Tónleikaröð tileinkuð grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur.
Upprásin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka við fjölbreytni. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.
Grasrótin blómstrar í Hörpu með tónleikaröðinni sem hóf göngu sína haustið 2023. Alls bárust 134 umsóknir fyrsta árið og voru valin 26 tónlistaratriði fyrir veturinn 2023/24. Fyrir veturinn 2024/25 voru 27 atriði valin.
Tónleikaröðin á heima í Kaldalóni á jarðhæð Hörpu og eru tónleikarnir haldnir eitt þriðjudagskvöld í mánuði frá september og fram í maí. Þrjú atriði koma fram hvert kvöld. Aðgangseyri er haldið í lágmarki til að gefa sem flestum kost á að mæta.
Upprásin var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum tónlistarviðburður ársins 2023 og til árlegu tónlistarverðlauna The Grapvevine í flokknum "Shout out", en verðlaunin eru veitt þeim sem eru talin hafa bætt tónlistarheiminn á árinu.
Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík, Rás 2 og Landsbankann, stendur fyrir tónleikaröðinni.
Harpa styrkir tónleikaröðina með því að veita aðstöðu, tækjabúnað og tæknimann auk utanumhalds. Tónlistarborgin Reykjavík greiðir laun tónlistarfólks og styður við skrásetningu viðburðanna og Rás 2 sér um að kynna þá, m.a. í þættinum Ólátagarði. Tónlistarfólkið sem kemur fram hverju sinni fær tilbúnar upptöku frá tónleikunum og styrkir Landsbankinn hljóðvinnsluna. Stúdíó Sýrland kemur einnig að viðburðinum, en nemendum þeirra sem læra hljóðtækni býðst að koma í starfsnám í Hörpu alla daga sem Upprásin fer fram.
Umsóknarferlið
Tekið er á móti umsóknum í maí ár hvert og er það auglýst sérstaklega þegar umsóknarferlið hefst ásamt leiðbeinginum um framkvæmd.
Allt tónlistarfólk sem skilgreinir sig sem grasrót í íslensku tónlistarlífi, af öllum kynjum og þjóðernum, er hvatt til að sækja um. Valnefnd fer yfir innsendar umsóknir og velur það tónlistarfólk sem kemur fram í tónleikaröðinni en þrjár hljómsveitir koma fram á hverju kvöldi. Valnefndina skipa Karl Sölvi Sigurðsson fyrir hönd Rásar 2, Ása Dýradóttir fyrir hönd Tónlistarborgarinnar Reykjavík, Sóley Stefánsdóttir fyrir hönd dagskrárráðs Hörpu og Elísabet Indra Ragnarsdóttir verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu.
Valnefnd fer yfir innsendar umsóknir og velur það tónlistarfólk sem kemur fram í tónleikaröðinni en þrjár hljómsveitir koma fram á hverju kvöldi.
Valnefndina skipa Karl Sölvi Sigurðsson fyrir hönd Rásar 2, Ása Dýradóttir fyrir hönd Tónlistarborgarinnar Reykjavík, Sóley Stefánsdóttir fyrir hönd dagskrárráðs Hörpu og Elísabet Indra Ragnarsdóttir verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu.
Hér má sjá næstu tónleika í Upprásinni