11. júlí 2022

Harpa lýkur 5. Græna skrefinu

og hlýtur viðurkenningu Umhverfisstofnunar

Harpa hefur lokið 5. og síðasta skrefinu í átakinu Græn skref og hlaut viðurkenningu Umhverfisstofnunar mánudaginn 4. júlí 2022.

Átakið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsfólks. Hvert skref inniheldur á bilinu 20-40 aðgerðir sem Harpa hefur þurft að innleiða í sinn rekstur til að geta lokið hverju skrefi

Aðgerðir sem Harpa hefur innleitt til að ná skrefi 5 eru m.a.:

  • Aðgerðaáætlun í loftlagsmálum fyrir árin 2022 – 2024 þar sem m.a. er stefnt að því að endurvinnsluhlutfall verði komið í 75% árið 2024 og að tæplega þriðjungur starfsfólks verði kominn með samgöngusamning, sem þýðir að starfsfólk ferðast til og frá vinnu á vistvænan máta með því að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur.
  • Í vetur voru settar upp 13 rafhleðslustöðvar í bílahúsi Hörpu í neðri kjallara sem eru opnar öllum með ON hleðslulykil.
  • Til að sporna við pappírssóun hefur pappírsþurrkum verið skipt út fyrir handblásara á almenningssalernum í húsinu.

Harpa hefur þessu til viðbótar fengið Svansvottun fyrir ráðstefnusvið hússins og býður m.a. upp á sérstaka viðburðaskýrslu fyrir stærri viðburði með upplýsingum um umhverfis-, efnahags- og samfélagsleg áhrif viðburðarins.

Á myndinni má sjá Rakel Lárusdóttur, Huldu Kristínu Magnúsdóttur og Arngrím Fannar Haraldsson taka við viðurkenningunni fyrir hönd Hörpu af Jóhannesi Bjarka Urbancic Tómasson hjá Umhverfisstofnun.

Fréttir