Viðburðahald
Harpa er tónlistar- og ráðstefnuhús á heimsmælikvarða. Á árinu 2022 voru 1267 viðburðir af öllum stærðum og gerðum haldnir í húsinu. Ráðstefnur, tónleikar, leiksýningar, ópera, sinfóníutónleikar, barnaviðburðir, fundir og fleira.
Í marsmánuði árið 2022 voru Covid-19 takmarkanir á samkomuhaldi felldar og tók viðburðahald við sér af miklum krafti. Heimsfaraldurinn hefur sannarlega haft áhrif á viðburðarhald í húsinu undanfarin tvö ár og var mikið uppsafnað af viðburðum sem þurfti að fresta vegna samkomutakmarkana og dagarnir í Hörpu voru þéttbókaðir af fjölbreyttum viðburðum í rýmum hússins. Þegar litið er til fjölda viðburða á árinu 2022 má sjá að á þeim tæplega tíu mánuðum þar sem eðlilegt viðburðahald gat átt sér stað voru fleiri viðburðir haldnir í Hörpu en á öllu árinu 2019 þar sem heimsfaraldur og samkomutakmarkanir var fjarlægur óraunveruleiki.
Umfangsmiklir og eftirtektarverðir viðburðir fóru fram í Hörpu á árinu. Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í desember voru í beinni útsendingu um allan heim og er þetta stærsta sjónvarpsútsending frá menningarviðburði sem hefur farið fram á Íslandi. Harpa hlaut Edduverðlaunin fyrir menningarþátt ársins en Harpa lék lykilhlutverk í framleiðslu viðburðarins ásamt menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, B28 Produktion og RÚV.
Fjöldi viðburða 2019 - 2022
Samsetning viðburða 2022
Tónleikahald
Tónleikahald fór hratt af stað í mars en hægði aðeins á sér um haustið þar sem miðasala gekk hægar en vonir stóðu til. Áhrif heimsfaraldursins voru enn að láta á sér kræla. Margir nafntogaðir listamenn komu fram í Hörpu og má þar nefna: Damon Albarn, Emilíönu Torrini, Umphrey´s McGee, Dimmu, Skálmöld, GusGus, Rufus Wainwright, Passenger, Lisa Ekdahl, Bríet, Friðrik Dór og marga fleiri.
Ráðstefnur og fundir
Harpa er ráðstefnuhús á heimsmælikvarða og laðar að sér sífellt fleiri erlendar ráðstefnur. Húsið býður upp á ýmsar útfærslur fyrir fyrirlestra, sýningar, vinnurými og þess háttar. Hringborð Norðurslóða (Arctic Circle) fór fram með hefðbundnum hætti í október 2022 en þingið sækja um 2000 manns. Heimsþing kvenleiðtoga fór fram í nóvember og það sóttu kvenleiðtogar hvaðanæva að úr heiminum.
Tónleikaraðir og hátíðir
Tónleikaraðirnar Sígildir sunnudagar þar sem áherslan er á klassíska tónlist og Múlinn jazzklúbbur hófu göngu sína á ný með vikulegum tónleikum yfir vetrartímann. Stórsveit Reykjavíkur hóf starfsemi sína af krafti og fagnaði einnig 30 ára afmæli sínu með stórtónleikum með hljómsveitarstjóranum og tónskáldinu Maria Schneider. Hátíðarnar Myrkir músíkdagar og Músíktilraunir voru haldnar í Hörpu í byrjun árs og Íslensku tónlistarverðlaunin fóru fram á vordögum. Jazzhátíð Reykjavíkur var haldin í ágúst.
Stórviðburðir
Evrópsku kvikmyndaverðlaunin fóru fram í desember og voru í beinni útsendingu þar sem milljónir manna um allan heim fylgdust með. Þetta er stærsta sjónvarpsútsending frá menningarviðburði sem hefur farið fram á Íslandi. Umfangsmiklar kvikmyndatökur fyrir kvikmyndina Heart of Stone fóru fram samhliða þéttu viðburðahaldi, en Harpa gegnir nokkuð áberandi hlutverki í kvikmyndinni.
Hörpustrengir
Í samstæðunni er rekstrarfélagið Hörpustrengir sem hefur þann tilgang að standa fyrir völdum viðburðum sem marka spor í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og myndu ekki verða að veruleika án aðkomu félagsins. Hátíðardagskrá fyrir landsmenn á Menningarnótt er stærsti viðburður Hörpu á árinu þar sem boðið er upp á vandaða dagskrá fyrir unga sem aldna og gestum að kostnaðarlausu.
Hnotubrjóturinn með Kyiv Grand Ballet og Sinfóníuhljómsveit Íslands