31. janúar 2023

Stór­kost­legir tónleikar

Anne-Sophie Mutter og Mutter Virtuosi í Eldborg.

Einstakir tónleikar fiðluleikarans Anne-Sophie Mutter og strengjasveitar hennar Mutter Virtuosi í Eldborg sl. föstudag voru sannarlega á heimsmælikvarða þar sem tónlistarfólkið uppskar margfalt standandi lófaklapp. Hágæða hljómburður og glæsileg umgjörð í Eldborg skiluðu tónleikunum á töfrandi hátt til gesta og sýndu að heimssviðið á heima í Hörpu. Mutter hefur um áratugaskeið komið fram í öllum helstu tónlistarhúsum heims og nú hefur Harpa bæst við glæstan lista heimþekktra tónlistarhúsa erlendis sem stórstjarnan hefur komið fram í.

Á efnisskránni var Íslands-frumflutningur á verki Unsuk Chin, Gran Cadenza, fiðludúett sem saminn var fyrir Mutter, konsert fyrir fjórar fiðlur eftir Antonio Vivaldi, Chevalier de Sainte-Georges fiðlukonsert Nr. 5, opus 2 eftir Joseph Bologne og síðast en ekki síst Árstíðirnar fjórar eftir Vivaldi. Mutter Virtuosi, strengjasveit Mutter, þykir einstök í sinni röð en hún er skipuð rísandi stjörnum og framúrskarandi nemendum sem valdir hafa verið af styrktarsjóði hennar.

Bæði efnisskráin og strengjasveitin The Mutter Virtuosi eru dæmi um ástríðu Mutter fyrir tímalausum tónverkum, áherslu á samfélagsleg gildi og skuldbindingu hennar gagnvart framtíð klassískrar tónlistar - eða eins og hún segir sjálf:  ,,Mig langaði virkilega til að deila sviðinu með Virtúósunum mínum, þau eru órjúfanlegur hluti af mínu lífi og þeirri hugsjón að manneskjan getur nýtt tónlistina vel í samfélagslegum tilgangi. Tónlistin gerir okkur kleift að kynnast hvort öðru í raun og veru, hún byggir brýr ekki aðeins á milli kynslóða heldur einnig á milli ólíkra menningarheima og þeirra veggja sem við sem samfélag höfum reist á milli okkar.” 

Hér má sjá efnisskrá tónleikanna.

Fréttir