24. mars 2025
Elísabet Indra tekur við sem verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu.
Elísabet Indra Ragnarsdóttir var valin úr sterkum hópi um 60 umsækjenda um starfið sem felur í sér yfirumsjón með viðburðum og fjölskyldudagskrá á vegum Hörpu auk helstu samstarfsverkefna og ókeypis tónlistarviðburða í opnum rýmum hússins.

Elísabet Indra hefur margþætta reynslu úr menningarlífinu en hún hefur starfað við verkefna- og viðburðastjórn á sviði menningarmála hjá Kópavogsbæ, Listaháskóla Íslands, Mengi, Listahátíð í Reykjavík og Reykjavík Midsummer Music. Hún starfaði um árabil sem dagskrárgerðarmaður hjá Rás 1, RÚV þar sem hún stýrði menningarþáttum af ólíku tagi. Hún hefur tekið að sér fjölbreytt verkefni á sviði tónlistarumfjöllunar og miðlunar, meðal annars fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og gegnt trúnaðarstörfum fyrir STEF, Sumartónleika í Skálholti, Tónskáldafélag Íslands, RÚV og Hörpu.
Elísabet Indra er með MA í tónlistarfræðum frá Goldsmiths College í London, BA í íslensku frá HÍ og fiðlukennarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún hefur lokið diplómu í heimilda- og fléttuþáttagerð fyrir útvarp og stundað nám í menningarmiðlun við HÍ. Hún hefur starfað sem viðburða- og verkefnastjóri menningarmála hjá Kópavogsbæ frá árinu 2020.
,,Ég tek við starfinu full af tilhlökkun. Framundan eru ótrúlega spennandi viðburðir og verkefni í Hörpu sem lúta að innlendri grasrót og tilraunamennsku, alþjóðlegum stórviðburðum og viðburðum sem spanna allt litróf samfélagsins. Harpa hefur svo margþættu hlutverki að gegna, hún er heimssvið, heimavöllur og iðandi borgartorg þar sem við öll finnum okkur stað. Og allt gert á heimsmælikvarða. Mikill heiður að fá að taka þátt í því.”