20. júlí 2023

Gras­rótin blómstrar

134 umsóknir bárust í tónleikaröðina Upprásina.

Tónlistarhúsið Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Rás 2, stendur fyrir nýrri tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur.

Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka fjölbreytni viðburðarhalds í Hörpu. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta reglulega við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar.

Auglýst var eftir umsóknum í vor og viðtökurnar voru afar góðar.

,,Það má með sanni segja að gróskan í grasrótinni sé blómstrandi því alls bárust 134 umsóknir sem var langt fram úr björtustu vonum okkar sem stöndum að verkefninu. Umsóknirnar voru ekki aðeins margar heldur voru þær einnig langflestar virkilega góðar og því vandasamt verk fyrir valnefnd skipaða fulltrúum aðstandenda, að velja aðeins 18 umsækjendur. Til þess að bregðast við miklum fjölda umsókna var ákveðið að fjölga um 8 pláss svo í heildina koma fram þrjú atriði á hverju kvöldi og samtals því 26 tónlistaratriði í Upprásinni veturinn ´23 - ´24. Við val á þátttakendum var horft til fjölbreytileika, bæði þegar kemur að tónlistarstefnum og flytjendum en því miður er það ljóst að það er fjöldinn allur af tónlistarfólki sem ekki kemst að þetta árið, sem hefði engu að síður átt fullt erindi í tónleikaröðina”, segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu.

Tónleikaröðin mun eiga heima í Kaldalóni í Hörpu þar sem haldnir verða mánaðarlegir tónleikar í vetur og þrjár hljómsveitir koma fram í hvert sinn. Dagskrá Upprásarinnar verður auglýst síðar í sumar á harpa.is en tónleikaröðin hefur göngu sína 5. september.

Nánari upplýsingar veitir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu, asaberglind@harpa.is .

Fréttir