Græn stefna

Harpa vill vera til fyrirmyndar og leggur ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og vinnur markvisst að því að auka sjálfbærni á öllum sviðum starfseminnar.

Harpa hefur mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu með rekstri á tónlistar- og ráðstefnuhúsi þar sem tilgangurinn er að skapa menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti fyrir eigendur sína, sem eru landsmenn allir.

Sjálfbærniáherslur og stefna Hörpu taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og á síðastliðnu ári hófst innleiðing UFS sjálfbærnimælikvarða í starfsemina. Stýrihópur í samfélagsábyrgð vann að kortlagningu helstu snertiflata starfseminnar við umhverfi, efnahag og samfélag og fyrsta Árs- og sjálfbærniskýrsla Hörpu kom út í tengslum við aðalfund 2023.

Sjálfbærnivegferð Hörpu hófst árið 2015 með skýrum umhverfismarkmiðum sem sneru að því að vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stefna að kolefnishlutleysi í starfseminni árið 2030.

Harpa er í markvissu alþjóðarsamstarfi um sjálfbærni með helstu tónleikahúsum í Evrópu. Árlega eru haldnir hátt í 1300 viðburðir í Hörpu og er gestafjöldinn sem sækir húsið heim vel yfir milljón talsins. Miðað við umfang starfseminnar og fjölda viðskiptavina getur Harpa haft veruleg áhrif til að auka sjálfbærni í viðburðahaldi á Íslandi og er staðráðin í að vera leiðandi á því sviði.

Harpa leitast við að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og taka þannig virkan þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Harpa gaf út Loftslags- og umhverfisstefnu árið 2021 og hefur unnið að því með markvissum hætti að vera fyrirmynd í umhverfis- og loftslagsmálum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni. Ári seinna kom út aðgerðaáætlun Hörpu í loftlagsmálum 2022 – 2024 en hún inniheldur töluleg og tímasett markmið til þess að draga markvisst úr losun fyrirtækisins.

Í nóvember 2015 undirritaði forstjóri Hörpu yfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í loftlagsmálum sem var kynnt á Parísarráðstefnunni um loftlagsmál í desember sama ár. Samkvæmt Loftlagsstefnu stjórnarráðsins eru gerðar kröfur um að allar ríkisstofnanir uppfylli öll fimm Grænu skrefin fyrir árslok 2021.

Harpa hefur lokið öllum 5 Grænum skrefum Umhverfisstofnunar. Með þátttöku í Grænum skrefum hefur Harpa innleitt öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar. Formaður umhverfisnefndar Hörpu og Grænna skrefa ber ábyrgð á að umhverfisstarf Hörpu sé rýnt og grænu bókhaldi skilað árlega.

Umhverfis– og loftslagsstefna Hörpu er rýnd árlega af stýrihópi umhverfismála Hörpu þar sem yfir- og undirmarkmið eru uppfærð með tilliti til þróunar í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Undirmarkmið Hörpu er í vinnslu hjá stýrihópi og eru þau tengd Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Umhverfis- og loftslagsstefna Hörpu

Endurnýtanleg orka

  • Nánast öll orka sem íslensk heimili og fyrirtæki nota er frá hreinum, endurnýjanlegum jarðhita- eða vatnsorkugjöfum.
  • Harpa er tengd við íslenska raforkukerfið sem hefur eitt hæsta hlutfall nýtanlegs tíma í heiminum.
  • Loftræsting í sölum er stillt eftir nýtingu hverju sinni til að tryggja að engin orka fari til spillis.
  • Smærri rými eru með skynjara til að hámarka nýtingu orku hverju sinni.
  • Allar hliðar Hörpu er úr gleri sem dregur verulega úr kostnaði við lýsingu.
  • Hiti frá sölum er endurnýttur með því að streyma honum áfram í framhús til að hita opin almenningsrými.
  • Árið 2021 var lokið við að LED-væða ljós í öllum sölum og almenningsrými Hörpu.
  • Veturinn 2022 voru settar upp 13 rafhleðslustöðvar í bílahúsi Hörpu í neðri kjallara sem eru opnar öllum með ON hleðslulykil.

Endurvinnsla

  • Allt sorp í Hörpu er flokkað og endurvinnanlegt sorp sent í endurvinnslu. 
  • Flokkað er í 23 flokka og skipulega unnið að því að sorp skili sér í rétta flokka.  
  • Gestir eru markvisst hvattir til að flokka sorp og skilja ekkert eftir.
  • Skipulega er unnið að því að allt útgefið efni sé á rafrænu formi í stað pappírsútgáfu.
  • Allar einnota matarumbúðir eru endurvinnanlegar.
  • Harpa afþakkar allan fjöldapóst.
  • Harpa gerir árlega greiningu á úrgangsmyndun og setur markmið um hve mikið skal draga úr myndun úrgangs ár frá ári.

Einstök vatnsgæði

  • Vatnið sem notað er í Hörpu er frá drykkjarvatnslindum í nágrenni Reykjavíkur. Þetta vatn er einstakt að gæðum og þarfnast engrar meðhöndlunar áður en því er dreift til neytenda.
  • Heitt vatn frá Hörpu er endurnýtt í snjóbræðslu og tjarnir fyrir utan húsið.

Viðhald og þrif

  • Öll hreinsiefni sem notuð eru í Hörpu eru með Svansmerkinu sem er þekkt og virt umhverfis­vottunarmerki á Norðurlöndunum.
  • Harpa kaupir einungis umhverfisvottaðan salernispappír og handþurrkur
  • Á almenningssalernum hefur handþurrkum verið skipt út fyrir handblásara til að sporna við pappírssóun.
  • Almennum tunnum hefur markvisst verið fækkað sem og plastpokum og svartir ruslapokar eru ekki notaðir lengur í húsinu.

Meðferð matvæla og drykkja

  • Veisluþjónusta Hörpu skiptir aðeins við birgja sem stunda vistvæna viðskiptahætti og notar ferskt, íslenskt hráefni eins og kostur er.
  • Veitingaraðilar í Hörpu leggja áherslu á að nota margnota borðbúnað.
  • Allar umframbirgðir af matvælum eru gefnar til góðgerðarsamtaka.

Innkaup

  • Harpa skiptir eins og kostur er við umhverfisvottaða birgja.
  • Harpa fer fram á að birgjar upplýsi félagið reglulega um þær umhverfisvottuðu og/eða vistvænu vörur og þjónustu sem þeir bjóða upp á hverju sinni.
  • Harpa leggur áherslu á að lágmarka umbúðir og að vörusendingar til Hörpu séu í pappaumbúðum og endurnýttar ef kostur er.

Kolefnisjöfnun

  • Harpa kolefnisjafnar flug allra starfsmanna og gesta á vegum Hörpu.
  • Harpa hefur sett sér Umhverfis- og loftlagsstefnu. Stefnuna í heild sinni má lesa hér fyrir neðan.
  • Frá árinu 2020 hefur Harpa tekið þátt í tveimur verkefnum til að sem tengjast því að kolefnisjafna starfsemi sína; Kolvið og Votlendissjóð.

Markmið fyrir árið 2030

  • Hlutfall endurvinnanlegs úrgangs verði 75%.
  • Hlutdeild vistvænni ferðamáta til og frá vinnu verði 30%.
  • Kolefnisjafna alla losun gróðurhúsalofttegunda sem ekki er hægt að koma í veg fyrir.

Svansvottað ráðstefnuhús

Harpa er stolt af því að hafa hlotið Svansvottun sem ráðstefnuhús 2022. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggir á óháðri vottun og viðmiðum sem staðfestir strangar umhverfis- og gæðakröfur starfseminnar. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins með hag komandi kynslóða að leiðarljósi og bjóða neytendum val um umhverfisvæna kosti.

5 Grænum skrefum lokið

Harpa hefur lokið 5. og síðasta skrefinu í átakinu Græn skref og hlaut viðurkenningu Umhverfisstofnunar í júlí 2022. Átakið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsfólks. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem Harpa þurfti að innleiða í sinn rekstur til að geta lokið hverju skrefi.

Græn stefna Hörpu