Markaðs­mál

Harpa er hús þjóðarinnar og gegnir því mikilvæga hlutverki að vera vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf sem og hvers kyns ráðstefnur, fundi og samkomur.

Harpa starfar til að skapa menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti fyrir eigendur sína, ríki og borg og þar með þjóðina alla.

Harpa er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og miðstöð menningar og mannlífs í hjarta miðborgarinnar. Harpa er áfangastaður ferðamanna og margverðlaunað listaverk sem milljónir manna hafa heimsótt frá opnun. Starfsemi Hörpu er víðtæk og gegna markaðs- og kynningarmál lykilhlutverki í uppbyggingu vörumerkisins og ásýndar Hörpu á innlendum og erlendum vettvangi.

Í kynningar- og markaðsmálum var lögð rík áhersla á eigin dagskrárgerð og fjölskyldudagskrá þar sem höfðað var til fjölbreyttra hópa samfélagsins með inngildingu að leiðarljósi. Samstarf við hin ýmsu hagsmunasamtök og einstaklinga gáfust vel fyrir í fjölskyldudagskrá Hörpu og útvíkkaði starfið sem um nemur.

Mikið var lagt upp úr stafrænni miðlun til að ná til sem flestra markhópa við markaðssetningu og kynningu á viðburðahaldi. Hafa ber í huga að Harpa er oftar en ekki leigusali frekar en viðburðahaldari og því markaðssetning þeirra viðburða ekki í höndum Hörpu.

Hvað varðar stafræna þróun var sú nýjung var tekin í gagnið á árinu að viðskiptavinir geta nú bókað fundarherbergi á vef Hörpu þar sem hægt er að bóka herbergið, panta veitingar og ganga frá greiðslu, allt með nokkrum smellum.

Mikilvægt er fyrir Hörpu að afla og þróa tækifæri í erlendri sókn og sækja viðskiptastjórar Hörpu, ásamt fulltrúum Meet in Reykjavík, erlendar sýningar til að kynna Hörpu sem vettvang fyrir stærri alþjóðlegar ráðstefnur. Samkeppnin við önnur tónlistar- og ráðstefnuhús erlendis er gríðarleg en Harpa er forsendan fyrir Reykjavík sem ráðstefnuborg á heimsmælikvarða.

Harpa vekur athygli víða erlendis fyrir hönnun og arkitektúr. Tónlistar- og ferðavefir, ferðabloggarar, tímarit og vefmiðlar erlendis fjalla reglulega um Hörpu, arkitektúrinn og starfsemi hússins.

Lykiltölur

Heildarfjöldi viðburða

1398

Fjöldi gesta í Hörpu

1,2 milljón

Afgreiddir aðgöngumiðar

199.000

Listviðburðir fyrir ferðamenn

171

Hörpusveitin

Hörpusveitin er vildarklúbbur Hörpu þar sem meðlimir geta keypt miða í forsölu eða á sértilboði. Reglulega eru send út fréttabréf með upplýsingum um dagskrá og viðburði í Hörpu auk þeirra fríðinda og kjara sem Hörpusveitin nýtur.

Alls voru 77 fréttabréf send út árið 2023 sem telur um 1,4 milljónir pósta. Um 8-10.000 notendur opna að jafni hvert fréttabréf.

Meðlimir Hörpusveitarinnar eru um 22.000 talsins. Allir geta verið í Hörpusveitinni.

Bóka fund með nokkrum smellum

Í Hörpu er fjölbreytt aðstaða fyrir fundi og nú geta viðskiptavinir bókað fundinn á vef Hörpu. Bókunarferlið er einfalt; þú bókar fundarherbergi, pantar veitingar og gengur frá greiðslu, allt með nokkrum smellum. Láttu góðar hugmyndir verða að veruleika í fallegu umhverfi Hörpu.

Fylgjendur á samfélagsmiðlum

Facebook

0

Facebook Reach

0

Instagram

0

Instagram Reach

0

Viðhorfs- og þekkingarkönnun Maskínu

Jákvæðni í garð Hörpu

65,4%

Ánægja með heimsókn í Hörpu sl. 12 mánuði

86%

Maskína framkvæmdi viðhorfs- og þekkingarkönnun fyrir Hörpu haustið 2023 með það að markmiðiað kanna viðhorf og þekkingu á Hörpu og starfsemi í húsinu. Framkvæmd var netkönnun meðal hóps af fólki dregnu af handahófi úr þjóðskrá. Svarendur voru alls 902 talsins, 18 ára og eldri og áttu að endurspegla þjóðina út frá aldri, búsetu og menntun. Alls höfðu 72% svarenda heimsótt Hörpu s.l. 12 mánuði þegar rannsóknin var framkvæmd.

Niðurstöður könnunarinnar voru ánægjuefni fyrir Hörpu. Alls voru 65,4% svarenda jákvæðir í garð Hörpu og þegar spurt var með ánægju með heimsókn í Hörpu sl. 12 mánuði kom berlega í ljós að því oftar sem fólk kemur í Hörpu því meiri ánægja.

Fjöldi svarenda skrifaði opið svar þegar þeir voru spurðir Hvers vegna ertu mjög jákvæð/tt/ur í garð Hörpu?

Af því það eru mikilvægir menningarviðburðir haldnir í Hörpu sem væru annars tæplega haldnir.

Af því starf þar er til fyrirmyndar, sérstaklega í þágu ungra barna.

Alveg nauðsynlegt hús fyrir ráðstefnur, tónleika og aðra viðburði. Vantaði algjörlega í íslenska menningu.

Eru með fjölbreytta og aðgengilega viðburði fyrir alla aldurshópa.

Mikið um að vera, frábær menningarmiðstöð, æðslegur veitingastaður.