Sköpun verð­mæta

Harpa starfar í samræmi við skýr markmið um samfélagsábyrgð líkt og birtist glöggt í þessari skýrslu. Samfélagsábyrgð Hörpu felst í að skapa menningarleg, samfélagsleg og efnahagsleg verðmæti og fara vel með auðlindir og umhverfi. Við viljum leggja okkur fram um að þetta stærsta samkomuhús og listaverk í eigu þjóðarinnar sé nýtt með ábyrgum og öflugum hætti til að hámarka þá verðmætasköpun.

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri

Árið 2023 einkenndist af sókn og betra jafnvægi í rekstri og starfsemi samstæðu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss eftir nokkuð krefjandi áhrif heimsfaraldursins árin á undan. Kjarnastarfsemin gekk vel og viðburðahaldið var kraftmikið og fjölbreytt með 1.398 viðburðum sem er 10% aukning á milli ára. Listviðburðir - þar sem tónleikahald er í yfirgnæfandi meirihluta - töldust alls 811 en ráðstefnutengdir viðburðir voru 560 talsins og innifelur það auk ráðstefna m.a. fundi, veislur, móttökur o.fl. Tekjur af tónleikahaldi koma ekki nema að örlitlum hluta fram í ársreikningi Hörpu því allur þorri miðasöluviðburða er haldinn af öðrum en Hörpu. Heildarvelta miðasölu í Hörpu vegna viðburða á árinu nam um 1.256 m.kr. og skapaði atvinnu fyrir stóran og fjölbreyttan hóp listafólks, tæknifólks, skipuleggjenda og annarra sem gera viðburðahald mögulegt.

Við héldum ótrauð áfram að raungera skýrar áherslur dagskrárstefnu Hörpu sem undirstrikar hlutverk hússins sem heimssvið fyrir fyrsta flokks alþjóðlega listviðburði, heimavöll fyrir íslenska tónlist og opið borgartorg sem rúmar allt litróf samfélagsins; fjölskylduvæna og aðgengilega viðburði, grasrót tónlistarlífs og – náms, margskonar markaði, mót og hátíðir.

Meðal fjölmargra viðburða ársins sem teljast til sérstakra tíðinda má nefna tónleika fiðlustjörnunnar Anne-Sophie Mutter og The Mutter Virtuosi á vegum Hörpustrengja og leiðtogafund Evrópuráðsins sem hvor um sig undirstrikaði mikilvægi húss eins og Hörpu fyrir menningarlíf og virka þátttöku Íslands í samfélagi þjóðanna.

Lykiltölur

Rekstrarniðurstaða ársins varð umtalsvert betri en áætlun gerði ráð fyrir og eiginfjárhlutfall helst stöðugt. Tekjur samstæðunnar jukust um 4,4% og voru 1.663 m.kr. Rekstrarframlög eigenda, íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar - lækkuðu á milli ára um 16,8% eða 127,6 m.kr. og námu 601 m.kr. Rekstrartekjur með framlögum eigenda námu því samtals 2.293,7 m.kr. og lækkuðu um 2,5%.

  • Rekstrargjöld hækkuðu um 5,5% sem verður að teljast varnarsigur í umhverfi verðbólgu og launahækkana.
  • Rekstrarhagnaður árið 2023 (EBITDA) var 197,6 m.kr. og afkoma ársins að teknu tilliti til tekjuskatts, afskrifta og fjármagnsliða batnaði um tæp 44% en bókfært tap nam 65,5 m.kr.
  • Eigið fé samstæðunnar nam 10.771 m.kr. í árslok 2023 og er eiginfjárhlutfallið 30%.

Samfélagsábyrgð

Settur var aukinn kraftur í stefnumótun og markmiðasetningu á sviði samfélagsábyrgðar og byggt á þeim UFS mælikvörðum sem birtust í fyrstu árs- og sjálfbærniskýrslu félagins sem kynnt var á aðalfundi 2023. Við vinnum markvisst áfram með alla lykilþætti með breiðri þátttöku starfsfólks. Liður í því er að nýta sem best þau jákvæðu áhrif sem Harpa getur haft á stóran hóp birgja, viðskiptavini og samstarfsaðila og er sú vinna í góðum farvegi.

Áhersla á aðgengi og inngildingu einkenndi dagskrárgerð og fjölmörg samstarfsverkefni Hörpu. Áfram eru börn og fjölskyldur boðin sérstaklega velkomin en heildarfjöldi viðburða sem tengjast barnamenningu var alls 171 og þar af rúmlega þriðjungur á vegum Hörpu.

Vönduð stefnumótun, markmið grænna skrefa í opinberum rekstri, Svansvottun ráðstefnuaðstöðu Hörpu, leiðbeiningar um góða stjórnarhætti fyrirtækja og valin sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna - er meðal þess sem leggur grunninn að marktækum árangri félagsins. Unnið er að uppfærslu á heildarstefnu Hörpu til ársins 2030 og gert er ráð fyrir að hún taki gildi í ársbyrjun 2025.

Fólkið okkar

Harpa leggur áherslu á að vera eftirsóttur vinnustaður og fyrsti valkostur þeirra sem vilja starfa í faglegu, skapandi og menningartengdu umhverfi. Við fjárfestum í uppbyggilegri og jákvæðri vinnustaðamenningu og viljum tryggja að allt starfsfólk hafi rödd í því samtali ekki síður en um hvernig Harpa geti sem best þjónað hlutverki sínu.

Við spyrjum reglulega um líðan og viðhorf starfsfólks og 2023 fékk Harpa hæstu einkunn sem félagið hefur fengið í könnun VR á fyrirtæki ársins. Heildar einkunnin var 4,44 þar sem ánægja og stolt starfsfólks í tengslum við vinnustaðinn, viðhorf til stjórnunar og mat á gæðum starfsanda voru þeir þrír þættir sem skoruðu hæst.

Jafnrétti og jafnræði eru lykiláherslur í mannauðsstefnu Hörpu en við hlutum endurnýjaða jafnlaunavottun á árinu. Kynbundinn launamunur mældist 0,9% konum í vil. Mat starfsfólks á virðingu fyrir jafnrétti og áherslu á jafnræði á vinnustaðnum var mjög jákvætt og skorið hærra í könnun VR en hjá meðaltali allra fyrirtækja sem tóku þátt í könnuninni.

Öryggi, vellíðan og helgun starfsfólks helst órjúfanlega í hendur í farsælum rekstri. Meðal verkefna á árinu var útgáfa ítarlegrar öryggishandbókar, heilsuefling og -mælingar og innleiðing á fræðslukerfi sem veitir starfsfólki Hörpu aðgang að fjölbreyttum kostum til að efla bæði persónulega og faglega þekkingu og færni.

Starfsfólk Hörpu er í leiðtogahlutverki í fjölmörgum spennandi og mikilvægu verkefnum sem munu halda áfram að efla starfsemi og auðga samfélagslegt framlag Hörpu á komandi árum svo um munar.

Fram­kvæmda­stjórn

Í framkvæmdastjórn Hörpu sitja forstjóri og framkvæmdastjórar sviða félagsins. Forstjóri stjórnar daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur.

Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri viðburða- og tæknisviðs

image

Andri Guðmundsson hefur verið tæknistjóri Hörpu tónlistar og ráðstefnuhús frá vordögum 2019. Hann hefur unnið hjá Hörpu frá 2014 með hléum. Andri hefur allt tíð starfað í viðburða- og tæknibransanum, um tíma í Bretlandi meðal annars fyrir London Fashion Week, Microsoft og Chelsea Football Club.

Ásta Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og markaðssviðs

image

Ásta Ólafsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri viðskitpa og markaðssviðs Hörpu frá janúar 2022. Ásta er með BA próf í íslensku og fjölmiðlafræði og diploma í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Háskóla Íslands. Ásta hefur starfað við ferðaþjónustu mestan hluta starfsferilsins með áherslu á kynningu og markaðssetningu á Íslandi og Grænlandi sem áfangastaðar til betur borgandi gesta þar sem rík áhersla var á vöruþróun, uppbyggingu vörumerkja, markaðsmál og þjónustuupplifunar gesta.

Berglind Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs

image

Berglind Ólafsdóttir hefur starfað í Hörpu frá vordögum 2018. Berglind er viðskipta- og rekstrarfræðingur með áherslu á markaðs- og mannauðsmál, en stundaði einnig meistaranám með áherslu á fjármál og stjórnun fyrirtækja. Hún hefur víðtæka stjórnunarreynslu og hefur allan sinn starfsferill starfað við stjórnun rekstrar-, fjármála og mannauðsmála. Berglind var framkvæmdastjóri Borgarleikhússins áður en hún kom til starfa í Hörpu en starfaði í 15 ár áður hjá Reykjavíkurborg þangað sem hún kom úr einkageiranum.

Hulda Kristín Magnúsdóttir, aðstoðarmaður forstjóra

image

Hulda Kristín hefur verið aðstoðarmaður forstjóra frá því í júní 2012. Hún lærði fata- og búningahönnun í München og starfaði sem hönnuður í tæp 20 ár. Hulda Kristín starfaði í áratug sem aðstoðarmaður forstjóra Samskipa, var framkvæmdastjóri Aurora velgerðarsjóðs og lærði kínverska næringarfræði í Þýskalandi áður en hún hóf störf hjá Hörpu.

Jóda Elín Valgerður Margrétardóttir, mannauðs- og gæðastjóri

image

Jóda Elín Valgerður Margrétardóttir hefur starfað sem mannauðs- og gæðastjóri Hörpu frá 2021. Hún hefur starfað við mannauðsmál nær allan sinn starfsferil en ásamt því að vera mannauðsráðgjafi eða mannauðsstjóri er hún er með meistaragráðu í mannauðsstjórnun og ritstjórn- og útgáfu ásamt því að hafa lært markþjálfun. Jóda hefur starfað við mannauðstengdar rannsóknir, stjórnendaráðgjöf, markþjálfun, setið í kjarasamningsnefnd og stjórnum fræðslusjóða.

Jón Gretar Jónsson, framkvæmdarstjóri fasteigna- og umhverfissviðs

image

Jón Gretar Jónsson hefur verð framkvæmdastjóri fasteigna- og umhverfissviðs Hörpu frá miðju ári 2021. Jón Gretar starfaði sem framkvæmdastjóri rekstar- og útleigusviðs hjá Landfestum hf. Við samruna Landfesta og Eikar fasteignafélags tók hann við starfi framkvæmdastjóra rekstarsviðs og frá árinu 2019-2021 sinnti hann starfi framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Eik.

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri

image

Svanhildur Konráðsdóttir hefur verið forstjóri Hörpu frá vordögum 2017. Hún starfaði við blaðamennsku og ritstjórn uns leiðin lá til Bretlands í háskólanám í samskipta- og ímyndarfræðum með áherslu á stjórnmál og menningu. Svanhildur starfaði hjá Sjónvarpinu við þáttinn Dagsljós en síðan að menningar-, markaðs- og ferðamálum, lengst af sem sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs hjá Reykjavíkurborg.

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús