24. ágúst 2022

Harpa glitraði og ómaði

með litríkri fjölskyldudagskrá á Menningarnótt.

Það er ávallt mikil gleði í Hörpu á Menningarnótt og hefð fyrir því að bjóða upp á litríka fjölskyldudagskrá þar sem listamenn fylla húsið af tónlist, dansi og list.

Hátt í 10.000 gestir á öllum aldri sóttu fallega húsið okkar heim og gleðin var allsráðandi!

Setning Menningarnætur var á Hörputorgi og hófst dagskráin með látum þegar tónlistarmaðurinn Jón Jónsson sveif af þaki Hörpu spilandi eitt af sínum vinsælustu lögum og tóku gestir vel undir.

Dagskráin var fjölbreytt og mátti finna eitthvað fyrir alla aldurshópa. Maxímús Músíkús var á ferð um húsið og heilsaði upp á börnin, Karlakórinn Fóstbræður og Hallelujah Junction voru með tónleika í Norðurljósum. Hringleikur sýndi loftfimleika og sirkusatriði undir harmonikkuleik Halldórs Smárasonar. Dansinn dunaði í Flóa þar sem Bollywood Iceland, List án landamæra og Ballistar stýrðu þátttökudönsum og gestir á öllum aldri skemmtu sér konunglega. Karíus og Baktus og ávextir úr Ávaxtakörfunni skemmtu krökkunum við mikinn fögnuð yngstu gestanna, myndalistarsýningin Litróf hafsins á vegum List án landamæra skrýddi Hafnarstræti. Þá var færeysk tónlistardagskrá í Kaldalóni og Trío Kristjönu Stefáns, Múlakvintettinn og Hundur í óskilum skemmtu í Hörpuhorni auk fjölda annarra listamanna.

Lokaatriði Menningarnætur í Hörpu var afar glæsilegt og kraftmikið þar sem þrír kórar; Fóstbræður, Mótettukórinn og Kvennakór Reykjavíkur fylltu opin rými hússins af fallegum söng sem endaði með samsöng kóranna þriggja, undir stjórn Árna Harðarsonar, og gesta Hörpu sem settu þannig punktinn yfir i-ið í glæsilegri dagskrá hússins.

Harpa þakkar öllum listamönnunum sem fram komu sem og gestum hússins fyrir komuna.

Eins og sjá má af myndunum var mikil gleðistemning og sannkölluð menningarstund fyrir alla fjölskylduna í Hörpu!

Fréttir