25. júlí 2024

1.000 sýningar

af How to become Icelandic í Hörpu

Þeim merka áfanga verður náð næstkomandi laugardag 27. júlí þegar að leiksýningin HOW TO BECOME ICELANDIC IN 60 MINUTES verður sýnd í þúsundasta sinn í Hörpu. Sýningin var frumsýnd í Hörpu þann 26. maí 2012 og gengur þar enn tólf árum síðar.

Hátt í 130.000 manns hafa séð sýninguna á þessum árum og ekkert lát er á vinsældum hennar, sem leikin er á ensku. Sýningin, sem er sambland af uppistandi og söguleikhúsi, er skrifuð af Bjarna Hauki Þórssyni, sem jafnframt er upphaflegur leikari sýningarinnar og framleiðandi. Leikstjóri er Sigurður Sigurjónsson.

Engin íslensk leiksýning hefur gengið jafn lengi á Íslandi og engin sýning verið leikin í eitt þúsund skipti. Því er hér um merkan atburð að ræða í íslensku leiklistarlífi og sögu Hörpu.

Margir leikarar hafa leikið einleikinn í gegnum árin; má þar nefna Örn Árnason, Karl Ágúst Úlfsson, Kjartan Darra Kristjánsson, Albert Halldórsson og Bjarna Hauk svo einhverjir séu nefndir.

„Það verður frábært að stíga á sviðið á laugardaginn og leika sýninguna í eitt þúsundasta skiptið. Þetta er búið að vera ótrúlegt ævintýri. Ég hélt satt best að segja að sýningin væri öll þegar heimsfaraldurinn sá síðasti geisaði yfir, en svo fór hún aftur í gang og ekkert lát er á aðsókninni. Uppistaða gestanna er að mestu leyti ferðamenn og mikið til Bandaríkjamenn, en það eru alltaf einhverjir Íslendingar að koma sem er mjög gaman” er haft eftir Bjarna Hauki.

Sænsk útgáfa sýningarinnar HOW TO BECOME SWEDISH IN 60 MINTUES var frumsýnd í Stokkhólmi árið 2016 og norsk útgáfa HOW TO BECOME NORWEGIAN IN 60 MINTUES verður frumsýnd í Osló á næsta ári.

Nánar um sýninguna

Fréttir