22nd March 2024

Öllu tjaldað til í Hörpu

vegna komu Bamberg sinfóníuhljómsveitarinnar

„Fyrstu tón­leik­ar Bam­berg sin­fón­í­unn­ar á Íslandi marka heil­mik­il tíðindi í tón­list­ar­líf­inu og okk­ur er því um­hugað um að sem flest­ir njóti töfranna,“ seg­ir Svan­hild­ur Kon­ráðsdótt­ir for­stjóri Hörpu. Þann 20. apríl verður Harpa iðandi af lífi frá morgni til kvölds í til­efni af komu hljóm­sveit­ar­inn­ar til lands­ins.

Bam­berg sin­fón­í­an er ein fremsta sin­fón­íu­hljóm­sveit Þýska­lands og gríðarlega eft­ir­sótt um all­an heim. Öllu verður tjaldað til þegar hljóm­sveit­in held­ur tón­leika í Eld­borg ásamt franska pí­anó­leik­ar­an­um Hé­lè­ne Grimaud og tékk­neska stjórn­and­an­um Jakub Hrůša – en bæði eru stór­ar stjörn­ur á sínu sviði. Tón­leik­ar Bam­berg sin­fón­í­unn­ar á Íslandi eru þeir fyrstu áður en sveit­in held­ur í tón­leika­ferð til Banda­ríkj­anna en úr Hörpu ligg­ur leiðin meðal ann­ars í Car­negie Hall í New York.

„Harpa hef­ur mik­il­vægu menn­ing­ar­hlut­verki að gegna og er bæði heima­völl­ur fyr­ir tón­list­ar­lífið á Íslandi og heims­svið fyr­ir það besta sem býðst alþjóðlega. Við sinn­um þessu tvíþætta hlut­verki á marg­vís­leg­an hátt og nú er Harpa að bjóða heim framúrsk­ar­andi tón­listar­fólki sem veit­ir inn­blást­ur, viðheld­ur orðspori húss­ins sem tón­list­ar­húss á heims­mæli­kv­arða og nær­ir menn­ing­ar­lífið á Íslandi,“ seg­ir Svan­hild­ur og bend­ir á að í gegn­um árin hafi Harpa staðið fyr­ir tón­leik­um margra af bestu hljóm­sveit­um heims og má þar nefna Concert­ge­bouw sin­fón­íu­hljóm­sveit­ina, Bu­dapest Festi­val Orchestra og Fil­harm­ón­íu­hljóm­sveit­ir Berlín­ar og Lund­úna. Bam­berg bæt­ist því nú í glæsi­leg­an hóp þeirra sem hafa spilað í Eld­borg.

Ungu tón­listar­fólki boðið upp á masterklassa með heimsklassa hljóðfæra­leik­ur­um

„Þegar von er á heimsklassa lista­fólki eins og hér um ræðir þá leggj­um við í Hörpu mikla áherslu á að finna leiðir til að sá sem flest­um fræj­um í þann frjóa jarðveg sem tón­list­ar­lífið á Íslandi er,“ seg­ir Svan­hild­ur. „Við vilj­um gera sem mest úr heim­sókn­um sem þess­um – og er það bæði í sam­ræmi við dag­skrár­stefnu okk­ar og skuld­bind­ing­ar um sam­fé­lags­lega ábyrgð. Í þetta sinn ger­um við það með því að bjóða lengra komn­um nem­end­um í Mennta­skól­an­um í tónlist og Lista­há­skóla Íslands upp á masterklassa með hljóðfæra­leik­ur­um Bam­berg sin­fón­í­unn­ar.“

Í masterklöss­um gefst nem­end­um kost­ur á að læra af hljóðfæra­leik­ur­un­um í gegn­um spila­mennsku og sam­tal. Þetta fyr­ir­komu­lag nýt­ist vel sem inn­blást­ur og hvatn­ing fyr­ir langt komna nem­end­ur sem eru að vinna í að sér­hæfa sig á sínu hljóðfæri. Þetta eru lokaðir tím­ar fyr­ir nem­end­ur Mennta­skól­ans í tónlist og tón­list­ar­deild­ar Lista­há­skóla Íslands.

Klass­íski krakka­dag­ur­inn hald­inn í fyrsta sinn

Fyr­ir yngri kyn­slóðina verður slegið upp sann­kallaðri tón­list­ar­veislu fyrr um dag­inn í sam­starfi við Bam­berg sin­fón­í­una, Sin­fón­íu­hljóm­sveit Íslands og tón­list­ar­skóla á Íslandi und­ir yf­ir­skrift­inni Klass­íski krakka­dag­ur­inn.

„Þetta er í raun stór­merki­leg­ur viðburður því í fyrsta sinn á Íslandi munu tvær sin­fón­íu­hljóm­sveit­ir bjóða upp á dag­skrá fyr­ir fjöl­skyld­ur sama dag­inn. Barna­stund Sin­fó er hugsuð fyr­ir yngstu kyn­slóðina en þar verða flutt tón­verk sem eru sér­stak­lega sniðin að þeim hópi sem er of ung­ur til að sitja heila tón­leika,“ seg­ir Svan­hild­ur.

Seinna um dag­inn verður Bam­berg sin­fón­í­an með tón­leika fyr­ir börn og fjöl­skyld­ur. „Þar geta börn­in fræðst um hljóðfær­in sem mynda sin­fón­íu­hljóm­sveit­ina í gegn­um hinn magnaða for­leik Tann­häuser sem er inn­gang­ur að óperu Wagners um sam­nefnt söngvaskáld,“ seg­ir hún. Tón­list­ar- og dag­skrár­gerðar­kon­an Ingi­björg Fríða Helga­dótt­ir verður kynn­ir á fjöl­skyldu­tón­leik­um Bam­berg.

Ein­stök dag­skrá frá morgni til kvölds

Ekki nóg með að tvær sin­fón­íu­hljóm­sveit­ir flytji klass­ísk verk þenn­an dag í Hörpu held­ur verða nem­end­ur í ís­lensk­um tón­list­ar­skól­um einnig í sviðsljós­inu því þau ætla að fylla opin rými Hörpu af tónlist á Klass­íska krakka­deg­in­um. Eins og öll fjöl­skyldu­dag­skrá á veg­um Hörpu er Klass­íski krakka­dag­ur­inn ókeyp­is og öll­um op­inn.

„Þetta verður ein­stak­ur dag­ur í tón­list­ar­húsi þjóðar­inn­ar þar sem klass­ísk tónlist verður flutt bæði af fag­fólki fyr­ir börn og af börn­um fyr­ir gesti og gang­andi. Deg­in­um lýk­ur svo á tón­leik­um Bam­berg sin­fón­í­unn­ar í Eld­borg sem verður ein­stök upp­lif­un fyr­ir öll enda menn­ing­ar­viðburður á heims­mæli­kv­arða,“ seg­ir Svan­hild­ur.

Efn­is­skrá Bam­berg sin­fón­í­unn­ar er vafa­lítið sér­stakt ánægju­efni fyr­ir unn­end­ur tón­list­ar Rich­ards Wagner því á tón­leik­un­um flyt­ur Bam­berg prelúdíu úr fyrsta þætti Lohengrin og Tann­häuser-for­leik­inn. Einnig verða flutt verk eft­ir tvo sam­tíma­menn Wagners, Sin­fón­ía nr. 3 eft­ir Johann­es Bra­hms og pí­anókonsert Roberts Schumann í flutn­ingi Hé­lè­ne Grimaud.

Hér er hægt að nálg­ast miða á tón­leika Bam­berg sin­fón­í­unn­ar í Hörpu.

Frét­tir