Hljóðhimnar
Hljóðhimnar eru upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur þeirra, staður til að uppgötva töfraheim hljóðs og tóna.
Í Hljóðhimnum er hægt að setja sig í stellingar hljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hjúfra sig upp að vögguvísum og sönglögum Íslensku Óperunnar, kíkja inn í músaholur eins og Maxímús Músíkús, sigla um tónlistarinnar höf með Tónstýri Stórsveitar Reykjavíkur og margt fleira.
Hljóðhimnar eru upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur þeirra, staður til að uppgötva töfraheim hljóðs og tóna. Í Hljóðhimnum slær hjarta barnamenningar í Hörpu.
Aðgangur að Hljóðhimnum er frír.
Vinsamlega athugið að á álagstímum getur reynst nauðsynlegt að koma á aðgangsstýringu í Hljóðhimnum. Þá er börnum ekki hleypt inn í rýmið nema í fylgd með fullorðnum. Hámarksfjöldi í einu er 30.
Hugmyndin og hönnunarferlið á bak við Hljóðhimna
Ein af afmælisgjöfunum á 10 ára afmæli Hörpu 2021 var hönnun á nýju rými sérstaklega hugsað fyrir börn og fjölskyldur. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan og Stórsveit Reykjavíkur, sem eiga sitt fasta aðsetur í Hörpu, eru meðal þeirra sem lögðu sitt af mörkum til þess að skapa einstakt upplifunarferðalag um töfraheim hljóðs og tóna. Rýmið hlaut hið fallega nafn Hljóðhimnar og er staðsett á jarðhæð í Hörpu. Þverfaglega hönnunarteymið ÞYKJÓ leiddi hönnunarferlið í samstarfi við Hörpu, Gagarín, Vísindasmiðjuna, Reykjavík Audio, IRMA, fyrrnefnda íbúa hússins og síðast en ekki síst Krakkaráð ÞYKJÓ.
Krakkaráð ÞYKJÓ
Krakkaráð ÞYKJÓ er skipað 100 börnum á aldrinum 5–7 ára. Með krakkaráðinu var tryggt að börn kæmu að verkefninu og hefðu áhrif á hönnunarferlið. Í júlí sl. komu 100 börn á aldrinum 5-7 ára í smiðjur með hönnuðum ÞYKJÓ og vísindamönnum Vísindasmiðjunnar í Hörpu. Í smiðjunum var meðal annars leitað leiða til að miðla hljóðeðlisfræði, hvernig hljóðbylgjur hreyfa loftið og hvernig tónlist hreyfir við okkur. Hönnuðir hófu hugmyndaferlið á hugarflugi með krökkunum og saman létum við okkur dreyma um hvernig þetta rými ætti að verða. Samstarfið og samtalið við börnin er grunnurinn, sem hönnunarvinna ÞYKJÓ fyrir Hljóðhimna byggði á, og í vinnuferlinu eru börn reglulega fengin að borðinu til að veita sitt sérfræðiálit.
Töfrandi ár fyrir barnamenningu í Hörpu
Hér má sjá alla barna- og fjölskylduviðburði í Hörpu
ÞYKJÓ
ÞYKJÓ er þverfaglegt hönnunarverkefni fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði textíl-, leikfanga- og upplifunarhönnunar. Hönnunarstarf ÞYKJÓ miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik.
Hljóðhimnar
Hljóðhimnar hönnun, smíði og upptökur