Fjöl­skyldu­dag­skrá

Harpa leggur ríka áherslu á barna- og fjölskyldumenningu og býður upp á fjölskyldudagskrá sem er aðgengileg öllum börnum. Gestum að kostnaðarlausu.

Fjölskyldudagskrá Hörpu á að vera aðgengileg öllum börnum og fjölskyldum; óháð fjárhag, uppruna, tungumáli eða heimili þeirra. Lögð er áhersla á þátttöku, upplifun, fræðslu, fjölbreytni og fjölmenningu við dagskrárgerðina.

Viðburðir eru gestum að kostnaðarlausu og lagt er kapp á að tengjast mismunandi hópum samfélagsins, til dæmis með túlkun á mismunandi tungumálum eða beinni þátttöku barna af ólíkum leik-, grunn- eða tónlistarskólum.

Harpa leggur sífellt meiri áherslu á að ná til allra barna til að sýna þeim að þau eigi sér stað í Hörpu og geti notið menningar og lista, auk þess að skapa sjálf. Í dagskrárstefnu Hörpu fyrir börn og fjölskyldur er áhersla sett á að aðlaga viðburði að börnum og fjölskyldum af ólíkum uppruna og með ólíkar þarfir.

Dagskráin er sérstaklega gerð með inngildingu og aðgengi fyrir öll börn og fjölskyldur að leiðarljósi.

Vinsamlega athugið að hér fyrir neðan birtast allir viðburðir fyrir börn og fjölskyldur sem haldnir eru í Hörpu. Harpa leigir einnig út sali til viðburðahaldara og eru þeir viðburðir ekki hluti af fjölskyldudagskrá Hörpu. Viðburðir á vegum Hörpu og eru ókeypis eru merktir Fjölskyldudagskrá Hörpu.

Fjölskyldudagskrá Hörpu

Hljóðhimnar

Ein af afmælisgjöfunum á 10 ára afmæli Hörpu 2021 var hönnun á nýju rými sérstaklega hugsað fyrir börn og fjölskyldur. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan og Stórsveit Reykjavíkur, sem eiga sitt fasta aðsetur í Hörpu, eru meðal þeirra sem lögðu sitt af mörkum til þess að skapa einstakt upplifunarferðalag um töfraheim hljóðs og tóna. Rýmið var opnað í mars 2022 og hlaut hið fallega nafn Hljóðhimnar. Þverfaglega hönnunarteymið ÞYKJÓ leiddi hönnunarferlið í samstarfi við Hörpu, Gagarín, Vísindasmiðjuna, Reykjavík Audio, IRMA, fyrrnefnda íbúa hússins og síðast en ekki síst Krakkaráð ÞYKJÓ.

ÞYKJÓ

ÞYKJÓ er þverfaglegt hönnunarverkefni fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði textíl-, leikfanga- og upplifunarhönnunar. Hönnunarstarf ÞYKJÓ miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik.

Hljóðhimnar hönnun, smíði og upptökur