Græna vegferðin hófst árið 2015 þegar Harpa varð aðili að Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar. Þá var lögð áhersla á að auka þekkingu starfsfólks á umhverfis- og loftlagsmálum. Í kjölfarð gaf Harpa út umhverfis- og loftslagsstefnu.
Árið 2020 hóf Harpa þátttöku í verkefninu Græn skref á vegum Umhverfisstofnunar, sem er fyrir ríkisstofnanir sem vilja efla umhverfisstarf sitt. Með þátttöku í verkefninu var komið inn öflugt innleiðingartæki til að efla umhverfisstarf í Hörpu með kerfisbundnum hætti og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni. Harpa lauk öllum 5 Grænum skrefum Umhverfisstofnunar árið 2022. sem er lykillinn að vistvænum opinberum rekstri.
Umhverfisráð Hörpu
Stýrihópur um sjálfbærni, umhverfisráð, hefur starfað í rúm fjögur ár og unnið ötullega að því að gera umbætur hvað varðar sjálfbærni, setja markmið og hrinda af stað aðgerðaáætlun. Reglulegir fundir eru hjá umhverfisráði þar sem árangur er metinn, hvað má betur fara og forgangsröðun og markmið eru yfirfarin svo eitthvað sé nefnt. Áhersla er lögð á að fræða starfsfólk með reglulegum kynningum á starfsmannafundum og gott samstarf er við íbúa og rekstraraðila í húsinu um fræðslu og hvatningu í tengslum við sjálfbærni. Auk þess sér umhverfisráðið, í samráði við markaðsstjóra félagsins, um að upplýsa bæði starfsfólk og gesti hússins um þá áfanga sem náðst hafa.
Umhverfisstjórnunarkerfi
Harpa gerði samning við Klappir Grænar Lausnir hf. árið 2016 um notkun á umhverfisstjórnunarkerfi þeirra til að halda utan öll gögn er varða umhverfi og koma þau hér fram í Sjálfbærniskýrslu Hörpu. Önnur gögn í skýrslunni koma úr kerfum félagsins.
Gögnin eru sett fram með bestu vitund, rýnd og yfirfarin af starfsfólki og stjórnendum Hörpu, en eru ekki staðfest eða yfirfarin af þriðja aðila. Fjárhagsupplýsingar hafa hins vegar verið endurskoðaðar og staðfestar af endurskoðendum samstæðunnar.
Gögnin eru fyrir almanaksárið 2024 og uppfyllir skýrslan kröfur laga nr. 3/2006 um ársreikninga og tilskipun Evrópusambandsins nr. 2014/95/ESB um ófjárhagslega upplýsingagjöf.
Sjálfbærniskýrsla Hörpu er nú gefin út samhliða ársuppgjöri í þriðja sinn og hefur skýrslan vaxið að umfangi á hverju ári. Harpa hefur frá upphafi stuðst við UFS leiðbeiningar Nasdaq, ESG Reporting Guide 2.0, sem gefin var út í febrúar 2020. Þar er fjallað um lykilstærðir og upplýsingar um umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti.