15. ágúst 2024
Harpa býður heim
á Menningarnótt
Menningarnótt í Reykjavík á sér sérstakan sess í sögu Hörpu. Á opnunarárinu 2011 var byggingin vígð á Menningarnótt og fyrsta ljóslistaverk Ólafs Elíassonar tendrað á hjúp hússins. Alla tíð síðan hefur dagurinn verið sannkölluð hátíð í Hörpu þar sem boðið er upp á fjölskrúðuga dagskrá fyrir fólk á öllum aldri, gestum að kostnaðarlausu.
Listafólk úr hinum ýmsu greinum mun koma fram og öllu tjaldað til svo landsmenn geti notið alls þess sem húsið hefur upp á að bjóða. Á Hörputorgi verður einnig glæsileg dagskrá í samstarfi við Landsbankann og Hafnartorg í tilefni af því að framkvæmdum er lokið við torgið.
Hátíðarhöldin hefjast kl.13 með skrúðgöngu þriggja lúðrasveita frá Lækjartorgi, Austurvelli og Ingólfstorgi sem marsera saman að Hörputorgi þar sem verða hátt í fimmtíu viðburðir fyrir fólk á öllum aldri yfir daginn. Ragga Gísla og Halldór Gunnar loka svo hátíðardagskránni kl 17.45 og leiða gesti og gangandi í samsöng sem mun hljóma af öllum hæðum í alrými Hörpu.
Nóg verður um að vera fyrir börn og fjölskyldur sem geta smíðað báta og látið þá fljóta á tjörn fyrir utan Hörpu, búið til skuggaleikhús í Skuggaleikhússmiðju Þykjó, trommað á múrbala, skellt sér á ball með Stórsveit Reykjavíkur og lært dansspor frá Sveiflustöðinni, DJ Stjána Stuð og Ólafi Snævari.
Sinfóníuhljómsveit Íslands verður með tvenna tónleika ásamt félögunum í Fílalagi, ævintýraverur birtast úr ýmsum áttum og sirkussýningar verða úti, inni og í háloftunum. BMX BRÓS sýna ótrúlegar kúnstir á hjólum. Hljómsveitin VÆB kemur fram í Flóa auk Andervel, KUSK og Óvita sem verða í grasrótartónleikaröðinni Upprásinni í vetur. Í Norðurljósum verður glæsileg söngdagskrá allan daginn þar sem fram koma karlakórinn Fóstbræður, Dísella Lárusdóttir, Guðrún Ólafsdóttir og Hanna Ágústa Olgeirsdóttir sem er rödd ársins og sigurvegari Vox Domini. Færeysk dagskrá verður á sínum stað í Kaldalóni, Dans Afríka Iceland flytur tónlist og dansa frá Gíneu og Hnokkar spila jazztónlist innblásna frá New Orleans. Þá eru ótaldir fjölmargir viðburðir á borð við lúðrasveitarbardaga, píanótónleika, myndlistarsýningu og margt fleira.
Fram undan er skemmtilegasti dagur ársins þar sem gleði, tónlist og fjölbreytni verður allsráðandi.
Fréttir
4. desember 2024
Opnunartími í Hörpu yfir hátíðirnar
Kynntu þér opnunartímana og dagskrána í Hörpu yfir hátíðirnar
6. nóvember 2024
Verðlaunahafar Norðurlandaráðs heimsóttu Hörpu
Svanhildur Konráðsdóttir tók á móti hópi verðlaunahafa Norðurlandaráðs á dögunum.
22. október 2024
Styrkir til tónleikahalds í Hörpu
Umsóknir til tónleikhalds árið 2025