Íbúar Hörpu
Harpa er heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar, Stórsveitar Reykjavíkur og Maxímús músíkús.
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands tók á móti rúmlega 70.000 gestum á 81 fjölbreyttum og litríkum tónleikum í Hörpu á árinu. Meðal hápunkta má nefna tónleika kanadísku sópransöngkonunnar og hljómsveitarstjórans Barböru Hannigan, sem bæði söng og stjórnaði verkum Mahlers, Haydns og hinnar írönsku Golfam Khayam í júní, glæsilega tónleika helgaða verkum Önnu Þorvaldsdóttur í september þar sem Eva Ollikainen aðalhljómsveitarstjóri hélt um tónsprotann og ástríðufullan flutning hljómsveitarinnar á Rómeó og Júlíu Prókofíevs undir stjórn Stéphans Denéve í október. Meðal fjölmargra einleikara sem hrifu tónleikagesti með sér á árinu má nefna sellóleikarann Kian Soltani, píanóleikarann Sunwook Kim og söngkonuna Anu Komsi, fiðluleikarana Isabelle Faust og Augustins Hadelich, auk staðarlistamanns SÍ á síðasta starfsári, Sæunnar Þorsteinsdóttur sellóleikara. Tónleikar Ásgeirs Trausta og Sinfó og koma breska sönghópsins King’s Singers á aðventunni hittu í mark hjá mörgum tónleikagestum – og þeir yngstu tóku andköf af hrifningu þegar tröllin lifnuðu við í flutningi hljómsveitarinnar á Ástarsögu úr fjöllunum eftir Guðna Franzson við ævintýri Guðrúnar Helgadóttur, á tónleikum Litla tónsprotans.
Íslenska óperan
Íslenska óperan frumsýndi óperuna Madama Butterfly eftir Puccini í Eldborg í mars 2023 og sýndi hana fimm sinnum fyrir fullu húsi, en sýningin fékk 5 stjörnu dóma bæði hérlendis og erlendis. Hún er ein af þeim óperum sem hvað oftast eru sviðsettar í heiminum og þykir jafnframt ein sú allra fallegasta. Uppfærslan vakti mikilvægar umræður um menningarmun og mismunandi birtingarmyndir hans í listum. Á árinu varð ljóst að starfsemi Íslensku óperunnar í Hörpu myndi ljúka á árinu 2024. Undirbúningur fyrir stofnun Þjóðaróperu hefur staðið um nokkurt skeið á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins og fyrir liggur að frumvarp um stofnun hennar gerir ráð fyrir að aðsetur Þjóðaróperu verði að hluta til í Hörpu. Fyrirsjáanlegt hlé verður á uppfærslum stærri sýninga í Eldborg næstu misseri.
Stórsveit Reykjavikur
Stórsveit Reykjavíkur heldur úti reglulegum tónleikum á hverjum vetri. Starfsemi þeirra blómstrar í Hörpu og sómir Stórsveitin sér vel á glæsilegum og stjörnum prýddum tónleikum í Eldborg sem og í minni sölum hússins. Á árinu hélt Stórsveitin fjölbreytta tónleika og fékk m.a. til liðs við sig tónlistarmenn úr framvarðasveit íslenskrar popptónlistar; GDRN, Friðrik Dór og Moses Hightower. Árlegir nýárstónleikar, Gullöld sveiflunnar, sem helgaðir eru swingtímabilinu voru í janúar, jólatónleikar með Sölku Sól og stórsveitamaraþon þar sem öllum stórsveitum landsins, ungum sem öldnum, nemendum sem atvinnumönnum, er boðin þátttaka.
Maximús Músíkús
Maxímús Músíkús á föst heimkynni í Hörpu og á þátt í að skipuleggja skemmtilega viðburði fyrir smáfólk allt árið um kring. Hann er reglulegur gestur á barna- og fjölskylduviðburðum Hörpu og barnatónleikum Sinfóníunnar.