Verðmæti fyrir samfélagið
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. hefur markað sér sjálfbærnistefnu og gefur nú út í fyrsta sinn árs- og sjálfbærniskýrslu samhliða ársreikningi. Markmiðið er að miðla upplýsingum um starfsemina og áhrif hennar á umhverfið og samfélagið. Í skýrslunni er að finna áhugaverða kafla um fjölbreytta starfsemi ársins 2022 og upplýsingar um sjálfbærni í samræmi við UFS leiðbeiningar sem gefnar eru út af Nasdaq í samstarfi við Viðskiptaráð. Að auki og í samræmi við stefnuna hefur Harpa ákveðið að fylgja eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni. Á síðastliðnu ári var stýrihópi stjórnenda og starfsfólks falin ábyrgð á að vinna að mörkun og innleiðingu sjálfbærnimarkmiða með sjálfbærniráðgjafa.
Megin áherslan er að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið og leggja jafnframt kapp á að efla jákvæð félagsleg áhrif Hörpu og menningarvitund í samfélaginu.
Sjálfbærnivegferð Hörpu hófst árið 2015 og síðan þá hefur umhverfisstarf félagsins verið innleitt með kerfisbundnum hætti. Áherslurnar hafa verið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum og mæla reglulega árangurinn. Á síðustu árum hefur félagið starfað í samræmi við umhverfis – og loftslagsstefnu og hefur undir forystu starfsfólks lokið öllum fimm Grænum skrefum Umhverfisstofnunar. Annað mikilvægt skref á þessari leið er Svansvottun ráðstefnuaðstöðu Hörpu sem var veitt árið 2022.
Tilgangur Hörpu er að skapa menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti fyrir eigendur sína, sem eru landsmenn allir. Það gerir félagið með því að rækja hlutverk sitt af metnaði og alúð. Sem heimavöllur og heimssvið tónlistarinnar, framúrskarandi ráðstefnuhús í alþjóðlegri samkeppni og listaverk í almannaeigu ber Harpa ríkar skyldur til að ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að samfélagslegri ábyrgð og innleiðingu sjálfbærni í alla þætti starfseminnar.
Starfsfólk Hörpu er í leiðtogahlutverki í þessum spennandi og mikilvægu verkefnum sem munu auðga starfsemi og samfélagslegt framlag Hörpu á komandi árum svo um munar.
Framkvæmdastjórn
Svið Hörpu eru fimm, skrifstofa forstjóra, fasteigna- og umhverfissvið, viðburða- og tæknisvið, viðskipta- og markaðssvið og fjármála- og rekstrarsvið.
Framkvæmdastjórn 2022
Andri Guðmundsson
Tæknistjóri
Ásta Ólafsdóttir
Sviðsstjóri viðskipta- og markaðssviðs
Berglind Ólafsdóttir
Fjármálastjóri
Elva Dögg Melsteð
Skipulagsstjóri
Hulda Kristín Magnúsdóttir
Aðstoðarmaður forstjóra
Jóda Elín Valgerður Margrétardóttir
Mannauðs- og gæðastjóri
Jón Gretar Jónsson
Fasteignastjóri
Svanhildur Konráðsdóttir
Forstjóri