22. mars 2024
Öllu tjaldað til í Hörpu
vegna komu Bamberg sinfóníuhljómsveitarinnar
„Fyrstu tónleikar Bamberg sinfóníunnar á Íslandi marka heilmikil tíðindi í tónlistarlífinu og okkur er því umhugað um að sem flestir njóti töfranna,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu. Þann 20. apríl verður Harpa iðandi af lífi frá morgni til kvölds í tilefni af komu hljómsveitarinnar til landsins.
Bamberg sinfónían er ein fremsta sinfóníuhljómsveit Þýskalands og gríðarlega eftirsótt um allan heim. Öllu verður tjaldað til þegar hljómsveitin heldur tónleika í Eldborg ásamt franska píanóleikaranum Hélène Grimaud og tékkneska stjórnandanum Jakub Hrůša – en bæði eru stórar stjörnur á sínu sviði. Tónleikar Bamberg sinfóníunnar á Íslandi eru þeir fyrstu áður en sveitin heldur í tónleikaferð til Bandaríkjanna en úr Hörpu liggur leiðin meðal annars í Carnegie Hall í New York.
„Harpa hefur mikilvægu menningarhlutverki að gegna og er bæði heimavöllur fyrir tónlistarlífið á Íslandi og heimssvið fyrir það besta sem býðst alþjóðlega. Við sinnum þessu tvíþætta hlutverki á margvíslegan hátt og nú er Harpa að bjóða heim framúrskarandi tónlistarfólki sem veitir innblástur, viðheldur orðspori hússins sem tónlistarhúss á heimsmælikvarða og nærir menningarlífið á Íslandi,“ segir Svanhildur og bendir á að í gegnum árin hafi Harpa staðið fyrir tónleikum margra af bestu hljómsveitum heims og má þar nefna Concertgebouw sinfóníuhljómsveitina, Budapest Festival Orchestra og Filharmóníuhljómsveitir Berlínar og Lundúna. Bamberg bætist því nú í glæsilegan hóp þeirra sem hafa spilað í Eldborg.
Ungu tónlistarfólki boðið upp á masterklassa með heimsklassa hljóðfæraleikurum
„Þegar von er á heimsklassa listafólki eins og hér um ræðir þá leggjum við í Hörpu mikla áherslu á að finna leiðir til að sá sem flestum fræjum í þann frjóa jarðveg sem tónlistarlífið á Íslandi er,“ segir Svanhildur. „Við viljum gera sem mest úr heimsóknum sem þessum – og er það bæði í samræmi við dagskrárstefnu okkar og skuldbindingar um samfélagslega ábyrgð. Í þetta sinn gerum við það með því að bjóða lengra komnum nemendum í Menntaskólanum í tónlist og Listaháskóla Íslands upp á masterklassa með hljóðfæraleikurum Bamberg sinfóníunnar.“
Í masterklössum gefst nemendum kostur á að læra af hljóðfæraleikurunum í gegnum spilamennsku og samtal. Þetta fyrirkomulag nýtist vel sem innblástur og hvatning fyrir langt komna nemendur sem eru að vinna í að sérhæfa sig á sínu hljóðfæri. Þetta eru lokaðir tímar fyrir nemendur Menntaskólans í tónlist og tónlistardeildar Listaháskóla Íslands.
Klassíski krakkadagurinn haldinn í fyrsta sinn
Fyrir yngri kynslóðina verður slegið upp sannkallaðri tónlistarveislu fyrr um daginn í samstarfi við Bamberg sinfóníuna, Sinfóníuhljómsveit Íslands og tónlistarskóla á Íslandi undir yfirskriftinni Klassíski krakkadagurinn.
„Þetta er í raun stórmerkilegur viðburður því í fyrsta sinn á Íslandi munu tvær sinfóníuhljómsveitir bjóða upp á dagskrá fyrir fjölskyldur sama daginn. Barnastund Sinfó er hugsuð fyrir yngstu kynslóðina en þar verða flutt tónverk sem eru sérstaklega sniðin að þeim hópi sem er of ungur til að sitja heila tónleika,“ segir Svanhildur.
Seinna um daginn verður Bamberg sinfónían með tónleika fyrir börn og fjölskyldur. „Þar geta börnin fræðst um hljóðfærin sem mynda sinfóníuhljómsveitina í gegnum hinn magnaða forleik Tannhäuser sem er inngangur að óperu Wagners um samnefnt söngvaskáld,“ segir hún. Tónlistar- og dagskrárgerðarkonan Ingibjörg Fríða Helgadóttir verður kynnir á fjölskyldutónleikum Bamberg.
Einstök dagskrá frá morgni til kvölds
Ekki nóg með að tvær sinfóníuhljómsveitir flytji klassísk verk þennan dag í Hörpu heldur verða nemendur í íslenskum tónlistarskólum einnig í sviðsljósinu því þau ætla að fylla opin rými Hörpu af tónlist á Klassíska krakkadeginum. Eins og öll fjölskyldudagskrá á vegum Hörpu er Klassíski krakkadagurinn ókeypis og öllum opinn.
„Þetta verður einstakur dagur í tónlistarhúsi þjóðarinnar þar sem klassísk tónlist verður flutt bæði af fagfólki fyrir börn og af börnum fyrir gesti og gangandi. Deginum lýkur svo á tónleikum Bamberg sinfóníunnar í Eldborg sem verður einstök upplifun fyrir öll enda menningarviðburður á heimsmælikvarða,“ segir Svanhildur.
Efnisskrá Bamberg sinfóníunnar er vafalítið sérstakt ánægjuefni fyrir unnendur tónlistar Richards Wagner því á tónleikunum flytur Bamberg prelúdíu úr fyrsta þætti Lohengrin og Tannhäuser-forleikinn. Einnig verða flutt verk eftir tvo samtímamenn Wagners, Sinfónía nr. 3 eftir Johannes Brahms og píanókonsert Roberts Schumann í flutningi Hélène Grimaud.
Hér er hægt að nálgast miða á tónleika Bamberg sinfóníunnar í Hörpu.
Fréttir
4. desember 2024
Opnunartími í Hörpu yfir hátíðirnar
Kynntu þér opnunartímana og dagskrána í Hörpu yfir hátíðirnar
6. nóvember 2024
Verðlaunahafar Norðurlandaráðs heimsóttu Hörpu
Svanhildur Konráðsdóttir tók á móti hópi verðlaunahafa Norðurlandaráðs á dögunum.
22. október 2024
Styrkir til tónleikahalds í Hörpu
Umsóknir til tónleikhalds árið 2025