Undirnefndir
Endurskoðunarnefnd
Stjórn Hörpu skipar á fyrsta fundi sínum að loknum aðalfundi ár hvert þrjá einstaklinga í endurskoðunarnefnd. Í nefndinni sitja nú einn aðili óháður félaginu og tveir fulltrúar stjórnar. Aðalhlutverk endurskoðunarnefndar er mat á eftirlitsumhverfi félagsins, greining á virkni innri endurskoðunar, eftirlit með framkvæmd endurskoðunar, gerð tillögu um val á ytri endurskoðanda í samráði við Ríkisendurskoðun skv. 7. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreiknings, ásamt mati á óhæði endurskoðanda, mat á virkni áhættustefnu, áhættuvilja og áhættustýringu og tryggja fylgni við gildandi lög og reglur. Meðal annarra verkefna nefndarinnar er að yfirfara fjárhagsupplýsingar og fyrirkomulag upplýsingagjafar frá stjórnendum og ytri endurskoðendum og að staðreyna að upplýsingar sem stjórnin fær um rekstur, stöðu og framtíðarhorfur félagsins séu áreiðanlegar og gefi sem gleggsta mynd af stöðu félagsins á hverjum tíma.
Dagskrárráð
Stjórn Hörpu hefur komið á fót ráðgefandi dagskrárráði til að styðja við mikilvæga innleiðingu og framkvæmd nýrrar dagskrárstefnu. Markmiðið með starfseminni er að stuðla að gæðum og fjölbreytni í viðburðahaldi í Hörpu og að húsið uppfylli sem best menningarlegt hlutverk sitt miðað við þann stakk sem því er sniðinn. Dagskrárstefna Hörpu skiptist upp í eftirfarandi áherslur: Barnamenning og fjölskylduvæn dagskrá, Borgartorgið, sem hattur yfir hátíðir, opin rými og Hörputorg, fjölbreytni og bætt aðgengi fyrir grasrót og ungt tónlistarfólk og fyrsta flokks alþjóðlegir viðburðir á vegum Hörpustrengja.