Eigenda­stefna

Fyrir rekstur og starfsemi Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. sem er í eigu íslenska ríkisins (54%) og Reykjavíkurborgar (46%) gildir eftirfarandi:

1. Hlutverk Hörpu

Hlutverk Hörpu er að vera vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf sem og hvers konar ráðstefnur, fundi og samkomur, innlendar og erlendar.Hlutverk hússins er jafnframt að vera miðstöð mannlífs fyrir alla landsmenn í miðborg Reykjavíkur og áfangastaður ferðamanna innlendra og erlendra sem vilja kynna sér bygginguna, þjónustu í henni og arkitektúr og listaverk í húsinu.

2. Markmið eigenda

Markmið ríkis og Reykjavíkurborgar með byggingu og rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu er að efla íslenskt tónlistar- og menningarlíf, styrkja stöðu Íslands á sviði ráðstefnuhalds og ferðaþjónustu og stuðla að öflugu mannlífi í miðborginni.Markmiðin rækir félagið einkum með því að leigja út sali og rými til tónlistarviðburða, ráðstefnuhalds og funda og tengdrar starfsemi á samkeppnishæfu verði, með því að standa fyrir samstarfsverkefnum og eigin verkefnum eftir því sem rekstur félagsins leyfir, með því að skipuleggja aðra starfsemi í húsinu s.s. veitingarekstur og verslun, til að laða að gesti og gangandi, og með því að standa opið ferðamönnum, innlendum sem erlendum, árið um kring.Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur fast aðsetur í Hörpu fyrir starfsemi sína og greiðir sanngjarna leigu fyrir aðstöðuna. Um rekstur hljómsveitarinnar fer eftir lögum nr. 36/1982 um Sinfóníuhljómsveit Íslands.Íslenska óperan hefur jafnframt aðsetur í Hörpu fyrir starfsemi sína og greiðir sanngjarna leigu fyrir aðstöðuna.

3. Fjárhags- og rekstrarleg markmið

Rekstur tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu skal standa undir sér þannig að ekki þurfi að koma til frekari opinberra framlaga en kveðið er á um í verkefnissamningi eigenda (núgildandi Project Agreement frá 19. janúar 2010) að teknu tilliti til viðbótarframlaga eigenda í tengslum við gerð þessarar eigendastefnu 2012.Tryggja skal hagkvæma nýtingu þeirra fjármuna sem lagðir hafa verið í verkefnið á undanförnum árum með skilvirkri og markvissri fjármálastjórn þannig að reksturinn verði innan þess fjárhagsramma sem starfseminni hefur verið markaður í samningum félagsins.  Miða skal að því að reksturinn verði fjárhagslega stöðugur til skemmri og lengri tíma litið og skili framlegð sem er ásættanleg þegar tekið er mið af starfsemi og verkefnissamningi.

4. Stjórn og skipulag

Stjórn og stjórnendum Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúss ber að gæta hagsmuna hússins í hvívetna.Stjórn félagsins starfar eftir þeim lögum og reglum sem gilda um opinber hlutafélög, er sjálfstæð í störfum sínum og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri félagsins gagnvart eigendum sínum. Hún hefur fyrir hönd eigenda sjálfstæða eftirlitsskyldu með rekstri og starfsemi félagsins.Stjórn félagsins skal hafa yfirsýn yfir starfsemina og veita stjórnendum eðlilegt aðhald.  Stjórnin ber ábyrgð á að félagið starfi í samræmi við eigendastefnu, starfsreglur fyrir stjórn, fyrirliggjandi samninga og árangursviðmið eigenda.Forstjóri félagsins er ráðinn af stjórn og ber ábyrgð á störfum sínum gagnvart henni.

5. Stjórnarhættir

Eigendur Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúss bera upp mál er varða félagið á formlegum fundum eigendanefndar (hluthafafundum) sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins.Ábyrgðarskil milli eigenda og stjórnar félagsins byggjast á ákvæðum í þessari eigendastefnu, verklagsreglum eigendanefndar, starfsreglum fyrir stjórn og almennt viðurkenndum reglum um starfsemi sjálfstæðra félaga.Eigendur setja verklagsreglur um störf eigendanefndar m.a. varðandi val fulltrúa í stjórn félagsins.  Kappkosta skal að velja stjórnarmenn með reynslu, tengsl og innsýn sem hæfir starfsemi tónlistar- og ráðstefnuhúss.  Þeir skulu hafa fjölbreytta menntun og víðtæka og haldgóða þekkingu og reynslu af stjórnsýslu, rekstri, ferðaþjónustu, ráðstefnuhaldi og tónlistar- og -menningartengdri starfsemi. Huga skal að jafnréttissjónarmiðum og þess sé gætt að störf í stjórninni valdi ekki hagsmunaárekstrum við önnur störf.

6. Stefnumörkun og framtíðarsýn

Stjórn félagsins hefur forystu um að móta stefnu fyrir húsið og setja félaginu markmið í samræmi við þessa eigendastefnu.  Til fyllingar áherslum sem fram koma í eigendastefnunni skal félagið setja sér skýr og metnaðarfull markmið í rekstri.

7. Starfshættir og vinnulag

Auglýsa skal laus störf í félaginu og stjórnendur og starfsfólk skal ráðið til starfa á grundvelli hæfni.  Félagið skal setja sér hóflega en samkeppnishæfa starfskjarastefnu.Félagið skal leitast við að auka fjölbreytileika og draga úr fákeppni á starfssviði sínu. Það skal stunda vistvæn innkaup ef kostur er og haga þeim á sem hagkvæmastan hátt. Félagið setji sér skýrar og einfaldar reglur um innkaup í samræmi við stefnumörkun ríkis og Reykjavíkurborgar á þessu sviði.Gæta skal jafnræðis og gagnsæis við sölu eða ráðstöfun á eignum félagsins.

8. Samskipti og upplýsingar til eigenda

Stjórn Hörpu – tónlistar- og ráðstefnuhúss skal kynna eigendanefnd stefnumörkun stjórnar.  Árlega skal leggja fyrir eigendanefnd til kynningar áætlun um rekstur og starfsemi félagsins. Félagið skal a.m.k. tvisvar á ári kynna tengiliðum úr stjórnsýslunni sem eigendur tilnefna til ábyrgðar gagnvart félaginu árshlutareikning og fjárhagslega stöðu.Félagið skal leita samþykkis eigenda um meiri háttar fjárfestingar og meiriháttar lántökur, sem og um starfsemi á nýju sviði, stofnun nýrra félaga og skuldbindandi langtímasamninga sem ekki teljast eðlilegur hluti af daglegum rekstri félagsins.Fari nýfjárfesting eða aðrar fjárhagslegar skuldbindingar yfir 20% af áætluðum árlegum reglubundnum tekjum skal fara fram áhættugreining sérfróðs og hlutlauss aðila.  Leggja skal niðurstöðuna fyrir eigendur.

9. Birting upplýsinga til almennings

Eigendastefnan skal vera aðgengileg almenningi og fjölmiðlum og birt á vefsíðum félagsins og eigenda þess.Félagið skal miðla framtíðarsýn sinni, stefnumörkun og árangri á vefsíðu sinni eða með öðrum opinberum hætti.Um birtingu annarra upplýsinga fer eftir lögum og reglum um opinber hlutafélög og rekstur félagsins.

10. Breytingar á eigendastefnu

Eigendastefnunni verður ekki breytt nema með samþykki eigenda á eigendafundi (hluthafafundi).