Harpa og samfé­lagið

Harpa ber ríkar skyldur til að ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að samfélagsábyrgð og innleiðingu sjálfbærni á öllum sviðum starfseminnar.

Harpa gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu með rekstri á tónlistar- og ráðstefnuhúsi þar sem tilgangurinn er að skapa menningarleg, efnahagsleg og samfélagsleg verðmæti fyrir eigendur sína, sem eru landsmenn allir. Harpa vill vera til fyrirmyndar og leggur ríka áherslu á samfélagsábyrgð og vinnur markvisst að því að auka sjálfbærni á öllum sviðum starfseminnar.

Sjálfbærnistefna Hörpu tekur mið af alþjóðlegum mælikvörðum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Harpa gefur nú út í annað sinn árs- og sjálfbærniskýrslu samhliða ársreikningi í samræmi við UFS leiðbeiningar, sem gefnar eru út af Nasdaq í samstarfi við Viðskiptaráð. Markmiðið er að miðla upplýsingum um starfsemina og áhrif hennar á umhverfið og samfélagið. Langbrók ráðgjöf aðstoðaði stjórnendur Hörpu við gerð skýrslunnar.

Frá upphafi árs 2022 hefur stýrihópur um sjálfbærnimál verið starfandi sem hefur leitt mörkun og innleiðingu sjálfbærnimarkmiða með aðstoð sjálfbærniráðgjafa þar sem megin áherslan er að innleiða UFS mælikvarða og á sama tíma að leggja kapp á það að efla félagsleg áhrif Hörpu og menningarvitund í samfélaginu. Harpa hefur innleitt öll Græn skref Umhverfis-stofnunar og fékk Svansvottun sem ráðstefnuhús árið 2022. Harpa hefur frá árinu 2015 unnið markvisst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vil á þann hátt taka virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Heimsmarkmið

Harpa fylgir eftir fimm Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en samtals eru þau 17 talsins. Starfsfólk Hörpu kom að því vali til að styðja við innleiðingu á stefnu og sjálfbærniáherslum í starfseminni. Eftirfarandi Heimsmarkmið töldust samræmast áherslum Hörpu í samfélagsábyrgð:

3. Heilsa og vellíðan Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan frá vöggu til grafar.

5. Jafnrétti kynjanna Jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld.

8. Góð atvinna og hagvöxtur Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.

9. Nýsköpun og uppbygging Byggja upp viðnámsþolna innviði fyrir alla, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun.

13. Aðgerðir í loftslagsmálum Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra.

Heimsmarkmið

Glerhjúpur Hörpu nýttur til að vekja athygli á áhersludögum

Glerhjúpur Hörpu er eitt stærsta listaverk í heimi en hann er hannaður af Ólafi Elíassyni og arkitektum hússins. Listaverkið er bundið höfundar- og sæmdarrétti Ólafs. Harpa birtir almennt aðeins ljósverk sem hönnuð eru af Ólafi Elíassyni á hjúpnum en að auki tekur húsið þátt í einstaka alþjóðlegum viðburðum eða samfélagslega mikilvægum áhersludögum til að vekja athygli á lýðheilsu, merkisdögum eða áföngum sem hafa víðtæka skírskotun.

Harpa lýsir reglulega upp hjúpinn til að vekja athygli á góðgerðarmálum og til að sýna samstöðu með ákveðnum samfélagsmálum. Á árinu 2023 var glerhjúpurinn til að mynda skreyttur í samræmi við eftirfarandi átaksverkefni.

  • Bleiki dagurinn, árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins.
  • Minningardegur Transfólks. Dagurinn er ætlaður til þess að minnast trans fólks sem hefur verið myrt eða tekið eigið líf.
  • Alþjóðadagur táknmála. Í tilefni dagsins var Harpa lýst upp með bláu ljósi til stuðnings íslenska táknmálinu en talið er að um 200 mismunandi táknmál séu í heiminum og hvetja Alheimssamtök heyrnarlausra WFD alla til að varpa bláu ljósi á helstu kennileiti og byggingar til stuðnings baráttunnar fyrir táknmálinu.
  • Alþjóðlegur baráttudagur gegn kyndbundu ofbeldi. Appelsínugulur táknar framtíð án ofbeldis og er litur baráttudagsins.
  • Harpa var lýst með appelsínugulum lit til stuðnings Krafts stuðningsfélags ungs fólks með krabbamein.
  • Friðarmerkið skreytti glerhjúpinn í tilefni af tendrun Friðarsúlunnar í Viðey á fæðingardegi John Lennon. Friðarsúlan er hugarfóstur myndlistarmannsins, tónlistarmannsins og friðarsinnans Yoko Ono og er hugsuð sem leiðarljós fyrir heimsfrið.
  • Harpa var lýst með einstöku hjartalagi á Alþjóðadegi sjaldgæfra sjúkdóma í heiminum til stuðnings Einstökum börnum og foreldrum þeirra. Árvekni- og fjáröflunarátak Einstakra barna snýr að því að auka samfélagslegan skilning á stöðu barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma/heilkenni.
  • Alþjóðleg vitundarvakning fatlaðs fólks og stöðu þeirra í samfélaginu var komið á framfæri með fjólubláum lit á Hörpu líkt og fleiri þekktar byggingar um allan heim.

Hjúpur Hörpu