Harpa og samfé­lagið

Í Hörpu felast ótrúleg tækifæri til verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag. Verðmætin sem Harpa skapar eru ekki öll sýnileg í ársreikningi félagsins en þau eru hins vegar mikilvæg forsenda fyrir árangri á ýmsum sviðum samfélagsins.

Harpa er í dag tónlistar- og ráðstefnuhús á heimsmælikvarða og allt í senn heimavöllur og heimssvið innlendra og erlendra listamanna. Harpa gegnir því mikilvæga hlutverki að vera vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf sem og hvers kyns ráðstefnur, fundi og samkomur. Yfir milljón gestir sækja Hörpu heim á ári hverju og telja viðburðirnir á þrettánda hundrað sem haldnir eru árlega.  

Færst hefur í aukanna að alþjóðlegar ráðstefnur, viðburðir og fundir séu haldnir í Hörpu  og laða þeir að sér fjölmarga erlenda gesti auk þess að stuðla að öflugri kynningu á landi og borg.

Skemmst er að minnast Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem haldin voru í Eldborg í desember 2022. Hátíðin er stærsti viðburður sem haldinn hefur verið í Hörpu frá opnun og fylgdust tugir milljóna manna með í beinni útsendingu víðs vegar að úr heiminum. Evrósku kvikmyndaverðlaunin hlutu Edduna fyrir menningarþátt ársins 2022 og var Harpa eitt af framleiðslufyrirtækjum viðburðarins ásamt menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, B28 Produktion og RÚV. 

Harpa er í raun borgartorg undir þaki og stendur að völdum viðburðum sem marka spor í íslenskt tónlistar- og menningarlíf. Viðburðir líkt og dagskrá Menningarnætur í Hörpu, barna- og fjölskyldudagskrá og tónleikaraðirnar Velkomin heim og Sígildir sunnudagar eru dæmi um viðburði sem Harpa heldur stendur að og er gestum að kostnaðarlausu.

Hjúpur Hörpu

Hinn fallegi glerhjúpur Hörpu, hannaður af Ólafi Elíassyni og arkitektum hússins, er eitt stærsta listaverk í heimi. Harpa lýsir reglulega upp hjúpinn til að vekja athygli á góðgerðarmálum og til að sýna samstöðu með ákveðnum málum líkt og aðrar heimþekktar byggingar gera. Á árinu var m.a. birtur Úkraínski fáninn til stuðnings úkraínsku þjóðinni á stríðstímum. Önnur tilfelli þar sem hjúpurinn var lýstur upp til að vekja athygli voru Bleiki dagurinn, Minningardagur Trans fólks, Alþjóðadagur táknmála og Kraftur stuðningsfélag ungs fólks með krabbamein svo fátt eitt sé nefnt.

Menningarnótt

Hjúpur