15. júlí 2022

Ráðstefnu­deild Hörpu

hlýtur Svansvottun

Á hverju ári skipuleggur ráðstefnudeild Hörpu mörg hundruð viðburði þar sem gestir skipta tugum þúsunda hvaðanæva að úr heiminum. Um er að ræða ráðstefnur, fundi og veislur af öllum stærðum og gerðum.

Fjölmargar stærri innlendar og alþjóðlegar ráðstefnur um mikilvæg málefni eru haldnar í Hörpu, allt frá lýðheilsu til loftslagsmála. Fundir eru á vegum fyrirtækja og einstaklinga, bæði erlendra og innlendra og um hin ýmsu málefni s.s. stefnumótun, ársuppgjör, fræðslu og kynningar af ýmsum toga. Í Hörpu kemur fólk einnig til að fagna tímamótum með sínum nánustu og heldur fermingar, skírnir, brúðkaup og afmæli svo fátt eitt sé nefnt.

Harpa leggur ríka áherslu á að upplifun gesta sé með besta móti og að þeir fari með góðar og ljúfar minningar um ráðstefnuhús á heimsmælikvarða. Harpa leggur sömuleiðis kapp á að gestir skilji eftir sig sem minnst kolefnisfótspor og sóun. Markmið Hörpu er að draga úr umhverfisáhrifum viðburða eftir fremsta megni og vera eins umhverfisvæn og hægt er í öllu ferlinu.

Harpa er stolt af því að hafa hlotið Svansvottun og tekur allt skipulag viðburða nú mið af þeim viðmiðum sem Svansvottunum fer fram á.

Smelltu hér til að skoða meira um græna stefnu Hörpu

Fréttir