamanna í Reykjavík og að auki sífellt vinsælli samkomustaður fjölskyldunnar - en viðburðir fyrir börn og fjölskyldur voru árið 2022 vel á annað hundrað.
Lýsing á umhverfi Hörpu
Harpa er staðsett við gömlu Austurhöfnina í Reykjavík. Húsið er hannað af Henning Larsen Architects í Danmörku, arkitektastofunni Batteríið og listamanninum Ólafi Elíassyni. Við hönnun hússins var lögð áhersla á sveigjanleika svo það geti nýst í heild sinni til stærri sem og smærri viðburða. Mikil uppbygging hefur átt sér stað uppá síðkastið í grennd við Hörpu og má þar einna helst nefna Reykjavík Edition hótelið með 250 herbergjum, höfuðstöðvar Landsbankans með um 800 starfsmönnum, tvö ráðuneyti sem verða til húsa við Hörputorg, íbúðir, verslanir og veitingastaði. Góð tenging er komin á við Hafnartorg, bæði gegnum göngugötuna Reykjastræti sem og með samtengdum bílakjallara þar sem rúmlega 1000 stæði standa gestum til boða.
Harpa er kennileiti, kjölfesta og miðpunktur menningar – hjartað í borginni. Aðkoma í Hörpu er einstök upplifun fyrir gesti. Þetta endurspeglast í heildarupplifun og allri þjónustu sem veitt er í húsinu. Rými og flæði í Hörpu taka mið af þörfum og óskum gesta og stöðugt er verið að bæta upplifun í takti við þarfir þeirra.
Arkitektúr og útsýni fá að njóta sín sem best og sögu Hörpu, tónlist og arkitektúr er hampað. Harpa er helsta tákn Reykjavíkur og eftirsóttur áfangastaður innlendra og erlendra gesta en gestakomur á sl. ári voru um 1.2 milljónir.
Framtíðarsýn og stefna
Harpa kom fersk og endurnýjuð út úr heimsfaraldrinum. Ný og glæsileg gestastofa á jarðhæð, stór hönnunarverslun Rammagerðarinnar, endurhannaðir veitingastaðir, upplifunarrými fyrir börn, margmiðlunarsýning og fjölbreytt viðburðahald gerir Hörpu að enn fjölsóttara félagsheimili þjóðarinnar.
Harpa er húsið þar sem Íslendingar og aðrir gestir koma saman til að hitta hvern annan í dagsins önn, njóta tónlistar, sækja sér þekkingu og halda upp á merkisáfanga lífsins.
Heimavöllur íslenskrar tónlistar og heimssvið fyrir alþjóðlega strauma.
Harpa starfar til að skapa menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti. Harpa auðgar samfélagið með fjölbreyttri dagskrá, aðstöðu og þjónustu sem er ávallt á heimsmælikvarða.
Harpa er heimili tónlistarinnar — menningarhjarta og fjölsóttur áfangastaður fyrir landsmenn og gesti í miðborg Reykjavíkur.
Framúrskarandi aðstaða og þjónusta laða til sín alþjóðlega mikilvæga viðburði.
Harpa er þekkt fyrir gæði og fagmennsku. Með sterku orðspori og markvissri alþjóðlegri markaðssókn er húsið einn eftirstóttasti kostur í Norður-Evrópu fyrir tónlist, ráðstefnur og viðburði.
Framúrskarandi aðstaða og þjónusta laða til sín alþjóðlega mikilvæga viðburði.
Harpa er þekkt fyrir gæði og fagmennsku. Með sterku orðspori og markvissri alþjóðlegri markaðssókn er húsið einn eftirstóttasti kostur í Norður-Evrópu fyrir tónlist, ráðstefnur og viðburði
Samfélagsábyrgð og sjálfbærni.
Harpa places great emphasis on showing responsibility in environmental matters and has completed the implementation of all five Green Steps in public operations. In 2022, Harpa received Swan certification as a conference hall, which increases the competitiveness of the building in an international context. See Harpa's 2022 annual and sustainability report for more details.
Einstakt listaverk, upplifun og áfangastaður.
Harpa rækir hlutverk sitt á framsækinn og frumlegan hátt með tækni og skapandi leiðum sem gerir upplifun notenda og gesta einstaka. Harpa er einstakt listaverk sem íslenska þjóðin er stolt af að eiga. Sögu og hönnun hússins, tónlist og menningu er gert hátt undir höfði og aðgengilegt gestum.
Nýr rekstraaðili að veitingastað á jarðhæð
Harpa leitar nú eftir öflugum og áhugasömum rekstraraðilum að glæsilegum veitingastað á jarðhæð hússins. Miklar breytingar voru gerðar á allri ásýnd og aðstöðu veitingastaðarins árið 2021. Hnoss restaurant hóf þá rekstur og hefur byggt upp gott orðspor og vinsældir meðal gesta hússins. Vegna breyttra aðstæðna eigenda er nú auglýst eftir nýjum aðilum til að taka við rekstri. Hvort tveggja kemur til greina að ganga inn í núverandi rekstur Hnoss eða gera tillögur að nýjum stað.
Sérstaklega er kallað eftir hugmyndum sem ríma við framtíðarsýn og hlutverk Hörpu sem miðstöð mannlífs og menningar í hjarta borgarinnar.
Í boði er samningur til 5 ára með möguleika á framlengingu fyrir réttan aðila. Miðað er við að rekstur hefjist í upphafi 2024.
Farið er með allar tillögur sem trúnaðarmál og persónugreinanleg gögn meðhöndluð í samræmi við lög um persónuvernd.
Umsókn rekstraraðila
Með umsókn skulu fylgja gögn sem veita greinargóðar upplýsingar um umsækjendur, hugmyndir um fyrirhugaðar áherslur og hvernig framboð á veitingum og þjónustu mætir þörfum mismunandi markhópa, hugmyndum um leigugreiðslur, auk hverra annarra þeirra upplýsinga sem umsækjendur telja að nauðsynlegar.
Að lágmarki skal eftirfarandi fylgja umsókn:
- Nafn fyrirtækis, heimilisfang og kennitala, auk ábyrgðarmanns á umsókn og tengiliðs við Hörpu ohf.
- Stutt lýsing á núverandi starfsemi fyrirtækisins.
- Upplýsingar um fyrirhugaðan ábyrgðaraðila rekstrar í Hörpu.
- Grunnupplýsingar um fyrirhugað veitingaframboð og/eða þjónustu.
- Markmið og helstu leiðir í markaðssetningu.
- Upplýsingar um fjárhagslega stöðu fyrirtækis, ársreikningur síðasta rekstrarárs (2022) áritað af löggiltum endurskoðanda eða önnur gögn er sýna með óyggjandi hætti fjárhagslegan styrkleika.
Verklag Hörpu
- Harpa ohf. mun ekki nýta innsendar tillögur í öðrum tilgangi en að meta hvort tilboð falli að markmiðum Hörpu um faglegan og fjárhagslegan styrk rekstraraðila, gæði og fjölbreytni í þjónustu- og veitingaframboði sem höfðar til helstu gestahópa sem sækja húsið heim.
- Farið verður með allar tillögur sem trúnaðarmál og persónugreinanleg gögn meðhöndluð í samræmi við lög um persónuvernd.
- Umsækjendur fá meðfylgjandi teikningar og lista yfir búnað sem tilheyrir staðnum.
- Harpa áskilur sér rétt til að samþykkja eða hafna hvaða umsókn sem er án frekari rökstuðnings.
- Öllum innsendum tillögum verður svarað innan 14 daga frá því að skilafresti lýkur.
Opnunartímar Hörpu
Opnunartími hússins er eftirfarandi:
- Mánudaga kl. 10:00-18:00
- Þriðjudaga kl. 10:00-18:00
- Miðvikudaga kl. 10:00-20:00
- Fimmtudaga kl. 10:00-20:00
- Föstudaga kl. 10:00-20:00
- Laugardaga kl. 10:00-20:00
- Sunnudaga kl. 10:00-18:00
- Miðasala Hörpu er opin alla daga vikunnar frá klukkan 10:00 -18:00 og lengur á viðburðakvöldum.
- Bílastæðahús Hörpu er opið allan sólarhringinn.
Hnoss