17. október 2024
,,Harpa er hús fólksins“
Því oftar sem fólk heimsækir Hörpu því meiri ánægja
88% þeirra sem hafa heimsótt Hörpu oftar en 3svar sinnum sl. 12 mánuði eru jákvæðir í garð Hörpu
76% íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru jákvæðir í garð Hörpu
82% ráðstefnugesta eru ánægðir með heimsóknina
85% jákvæðni í garð Sinfóníuhljómsveitar Íslands hjá þeim sem sóttu tónleika hennar sl. 12 mánuði
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús hefur frá árinu 2018 tekið þátt í viðhorfs- og þekkingarkönnun Maskínu sem framkvæmd er í september ár hvert. Könnunin er lögð fyrir svokallaða Þjóðgátt Maskínu, sem er hópur fólks sem dreginn er af tilviljun úr þjóðskrá. Svarendur eru 18 ára og eldri af öllu landinu og endurspeglar hópurinn þjóðina út frá aldri, búsetu og menntun. Spurningarnar eru miðaðar við síðustu 12 mánuði og voru svarendur 994 talsins.
Alls höfðu um 69% svarenda á landsvísu heimsótt Hörpu síðastliðna 12 mánuði og voru 68% aðspurðra jákvæðir í garð Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Niðurstöðurnar sýna berlega að því oftar sem fólk heimsækir Hörpu því meiri ánægja. Af þeim sem höfðu heimsótt Hörpu 3svar eða oftar á síðastliðnum 12 mánuðum voru rúmlega 88% jákvæðir í garð Hörpu. Á landsvísu voru 6% svarenda neikvæðir í garð Hörpu eða 60 manns af 994 svarendum. Af þeim höfðu 35 svarendur ekki heimsótt Hörpu síðastliðna 12 mánuði.
Harpa er vettvangur fyrir fjölbreytt tónlistar- og menningarlíf sem og hvers konar ráðstefnur, fundi og samkomur, innlendar sem erlendar. Það er því ánægjuefni að niðurstöður sýni að mikill meirihluti tónleika- og ráðstefnugesta eru jákvæðir í garð Hörpu.
Jákvæðni tónleika- og ráðstefnugesta í garð Hörpu.
- Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands 85%
- Popptónleikar 85%
- Aðrir tónleikar 83%
- Ráðstefnugestir 82%
Ánægja með Fjölskyldudagskrá Hörpu
Barna- og fjölskyldumenning blómstrar í Hörpu og sýna niðurstöður að ánægjan með viðburði Fjölskyldudagskrár Hörpu eykst milli ára og stendur í 88%. Sífellt fleiri sækja viðburðina en Harpa leggur ríka áherslu á enda endurspeglar það stefnu Hörpu um hvernig húsið sinnir sem best menningarlegu og samfélagslegu hlutverki sínu. Mikið er lagt upp úr vandaðri fjölskyldudagskrá sem er aðgengileg öllum börnum óháð fjárhag, uppruna, tungumáli eða heimili, þeim að kostnaðarlausu.
Ánægja með heimsókn á veitingastaði í húsinu eykst milli ára og eru 87,7% ánægðir með heimsókn á annan hvorn veitingastaðanna í húsi á síðastliðnum 12 mánuðum. Í Hörpu eru tveir veitingastaðir; Hnoss á jarðhæð og La Primavera á fjórðu hæð með stórkostlegu útsýni yfir höfnina.
Jákvæðar umsagnir í opnum svörum
Á annað hundrað svarenda svaraði spurningunni Hvers vegna ertu mjög jákvæð/tt/ur í garð Hörpu?
„Dásamleg bygging. Stórkostleg hönnun, lyftir menningarlífinu, er húsið okkar allra „Harpa okkar“.
„Mikilvæg menningarlyftistöng á pari við önnur lönd, hvetur til metnaðar“.
„Mér finnst Eldborg vera á heimsmælikvarða og hljómburðurinn góður. Allt í Hörpu mjög gott. Veitingastaðir líka skemmtilegir“.
„Miðstöð tónlistarmenningar og opið og aðgengilegt. Fallegt hús“.
„Hefur fjölbreytta viðburði fyrir allan aldur“.
„Aðgengileg dagskrá fyrir barnafjölskyldur“.
„Vönduð dagskrá og kraftur“.
„Flott hús og mikill sómi fyrir land og þjóð“.
„Harpa er hús fólksins“.
Fréttir
4. desember 2024
Opnunartími í Hörpu yfir hátíðirnar
Kynntu þér opnunartímana og dagskrána í Hörpu yfir hátíðirnar
6. nóvember 2024
Verðlaunahafar Norðurlandaráðs heimsóttu Hörpu
Svanhildur Konráðsdóttir tók á móti hópi verðlaunahafa Norðurlandaráðs á dögunum.
22. október 2024
Styrkir til tónleikahalds í Hörpu
Umsóknir til tónleikhalds árið 2025