Aðgengi

a man sits on the floor with a blind dog

Upplýsingar um aðgengismál í Hörpu og aðstoð sem í boði er.

Aðgengi í Hörpu fyrir hreyfihamlaða



Aðgengi fyrir hjólastóla er mjög gott í Hörpu en þrjár lyftur fara beint úr bílakjallara upp á 2., 3., 4., og 5. hæð. Í öllum tónleikasölum eru sérmekt svæði ætluð hjólastólum en þau stæði þarf alltaf að panta í miðasölu Hörpu.

Eldborg: Alls eru átta stæði eru fyrir hjólastóla í Eldborg. Stæðin eru gjaldfrjáls en greitt er fyrir aðstoðarmann sé hans þörf. Á nokkrum stöðum í sal og á svölum eru lausir stólar sem hægt er að fjarlægja og koma fyrir hjólastól en þau stæði eru ekki gjaldfrjáls og þarf að panta með góðum fyrirvara. Athugið að ekki er hægt að nýta þessi sæti á öllum viðburðum.

Silfurberg: Stæði fyrir hjólastóla eru í miðjum sal, sama gjald er tekið fyrir þau stæði og önnur sæti í salnum.

Norðurljós: Stæði fyrir hjólastóla eru í salnum, sama gjald er tekið fyrir þau og önnur sæti í salnum.

Kaldalón: Stæði fyrir hjólastóla er á aftasta bekk í salnum, sama gjald er tekið fyrir þau og önnur sæti í salnum.

Aðstoð við sjóndapra

Þjónustufulltrúar Hörpu aðstoða sjóndapra við að komast á milli staða í Hörpu en nauðsynlegt er að láta miðasölu vita með góðum fyrirvara. Best er að senda tölvupóst á midasala@harpa.is eða hafa samband í síma 528 5050.

Aðstoð við heyrnaskerta

Fólk sem notar heyrnartæki hefur verulegt gagn af tónmöskvakerfi eða
sambærilegu kerfi sem er notað til að draga úr aukahljóðum og bæta hlustun. Í Hörpu er hægt að fá afnot af slíkum búnaði en hann virkar þannig að það eru sendar í loftinu sem gefa frá sér innrautt merki. Merkið sendist í móttakara, heyrnartól eða hljóðslaufu sem virkar með heyrnartækjum.
Gestir sem óska eftir að fá afnot af búnaðinum eru beðnir um að láta vita í miðasölu þegar miðar eru keyptir. Athugið að aðeins eru sendar inn í Eldborg, Silfurbergi, Norðurljósum og Kaldalóni.

Leiðsöguhundar/hjálparhundar

Í vissum sölum Hörpu eru sæti ætluð gestum með leiðsögu- eða hjálparhund. Sætin þarf að panta tímanlega í miðasölu Hörpu.


Eldborg: Gert er ráð fyrir gesti með leiðsögu- eða hjálparhund á 3. svölum.

Silfurberg: Gert er ráð fyrir gesti með leiðsögu- eða hjálparhund aftast í sal hægra megin.

Norðurljós: Gert er ráð fyrir gesti með leiðsögu- eða hjálparhund aftast í sal vinstra megin.

Kaldalón: Gert er ráð fyrir gesti með leiðsögu- eða hjálparhund á aftasta bekk í salnum.

Leiðsögu- eða hjálparhundur skal ekki vera í sæti eða í gangvegi, heldur skal hann sitja eða liggja á gólfi fyrir framan eða til hliðar við eiganda sinn. Ef mögulegt er skal hundurinn vera með múl. Hundurinn þarf að vera skýrt merktur sem leiðsögu- eða hjálparhundur, til dæmis með beisli eða vesti.