Menning er stórmál
Í aðdraganda aðalfundar ákvað ég að gera litla tilraun til að hagnýta tæknina. Ég vildi sjá hversu vel gervigreindin gæti fangað það að skrifa ávarp stjórnarformanns Hörpu fyrir aðalfund. Þrjátíu sekúndum síðar var ég komin með í hendur tilbúna ræðu, ræðu sem sagði svo margt en samt næstum ekki neitt.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, stjórnarformaður
Og hvernig stendur á því að ég ákvað að fela gervigreindinni þetta verkefni? Gervigreindinni sem ekki hefur komið í Hörpu og hefur engin tengsl við eigendur hússins. Þó augljósa svarið kunni að virðast tímasparnaður – þá var það ekki raunin.
Ástæðan er sú að á undanförnu vikum höfum við, í tengslum við uppfærslu á stefnu, velt fyrir okkur sérstöðu og styrkleikum Hörpu í flóru framúrskarandi tónlistar- og ráðstefnuhúsa í heiminum og auðvitað í íslensku samhengi líka.
Í tengslum við þá vinnu leggjast stjórnarmenn, starfsfólk og aðrir sem að vinnunni koma undir feldinn fræga, velta fyrir sér straumum, stefnum og kröftum sem kunna að hafa mótandi áhrif á starfsemi og starfsumhverfi Hörpu á komandi misserum. Hvernig þarf Harpa að þróast ef hún ætlar áfram að vera á heimsmælikvarða, hvenær ætlum við að mæta og fylgja gestum okkar og hvenær ætlum við að leiða þá og upplýsa – hvað er það sem skilgreinir Hörpu þegar horft er fram á veginn og hvaða hlutverki ætlum við raunverulega að gegna?
Svörin við þessum spurningum eru, líkt og áskoranirnar sjálfar, langt frá því að vera einföld. Það sem gerir þetta flókið er að það sem er framúrskarandi er ekki hið einfalda, heldur hið einstaka. Við þurfum að finna leiðir til að láta hið einstaka blómstra og njóta sín. Finna leiðir fyrir einstök listaverk og upplifanir.
Á síðasta aðalfundi gerði ég mikilvægi sjálfbærni að sérstöku umtalsefni m.a. í tengslum við útgáfu á fyrstu sjálfbærniskýrslu Hörpu. En stóru áskoranirnar eru fleiri í okkar umhverfi, m.a. stafræn þróun.
Vissulega er það svo að stafræni veruleikinn, gervigreindin og tækninýjungar snerta okkar starfsemi eins og aðra og að sjálfsögðu verðum við að hagnýta tæknina í þeim tilgangi að vera á heimsmælikvarða áfram og mæta nýjum veruleika. Þar eru ráðstefnur og fundir haldnir í streymi, stórir viðburðir með tilheyrandi miðasölu eru haldnir á vettvangi tölvuleikja í hinum stafræna veruleika. Nú getum við meira að segja farið til London og séð ABBA á sviði, jafnvel þó Benny, Björn, Agneta og Anni sitji með tærnar upp í loft í Stokkhólmi.
Allt þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að kjarninn í okkar starfsemi snýst um hið einstaka, hið sammannlega og hið mennska. Tæknin leysir menninguna ekki af hólmi enda hefur gervigreind alnetsins litla tilfinningu fyrir sérstöðu, tilfinningu og blæbrigðum í samfélagi manna. Gervigreindin skilur ekki af hverju Georg Bjarnfreðarson er fyndinn, hún skilur ekki tvíræðni eða undirtexta. Hún skilur bara blákaldar staðreyndir og meðaltal. En listin er ekki meðaltal, listin er ekki unnin í gagnagrunnum.
Menning er stórmál - en hún er ekki bara stórmál. Menningin er líka samansafn af smámálum, litlum atriðum, blæbirgðum og litaskölum. Hún tengist hughrifum, tíðaranda og samfélagsviðmiðum á hverjum tíma, hún auðgar samfélagið. Í menningu felst að við förum frá hinu almenna, til hins einstaka, frá hinu stóra til hins smáa og frá hinu vélræna til hins mannlega. Þetta á við menningu á vinnustöðum, menningu samfélaga og þetta á ekki síst við þegar við njótum menningar og lista. Galdrarnir liggja í blæbrigðum og töfrum sem oft er erfitt að setja fingur á.
Þannig skrifaði gervigreindin fyrir mig almenna ræðu um stóru línurnar, ótrúlega góða ræðu, en ræðu sem er svo almenn að hana mætti flytja á aðalfundi flestra menningarhúsa heimsins. Hún hakaði í öll box varðandi það hvað einkennir gott ávarp stjórnarformanns út frá formlegum skilgreiningum. Þetta getur hún gert hratt og örugglega, sparað tíma og verið skilvirk en það vantar tenginguna við okkur, það vantar litbrigðin, það vantar mannlegu tenginguna og speglun við annað sem er að gerast í samfélaginu. Gervigreindin upplifði ekki Bamberg sinfóníuhljómsveitina spila hér í Eldborg, hefur bara lesið um Laufeyju Lín og hefur aldrei hóstað með Víkingi í Eldborg. Hún skilur ekki tilfinninguna sem felst í því að við komum saman og upplifum saman í tíma og rúmi einstaka listamenn á stóra sviði Eldborgar.
Enn síður gerir gervigreindin sér grein fyrir því hvers konar sigur það er að hvorki fasteignagjöld eða covid séu gerð hér að viðfangsefni.
Í mínum huga er afar mikilvægt að hafa einmitt þetta ofarlega í huga í þeirri stefnuvinnu sem nú stendur yfir hjá okkur. Við þurfum að hagnýta tæknina og nýjungar en við megum aldrei gefa afslátt af gildi menningar og mennsku, gildi samverunnar og sameiginlegrar upplifunar og mikilvægi þess að við komum áfram saman, hvort heldur sem er til skrafs og ráðagerðar eða til að njóta menningarviðburða. Þarna höfum við líka uppeldislegum skyldum að gegna gagnvart kynslóðum sem nú alast upp á stafrænum tímum – gervihnattaöldin er löngu liðin.
Rekstrarárangur síðastliðins rekstrarárs er afar góður, nokkuð betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Agi, útsjónarsemi og ríkur vilji til þess að gera stöðugt betur einkennir alla nálgun í rekstri og fjármálastjórn og þetta öryggi skapar sannarlega grundvöll fyrir því að önnur verkefni fái athygli og blómstri. Það má aldrei gleyma því að sköpunarkrafturinn þarf skýran ramma. Í þetta viljum við halda og hnykkja enn frekar á skýrleika í rekstrarumgjörð með lengri tíma samningi við eigendur um rekstrarframlög. Eigendur hafa lýst yfir vilja til að þróa slíkan samning og nú vinnum við í Hörpu að því að útfæra starfsþáttagreiningu, upplýsingagátt sem mun varpa skýrara ljósi á kostnað við ólíka þætti í starfsemi Hörpu og helstu krafta sem hafa áhrif á starfsemina. Á þeim grundvelli hefjum við svo samtal við eigendur um samning til lengri tíma. Líkt og síðustu ár hefur allt samtal við eigendur og þeirra fulltrúa verið til mikillar fyrirmyndar. Það byggir á trausti og gagnkvæmum skilningi og við þreytumst ekki á því að minna á mikilvægi þess að eiga stjórnmálamenn sem standa með menningu og skilja gildi þess að í henni sé fjárfest. Stjórn vill færa eigendum og fulltrúum þeirra kærar þakkir fyrir gott samstarf á nýliðnu rekstrarári og við vitum að það verður áfram árangursríkt og gjöfult.
Það er algjör ógjörningur að ætla hér að gera grein fyrir öllum áfangasigrunum, árangursríkum ráðstefnum og stórkostlegu menningarviðburðunum sem haldnir voru í Hörpu árið 2023. Við erum reglulega minnt á það við lestur á hagtölum og í annarri umfjöllun hver áhrif Hörpu eru þegar kemur að því að styðja og þróa ferðaþjónustu sem eina af grunnstoðum íslensks atvinnulífs. Í því sambandi má m.a. nefna að Harpa er í 1 sæti yfir mest gúggluðu áfangastaðina í Reykjavík á liðnu ári.
Með sama hætti erum við stöðugt minnt á það hvernig viðburðir í Hörpu hreyfa við gestum og auðga líf þeirra. Enn á ný raungerðist á nýliðnu rekstrarári stórhuga framtíðarsýn um að Harpa yrði allt í senn heimssvið og heimavöllur.
Eins og ég nefndi áður þá er nú farin í gang vinna við uppfærslu á stefnu Hörpu og á sama tíma iðar húsið af lífi. Dagskráráðið hefur fest starfsemi sína í sessi og viljum við þakka þeim fyrir gott starf á liðnu starfsári. Opnir viðburðir fyrir fjölskyldur og börn vöktu eftirtekt, landsins stærsti kór fyllti húsið, leiðtogafundur með umfang og öryggisráðstafanir sem aldrei hafa sést áður í Hörpu, stórkostlegir listamenn og ógleymanleg augnablik. Allt þetta og svo margt fleira mátti finna í Hörpu á nýliðnu ári.
Þá er rétt að minna á að gæðin sem sköpuð eru í því einstaka listaverki og kennileiti sem Harpa er verða seint mæld eða kynnt í ársreikningum og uppgjörum, en við vitum sannarlega af þeim. Það koma margir að því að fylla Hörpu lífi, skapa góðar minningar og einstaka upplifun og því vil ég fyrir hönd stjórnar, þakka öllum íbúum Hörpu fyrir ánægjulegt samstarf. Þetta á við fasta íbúa og notendur hússins á sviði menningarlífsins – Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperuna og Stórsveit Reykjavíkur en ekki síður aðra aðila í húsinu sem skapa umgjörð og upplifun í samræmi við áherslur og stefnu Hörpu. Þá eru ónefndir samstarfsaðilar, viðburðahaldarar og listamenn sem gera Hörpu að því sem Harpa er.
Stjórn Hörpu fundaði níu sinnum á árinu og endurskoðunarnefnd hefur fundað sjö sinnum á skipunartíma sínum sem nær yfir á tímabilið frá júní sl. þar til nú. Þrír nýir stjórnarmenn komu inn í stjórn Hörpu á síðasta aðalfundi, en það voru þau Gunnar Sturluson, Hrönn Greipsdóttir og Jón Þorvarður Sigurgeirsson . Stjórnarmenn koma með ólíka reynslu, menntun, þekkingu og sjónarmið að stjórnarborðinu. Starfsemi Hörpu er flókin og fjölbreytt og það felst í því mikið virði að hópurinn sem kemur saman við stjórnarborðið geti átt upplýsandi og greinandi samtal um þessi ólíku mál, sú er svo sannarlega raunin. Skemmst er frá því að segja að allt samstarf í stjórn hefur verið uppbyggilegt og farsælt.
Í stjórnarstörfum höfum við áfram lagt ríka áherslu á að viðhafa góða stjórnarhætti og að eiga í góðu samtali við eigendur og fulltrúa þeirra. Ég vil þakka stjórnarmönnum traust, gott og gefandi samtal. Eins vil ég, fyrir hönd stjórnar, þakka Hjörleifi Pálssyni sem hefur sinnt formennsku í endurskoðunarnefnd einstaklega gott og samstarf, það hefur verið virkilega verðmætt að eiga Hjörleif að þegar kemur að því að meta árangur og tækifæri til umbóta og þróunar.
Við búum við þau ómetanlegu gæði að stjórnendur og starfsfólk Hörpu er afar framsækinn og metnaðarfullur hópur og gildir þá einu hvort horft er til tæknilegra lausna í tengslum við viðburðahald, fasteignareksturinn, fjármálastýringar, framkvæmd viðburða, markaðssetningar og mælinga, dagskrárgerðar eða annarra þátta. Takk kæra samstarfsfólk í Hörpu, þið megið svo sannarlega vera stolt af ykkar störfum og glæsilegum árangri. Þá held ég að það sé á engan hallað þó ég nefni hér sérstaklega Svanhildi Konráðsdóttur og Berglindi Ólafsdóttur, undanfararnir og áttavitarnir sem halda að einstakri festu og metnaði um stjórnartaumana í daglegum rekstri í Hörpu. Takk fyrir ykkur.
Það eru bjartir tímar framundan í Hörpu hvað varðar menningu og viðburðarhald ýmiskonar og full ástæða til að við sem hér erum í dag séum stolt af því hvar við stöndum í dag með Hörpu – húsið okkar allra.
Stjórnarhættir
Eigendastefna
Harpa starfar í samræmi við sértæka eigendastefnu sem tók gildi árið 2012. Að auki gilda almennar eigendastefnur íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2022 en þeim er ætlað að tryggja gegnsæja, faglega og skilvirka stjórnun félagsins. Í þeim eru m.a. ákvæði um stjórnarhætti og stjórnsýslu, ábyrgðarskil, samskipti og upplýsingagjöf til eigenda. Eigendanefnd Hörpu er skipuð sex fulltrúum, þremur frá hvorum eiganda og er meginhlutverk hennar að samræma sjónarmið eigenda í málefnum félagsins.
Stjórnarhættir
Stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss leitast við að viðhalda góðum stjórnarháttum og fylgir eftir „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út árið 2021. Stjórn Hörpu hefur sett sér starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og verksvið gagnvart forstjóra. Í starfsreglum stjórnar er meðal annars að finna reglur um fundarsköp, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf forstjóra gagnvart stjórn og fleira. Reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu félagsins ásamt siðareglum stjórnar og starfsfólks. Stjórn hefur jafnframt sett starfskjarastefnu sem birt er á heimasíðu félagsins. Stjórn samstæðunnar ákveður starfskjör forstjóra. Fundir stjórnar á árinu voru 11 talsins.
Tengt efni
Stjórn Hörpu 2023
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir
Ráðgjafi. Stjórnarformaður
Situr í endurskoðunarnefnd - í stjórn Hörpu frá 2019
Árni Geir Pálsson
Ráðgjafi. Varaformaður stjórnar
Situr í endurskoðunarnefnd Hörpu - í stjórn Hörpu frá 2017
Gunnar Sturluson
Hæstaréttarlögmaður. Meðstjórnandi
Í stjórn Hörpu frá 2023
Hrönn Greipsdóttir
Framkvæmdastjóri. Meðstjórnandi
Í stjórn Hörpu frá 2023
Jón Sigurgeirsson
Efnahagsráðgjafi. Meðstjórnandi
Í stjórn Hörpu frá 2023
Varamenn
Varamenn í stjórn Hörpu eru Emelía Ottesen og María Rut Reynisdóttir.
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús
Dótturfélög
Greiðslumiðlunin Hringur ehf.
Meginstarfsemi og tilgangur félagsins
Greiðslumiðlunin Hringur ehf. er hluti af samstæðu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. (Harpa) og hefur þann tilgang að gefa út skuldabréfaflokk vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu við Austurhöfn í Reykjavík og annast mánaðarlegar afborganir af útgefnum skuldabréfum í samræmi við ákvæði samnings um rekstur og starfsemi Hörpu.
Framlag íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar vegna byggingar og fjármögnunar Hörpu gengur til greiðslu á lántöku og er veðsett á móti skuldum félagsins. Framlagið byggir á samningi um rekstur og starfsemi Hörpu þar sem íslenska ríkið og Reykjavíkurborg skuldbinda sig til að greiða mánaðarlega framlag í 35 ár til Hörpu. Upphafsgreiðsla var í mars 2011 og greiðslu lýkur árið 2046.
Rekstrarfélagið Stæði slhf.
Meginstarfsemi og tilgangur félagsins
Tilgangur félagsins er að annast rekstur bílastæðahúss Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfnina í Reykjavík. Félagið er samlagshlutafélag og ósjálfstæður skattaðili. Skattskyldur hagnaður er skattlagður hjá félagsaðilum á grundvelli hlutafjáreignar. Móðurfélag félagsins er Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. (Harpa). Eignaraðild félagsins er eftirfarandi; Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf 77% og Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar 23%.
Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf.
Meginstarfsemi og tilgangur félagsins
Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf. stendur fyrir menningarviðburðum í Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Starfsemi félagsins á því sviði lýtur að tónlistar- og menningarviðburðum sem hvorki teljast í samkeppni við aðra afþreyingarmarkaði né fasta notendur Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf.
Dótturfélög Hörpu