Pro­gram­ming

Dagskrárstefna Hörpu styður við menningarlegt og samfélagslegt hlutverk hússins. Markmiðið er að auka fjölbreytni í viðburðahaldi í Hörpu með áherslu á hágæða alþjóðlega tónlistarviðburði, frumsköpun og samstarf við fjölbreyttan hóp stofnana, hátíða og einstaklinga.

Félagið Hörpustrengir hefur þann tilgang að standa fyrir völdum viðburðum sem marka spor í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og myndu ekki verða að veruleika án aðkomu félagsins.

Dagskrárráð Hörpu hefur ráðgefandi hlutverk um val á þeim verkefnum sem Hörpustrengir framleiða. Valið á að stuðla að gæðum og fjölbreytni í viðburðahaldi í Hörpu og að húsið uppfylli sem best menningarlegt og samfélagslegt hlutverk sitt miðað við þann stakk sem því er sniðinn.

Áherslur dagskrárstefnu Hörpu eru;

  • Barnamenning og fjölskylduvæn dagskrá.
  • Borgartorg, sem hattur yfir viðburði í opnum rýmum og Hörputorgi.
  • Fjölbreytni og bætt aðgengi fyrir grasrót og ungt tónlistarfólk.
  • Fyrsta flokks alþjóðlegir viðburðir á vegum Hörpustrengja.

Dagskrárráð Hörpu fundaði fjórum sinnum til þess að fjalla um erindi sem bárust eða hugmyndir sem komu fram á árinu 2023. Samtals voru til umfjöllunar um 70 verkefni sem fengu faglega umfjöllun hjá dagskrárráði sem skipað er Guðna Tómassyni formanni, Ásmundi Jónssyni, Elísabetu Indru Ragnarsdóttur og Sóleyju Stefánsdóttur.

Ráðið er skipað af stjórn Hörpu og starfar með Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur verkefnastjóra dagskrárgerðar og Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu. Dagskrárráðið hefur ráðgefandi hlutverk um val á þeim verkefnum sem Hörpustrengir framleiða.  

Til viðbótar við eigin dagskrárgerð tók Harpa þátt í nokkrum samfélagsverkefnum á árinu. Ber þar helst að nefna neyðar- og styrktartónleikana Vaknaðu! sem haldnir voru í Eldborg í maí. Tilgangur söfnunarinnar var að styrkja Frú Ragnheiði og annað skaðaminnkunarstarf Rauða krossins.

Harpa var einnig samstarfsaðili Korda Samfónía sem hélt tónleika í Silfurbergi í mars. Korda er óhefðbundnasta hljómsveit landsins þar sem saman koma 35 einstaklingar á aldrinum 20-70+ ára á ólíkum stöðum í lífinu og með ólíkar sögur að baki með það að markmiði að vinna saman að sköpun nýrrar tónlistar.

Anne-Sophie Mutter and The Mutter Virtuosi

Hinn heimsþekkti fiðluleikari Anne-Sophie Mutter kom fram í Eldborg í Hörpu þann 27. janúar 2023 ásamt strengjasveit sinni The Mutter Virtuosi. Anne-Sophie hefur um áratugaskeið komið fram í öllum helstu tónlistarhúsum heims og er á hátindi einstaklega glæsilegs ferils síns sem einleikari í heimi klassískrar tónlistar. Hún er margfaldur verðlaunahafi og hefur hlotið öll helstu verðlaun klassískrar tónlistar í Evrópu, fern Grammy verðlaun og heimsfrumflutt á fjórða tug verka helstu tónskálda samtímans sem mörg hver voru samin sérstaklega fyrir hana. Þetta var í fyrsta sinn síðan árið 1985 sem Anne-Sophie Mutter kom fram á Íslandi og í þetta sinn með Virtúósa strengjasveitinni sinni, sem hún stofnaði árið 2011. Strengjasveitin þykir einstök í sinni röð en hún er skipuð rísandi stjörnum og framúrskarandi nemendum sem valdir hafa verið af styrktarsjóði hennar. Tónleikarnir voru liður í dagskrárstefnu Hörpu sem leggur áherslu á að bjóða upp á framúrskarandi tónlistarfólk og viðburði sem marka spor í tónlistarlífið á hverjum tíma.

Kyiv Grand Ballet

Hnotubrjóturinn var fluttur í þrígang í Eldborg í Hörpu 23. - 25. nóvember 2023. Eins og árið 2022 var það úkraínski ballettflokkurinn Kyiv Grand Ballet, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Graduale Nobili sem glæddu ævintýrið lífi við mikinn fögnuð viðstaddra. Að þessu sinni var Harpa í samstarfi við Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna sem voru með sölu á varning í tengslum við sýningarnar og rann allur ágóði til félagsins.  

The Upbeat

Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Í samstarfi við Upptaktinn eru einnig Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabær, Borgarbyggð, Mosfellsbær, Kópavogsbær og Menningarfélag Akureyrar. Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist og þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda tónsmíðadeildar Listaháskóla Íslands. Að þessu ferli loknu er nýtt tónverk tilbúið til flutnings og flutt á tónleikum af fag-tónlistarfólki. RÚV tekur upp tónleikana og innslög þar sem rætt er við ungmennin sem sömdu lögin sem eru flutt. Þessu er svo gert góð skil í sjónvarpsþætti á RÚV og lifir áfram á vefmiðlum þeirra.  Í Upptaktinum 2023 voru  valin 14 tónverk eftir 15 höfunda sem tóku virkan þátt í öllu ferlinu. Nemendur Listaháskólans sem tóku þátt voru níu talsins og hljóðfæraleikarar sem sáu um flutning á verkanna á tónleikum voru 16. Tónleikarnir fóru fram í Norðurljósum 18. apríl 2023, tónleikagestir voru u.þ.b. 250. 

Reykjavik Culture Night

Menningarnótt 2023 fór fram í blíðskaparveðri þann 19. ágúst og var að venju mikil og metnaðarfull dagskrá í Hörpu. Að þessu sinni var Hörputorg fullt af lífi, þar sem hægt var að smíða báta og láta fljóta í vatninu fyrir framan Hörpu, lúðrasveitarkeppni fór fram í bland við önnur tónlistaratriði. Sinfóníuhljómsveit Íslands var með hefðbundna fjölskyldutónleika kl. 15 og 17 og dagskrá á vegum Hörpu fór fram í Silfurbergi, Norðuljósum, Flóa og Hörpuhorni ásamt því að færeyska sendiráðið var með sína hefðbundnu dagskrá í Kaldalóni. Mikil áhersla var lögð á börn og fjölskyldur þó óhætt sé að fullyrða að allir aldurshópar hafi geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þátttaka og sköpun barnanna var áberandi en samtals voru á fjórða tug viðburða frá kl. 13-18 þennan dag. 

Upprásin grasrótartónleikaröð

Harpa í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Rás 2, settu á laggirnar Upprásina, nýja tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Verkefnið er liður í dagskrárstefnu Hörpu um að styðja við og bæta aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum að Hörpu og auka við fjölbreytni og aðgengi tónlistaráhugafólks að nýrri íslenskri tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar. Upprásin er haldin í fyrsta sinn veturinn 2023-2024. Auglýst var eftir umsóknum á vormánuðum 2023 og bárust 134 umsóknir sem voru hver annarri betri. Vegna fjölda umsókna var ákveðið að stækka verkefnið og koma fyrir þremur hljómsveitum á hverju tónleikakvöldi. Öll kyn voru hvött til að sækja um og voru umsóknareyðublöðin á íslensku, ensku og pólsku til að auka við aðgengi. Í fyrstu tónleikaröðinni eru 8 tónleikakvöld frá september ´23 til apríl ´24, samtals 24 hljómsveitir, 88 þátttakendur af öllum kynjum -  41 kk, 41 kvk og 6 kvár.  Hljómsveitir sem koma fram eiga rætur sínar að rekja til flestra landshluta.

Concert Series

Tónleikaröðin Velkomin heim fór fram alla sunnudaga í júlí í Hörpuhorni. Velkomin heim er samstarfsverkefni Hörpu og FÍT og FÍH og er tilgangur hennar að vekja athygli á tónlistarfólki sem er nýkomið heim úr námi erlendis frá.   Harpa styður einnig við tónleikarröðina Sígildir sunnudagar en þar gefst áheyrendum kostur á fyrsta flokks kammertónleikum reglulega yfir veturinn í Hörpu. Lögð er áhersla á fjölbreytt úrval tónleika með sígildri söng- og hljóðfæratónlist. Skipulag tónleika er í höndum tónlistarhópanna sjálfra en Harpa veitir röðinni stuðning með afslætti á salarleigu, kynningu og aðstoð við markaðssetningu með það að markmiði að stækka áheyrendahóp klassískra kammertónleika.

Kórar og hljómsveitir

Fjölmargir kórar, tónlistarskólar og fleiri nýttu sér opin rými í Hörpu fyrir tónleikahald. Þar má nefna vortónleikaröð Félags Íslenskra kórstjóra, sem hélt ferna tónleika á vormánuðum þar sem fjórir kórar komu fram í hvert sinn í Hörpuhorni. Skólalúðrasveitir, strengjasveit Tónskóla Sigursveins, blásarahópur MÍT, sönghópur á vegum Fjölmennt og erlendir kórar eru á meðal þeirra sem komu einnig fram í opnum rýmum Hörpu á árinu.   Alls voru 32 viðburðir á árinu haldnir í Hörpuhorni og opnum rýmum Hörpu sem falla undir áherslu dagskrárráðs um Borgartorg.

Vaknaðu!

Vaknaðu! Var yfirskrift neyðar- og styrktartónleika vegna ópíóíðafaraldurs sem kostaði mörg mannslíf á árinu 2023. Tilgangur söfnunarinnar var að styrkja Frú Ragnheiði og annað skaðaminnkunarstarf Rauða krossins. Á tónleikunum kom fram mikill fjöldi tónlistarfólks sem allt gaf vinnu sína; Bubbi Morthens, Ragga Gísla,  Mugison, Systur, Emmsjé Gauti, Nanna, Jónas Sig, Una Torfa, Ólafur Bjarki, Elín Hall, Hr. Hnetusmjör og Ellen Kristjánsdóttir ásamt fjölda hljóðfæraleikara. Tónleikarnir fóru fram í Eldborg 29. maí og voru sýndir í beinni útsendingu á RÚV. Samtals söfnuðust um 38 milljónir sem Rauði krossinn ráðstafar í brýn verkefni.

Korda Samfónía

Harpa er samstarfsaðili Kordu sem hélt tónleika í Silfurbergi 28. mars 2023. Korda er óhefðbundnasta hljómsveit landsins þar sem saman koma 35 einstaklingar á aldrinum 20-70+ ára á ólíkum stöðum í lífinu og með ólíkar sögur að baki með það að markmiði að vinna saman að sköpun nýrrar tónlistar. Meðlimir Kordu Samfóníu koma úr hinum ýmsu áttum þjóðfélagsins. Þar er að finna sprenglært og þaulreynt starfandi tónlistarfólk sem og nemendur úr Listaháskóla Íslands, sjálfmenntað tónlistarfólk og fólk sem aldrei hefur áður lagt stund á tónlist. Einnig er hljómsveitin skipuð fólki sem orðið hefur fyrir áföllum og er mislangt komið í endurhæfingaferli sem stutt er af starfsendurhæfingastöðvum um allt land. Debut tónleikar hljómsveitarinnar í Eldborg 21. maí 2021 voru tilnefndir til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem viðburður ársins.