10. nóvember 2022
Harpa og Icelandair hefja samstarf
með það að markmiði að fjölga fjölbreyttum alþjóðlegum viðburðum í Hörpu.
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús og flugfélagið Icelandair hafa undirritað samstarfssamning til þriggja ára. Markmiðið er að vekja athygli á Íslandi sem spennandi alþjóðlegum áfangastað og sérstöðu Hörpu fyrir ráðstefnur, tónleika og aðra menningartengda viðburði.
Harpa og Icelandair munu meðal annars starfa saman að því að fjölga fjölbreyttum, alþjóðlegum viðburðum í Hörpu en slíkir viðburðir teljast mjög verðmætir fyrir íslenskt efnahagslíf og ferðaþjónustu.
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir að Harpa sé tónlistar- og ráðstefnuhús á heimsmælikvarða og samstarf við Icelandair sé einn liður í undirbúningi fyrir spennandi alþjóðlega dagskrá.
„Harpa hefur áður átt afar gott samstarf við Icelandair og eftir varnarbaráttu síðustu missera vegna heimsfaraldurs er kominn tími á samstillta og markvissa sókn. Bæði félögin eru markaðsdrifin og vilja fjölga erlendum gestum sem sækja okkur heim til að taka þátt í ráðstefnum, fundum og fyrirtækja- og menningarviðburðum. Ég er sannfærð um að þetta samstarf muni leiða til aukinnar verðmætasköpunar og nýrra tækifæra,“ segir Svanhildur.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tekur í sama streng og segir Ísland vera í góðri stöðu til að halda alþjóðlega viðburði vegna staðsetningar landsins á milli Evrópu og Norður Ameríku, öflugra flugsamgangna. „Með þessu samstarfi viljum við styrkja stöðu Íslands og íslenskrar ferðaþjónustu enn frekar og laða að gesti í gegnum alþjóðlega viðburði allan ársins hring,“ segir Bogi.
Fyrsti viðburðurinn sem samstarfið tekur til er heimsókn Kyiv Grand Ballet frá Úkraínu sem flytur Hnotubrjótinn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrstu helgina í aðventu. Ballettinn er skipaður mörgum af skærustu stjörnum úkraínska ballettsviðsins, en haldnar verða fjórar sýningar í Eldborg 24. – 26. nóvember næstkomandi.
Fréttir
6. nóvember 2024
Verðlaunahafar Norðurlandaráðs heimsóttu Hörpu
Svanhildur Konráðsdóttir tók á móti hópi verðlaunahafa Norðurlandaráðs á dögunum.
22. október 2024
Styrkir til tónleikahalds í Hörpu
Umsóknir til tónleikhalds árið 2025
18. október 2024
Harpa leitar að mannauðs- og gæðastjóra
Ef þú hefur brennandi áhuga á að leiða mannauðs- og gæðaverkefnin í Hörpu - viljum við endilega heyra frá þér.