Salir Hörpu
Eldborg
Eldborg er stærsti salur Hörpu þar sem öll hönnun og útfærsla skapar glæsilega umgjörð. Salurinn hlaut hin virtu byggingarlistaverðlaun United States Institute of Theatre Technology (USITT) fyrir framúrskarandi hljómburð og þykir Eldborg standa vel undir nafni sem tónleikasalur á heimsmælikvarða.
Silfurberg
Silfurberg er helsti ráðstefnusalur Hörpu og er á annarri hæð hússins. Silfurberg er sérhannaður sem ráðstefnusalur með fyrsta flokks ljósabúnaði, hljóðkerfi og túlkaklefum. Salurinn hentar einnig vel fyrir rafmagnaða tónlist og veisluhöld. Hægt er að skipta salnum í tvennt með fellivegg sem er hljóðeinangraður og rúmar þá hvor salur um sig um 325 gesti í sæti.
Norðurljós
Norðurljós er hin fullkomna umgjörð utan um ýmis konar viðburði. Með sérhönnuðum ljósabúnaði sem hægt er að stilla í ýmsum litbrigðum má búa til þá stemningu sem óskað er eftir í hvert sinn. Tvennar hljóðeinangraðar dyr tengja Norðurljós og Silfurberg þannig að mögulegt er að samnýta salina með góðum árangri fyrir stærri viðburði.
Kaldalón
Kaldalón hentar sérstaklega vel fyrir minni tónleika, ráðstefnur, fundi og fyrirlestra. Salurinn er með hallandi sætum og hægt er að sýna myndbönd á stóru sýningartjaldi. Norðurbryggja, fyrir framan Kaldalón, skartar stórkostlegu útsýni yfir smábátahöfnina og hentar afar vel fyrir ýmis konar móttökur og sýningar.
Björtuloft
Björtuloft eru staðsett á efstu hæðum Hörpu — með stórbrotnu útsýni yfir borgina, höfnina og fjallahringinn allt um kring. Björtuloft eru sérstaklega glæsileg og óvenjuleg umgjörð fyrir veislur og rúma 100 gesti. Salurinn er á tveimur hæðum. Á neðri hæð er fastur bar og útgengi á svalir.
Háaloft
Háaloft er glæsilegur salur á efstu hæð Hörpu. Hann býður upp á stórkostlegt útsýni yfir vesturborgina, höfnina, Faxaflóann og fjallahringinn. Háaloft rúmar 50 gesti en salinn má nýta með Björtuloftum samhliða eða sem stækkun.
Sýningarrými
Opin rými Hörpu bjóða upp á fjölbreytta aðstöðu fyrir móttökur og sýningar. Fjölmörg opin rými innan Hörpu bjóða einnig upp á möguleika fyrir stórar sem smáar veislur og móttökur. Veisluþjónusta Hörpu, er með færanlega veitingabari sem flytja má milli rýma, eftir hentugleika.