Upptakt­urinn

Með Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listamönnum.

Upptakturinn slær taktinn á ný árið 2025

Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist og þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar. Að þessu ferli loknu höfum við eignast ný tónverk sem verða flutt á tónleikum og varðveitt með upptöku. Tónleikar Upptaktsins 2025 verða haldnir í Norðurljósum hinn 11. apríl 2025!

Markmið Upptaktsins

  • Sköpun: Að stuðla að tónsköpun ungs fólks og hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist.
  • Skráning: Að aðstoða börn og ungmenni við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju og varðveita þannig tónlistina.
  • Flutningur: Að gefa börnum og ungmennum tækifæri á að upplifa eigin tónlist í flutningi fagfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Hörpu.

Reglur

  • Börnum og ungmönnum í 5.-10. bekk er heimilt að taka þátt í Upptaktinum og senda inn tónsmíð óháða tónlistarstíl. Þau sem komast áfram taka þátt í vinnustofu með fagfólki.
  • Lengd tónverks skal vera 1-5 mínútur að hámarki, annaðhvort einleiks eða samleiksverk fyrir allt að 7 flytjendur.
  • Hugmyndir skulu berast fyrir 21. febrúar 2025 á netfangið upptakturinn@gmail.com með nafni höfundar, aldri, símanúmeri, netfangi, grunnskóla, titli verks og verkinu á nótum og/eða mp3 hljóðskrá.

Hvernig er ferlið?

Dómnefnd  Fagmenn sitja í dómnefnd og velja 12-13 verk úr innsendum hugmyndum.

Tónsmiðja Valin verk verða fullunnin í tónsmiðju með tónskáldum og fagfólki í tónlist. Tónsmiðjan fer fram í Listaháskóla Íslands og Hörpu dagana og að því ferli loknu hafa orðið til ný tónverk.

Tónleikar  Tónverkin verða síðan flutt á glæsilegri tónleikadagskrá í Hörpu. Tónleikarnir eru hluti af opnunarhátíð Barnamenningar í Reykjavík. Hljóðfæraleik og framkvæmd annast fagfólk í tónlist.

Tónsköpunarverðlaunin  Öll verkin sem flutt verða á tónleikunum hljóta tónsköpunarverðlaunin: Upptakturinn 2025.

Meira um Upptaktinn

Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Í samstarfi við Upptaktinn eru einnig Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabær, Borgarbyggð, Mosfellsbær, Kópavogsbær og Menningarfélag Akureyrar.

10 ára afmælismyndband

Myndir frá tónlistarsmiðjum og tónleikum Upptaktsins