Eigin dagskrár­gerð

a group of dancers are posing for a picture on a stage in front of a crowd .

Dagskrá og viðburðir á vegum Hörpu

Harpa hefur ríku menningarlegu og samfélagslegu hlutverki að gegna. Harpa starfar eftir dagskrárstefnu þar sem markmiðið er að auka fjölbreytni í viðburðahaldi í húsinu með áherslu á hágæða alþjóðlega tónlistarviðburði, barnamenningu, frumsköpun, grasrót og samstarf við fjölbreyttan hóp stofnana, hátíða og listamanna.

Dagskrárráð Hörpu

Hlutverk dagskrárráðs Hörpu er að styðja við framkvæmd dagskrárstefnunnar svo að húsið uppfylli sem best menningarlegt hlutverk sitt miðað við þann stakk sem því er sniðinn. Dagskrárráðið hefur ráðgefandi hlutverk um val á þeim verkefnum sem Hörpustrengir framleiða ár hvert. Ráðið er skipað einstaklingum sem hafa fjölþætta og víðtæka þekkingu á tónlist – jafnt á heimavelli og heimssviði. Smelltu hér til að lesa nánar um dagskrárráð Hörpu.

a woman is standing in front of a piano surrounded by musicians on a stage .

Bamberg sinfónían ásamt Hélène Grimaud undir stjórn Jakub Hrůša

Hin virta sinfóníuhljómsveit Bamberg Symphony kom fram í fyrsta sinn á Íslandi í Eldborg í apríl. Bamberg er ein fremsta sinfóníuhljómsveit Þýskalands og eftirsótt um allan heim. Hinn margverðlaunaði franski píanóleikari Hélène Grimaud var einleikari á tónleikunum og hljómsveitarstjóri var hinn tékkneski Jakub Hrůša, sem ráðinn hefur verið tónlistarstjóri Konunglega óperuhússins í Covent Garden í London. Hrůša hefur á síðustu árum náð miklum árangri sem aðalhljómsveitarstjóri Bamberg sinfóníunnar auk þess að sem hann er eftirsóttur gestastjórnandi margra helstu hljómsveita heims.

Efnisskráin var sérstakt ánægjuefni fyrir unnendur tónlistar Richards Wagner því á tónleikunum flutti Bamberg prelúdíu úr fyrsta þætti Lohengrin og Tannhäuser-forleikinn. Einnig voru flutt verk eftir tvo samtímamenn Wagners, Sinfónía nr. 3 eftir Johannes Brahms og píanókonsert Roberts Schumann í flutningi Hélène Grimaud.

a young girl is playing a violin in front of a crowd of people .

Klassíski krakkadagurinn

Harpa hélt Klassíska krakkadaginn í apríl í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Bamberg sinfóníuhljómsveitina og íslenska tónlistarskóla í tilefni af komu Bamberg. Viðburðurinn var einstakur því í fyrsta sinn í sögu Hörpu, og örugglega í íslenskri tónlistarsögu, buðu tvær sinfóníuhljómsveitir samtímis upp á dagskrá fyrir börn og fjölskyldur. Auk þess ómaði tónlist um opin rými Hörpu þegar nemendur úr tónlistarskólum komu fram.

Dagurinn var afar eftirminnilegur í tónlistarhúsi þjóðarinnar þar sem tónlist var flutt bæði af fagfólki fyrir börn og af börnum fyrir gesti og gangandi. Eins og öll fjölskyldudagskrá á vegum Hörpu var viðburðurinn ókeypis og öllum aðgengilegur.

a woman in a traditional costume is standing in front of a crowd of people .

Menningarnótt

Menningarnótt í Reykjavík á sér sérstakan sess í sögu Hörpu. Á opnunarárinu 2011 var byggingin vígð á Menningarnótt og fyrsta ljóslistaverk Ólafs Elíassonar tendrað á hjúp hússins. Alla tíð síðan hefur dagurinn verið sannkölluð hátíð í Hörpu þar sem boðið er upp á fjölskrúðuga dagskrá fyrir fólk á öllum aldri, gestum að kostnaðarlausu. Dagskráin var glæsileg með hátt í 50 viðburðum bæði inni og á Hörputorgi, þar sem listafólk úr hinum ýmsu greinum kom fram. Metfjöldi gesta sótti húsið heim eða rúmlega16.000 manns og yfir 300 manns komu fram á deginum. Þeirra á meðal lúðrasveitir, Sinfóníuhljómsveit Íslands, trúðar, tröll og stærðarinnar flamingóar, fljúgandi hjólakappar og fjölmargt tónlistarfólk. Ragnhildur Gísladóttir og Halldór Gunnar Fjallabróðir slógu lokahljóminn í dagskrá Hörpu þegar þau stýrðu samsöng af öllum hæðum. Á meðal þeirra sem sungu með var forseti Íslands, Halla Tómasdóttir og forsetagæinn Björn Skúlason.

a group of men are performing acrobatics on a stage .

Kalabanté fjöllistahópurinn

Fjöllistahópurinn Kalabanté var með sýninguna Africa in Circus í Eldborg í byrjun september. Daglegt líf í Gíneu er innblástur sýningarinnar sem er full af lífsgleði, litadýrð, tónlist, dansi og ótrúlegum sirkuslistum. Sýningin sem er eftir Yamoussa Bangoura, hefur farið sigurför um heiminn og fengið einróma lof gagnrýnanda. Tónlistin sem hópurinn flutti er bræðingur af afró, funk og jazz með hljóðfærum frá Vestur-Afríku eins og djembe trommu, balafon og strengjahljóðfærinu kora í bland við kunnulegri hljóðfæri eins og saxófón, bassa og trommusett.

Afrísk trommu- og danssmiðja með Kalabanté

Ungmennum og öðrum áhugasömum var boðið í stórskemmtilega smiðju með fjöllistahópnum Kalabanté þar sem tónlist, dans og hljóðfæri frá Vestur-Afríku voru kynnt.

a group of people are standing in a large room .

Fjölskyldudagskrá Hörpu

Barnamenning var áberandi í dagskrárgerð á árinu og voru haldnir um 40 viðburðir á Fjölskyldudagskrá Hörpu. Leikið var á langspil, hið séríslenska hljóðfæri, farið í hljóðbað á Myrkum músíkdögum, dansað saman með Dj Stjána stuð, skoðunarferð og sögustund með Maxímús Músíkús á sex tungumálum; íslensku, íslensku táknmáli, arabísku, spænsku, ensku og pólsku. Skoðað var hvaðan tónlistin kemur, raftónlist og íslensk textagerð mættust í tónlistarsmiðjunni taktur og texti, haldnir voru krílatónar fyrir yngstu börnin, skuggaleikhús með ÞYKJÓ, hlustað á tónlistarævintýrið Tumi fer til tunglsins á Óperudögum auk glæsilegrar dagskrár fyrir börn á Menningarnótt. Tilteknir barnaviðburðir voru unnir í samstarfi við hin ýmsu hagsmunasamtök og einstaklinga; Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra, List án landamæra, Rauða krossinn og REC Arts Reykjavik. Sem fyrr var leikskólum boðið í heimsóknir þar sem yngstu gestum Hörpu fengu skoðunarferð um húsið.

Samstarfsverkefni

Til viðbótar við eigin dagskrárgerð og miðasöluviðburði á heimssviðinu, tók Harpa þátt í ýmsum samstarfs- og samfélagsverkefnum á árinu.

a group of people are standing in front of a stage with purple lights .

Upprásin

Tónlistarhúsið Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Rás 2, standa fyrir tónleikaröðinni Upprásin, sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Tónleikaröðin er liður í því að framfylgja dagskrárstefnu Hörpu um bætt aðgengi grasrótar og ungs fólks í öllum tónlistargreinum og auka fjölbreytni viðburðarhalds í Hörpu. Markmiðið er einnig að tónlistaráhugafólk geti gengið að því vísu að heyra fjölbreytta nýja íslenska tónlist, beint úr grasrót tónlistarlífsins, flutta reglulega við kjöraðstæður í tónlistarhúsi þjóðarinnar. Upprásin var haldin í annað skiptið 2024 og voru haldin 10 tónleikakvöld með þremur tónlistaratriðum hvert kvöld.

a person is playing a cello in front of a marshall amplifier

Sígildir sunnudagar

Tónleikaröðin Sígildir sunnudagar hefur verið haldin um árabil í Hörpu og voru 25 tónleikar haldnir á árinu. Sígildir sunnudagar er regnhlífarhugtak yfir klassískar tónleikaraðir og staka viðburði í Norðurljósum eða Kaldalóni á sunnudögum frá september fram í maí árlega. Á Sígildum sunnudögum gefst áheyrendum kostur á fyrsta flokks kammertónleikum þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt úrval tónleika með sígildri söng- og hljóðfæratónlist.

a woman is playing a cello in a black and white photo

Velkomin heim

Velkomin heim tónleikaröðin hefur verið haldin undanfarin ár í Hörpu en markmiðið er að greiða leið nýútskrifaðs tónlistarfólks sem hefur numið erlendis að halda sína fyrstu tónleika heima fyrir. Tónlistarfólkið er bæði úr klassíska og rythmíska geiranum og hefur komið fram í Hörpuhorni og öðrum opnum rýmum Hörpu. Alls voru fernir tónleikar haldnir í Hörpuhorni í röðinni síðastliðið sumar.

Aðgangur á tónleikana er ókeypis sem hefur vakið mikla lukku bæði þeirra sem sækja reglulega tónleika í Hörpu, sem og ferðamanna sem fagna því að komast óvænt á tónleika í opnu rýmunum.

a group of people are standing in front of a large window .

Upptakturinn

Ómissandi þáttur í tónlistaruppeldi, -fræðslu og upplifun barna og ungmenna í Hörpu er Upptakturinn - tónsköpunarverðlaun ungs fólks sem hefur verið haldin um árabil. . Með Upptaktinum eru ungmenni í 5. – 10. bekk hvött til að semja tónlist og þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda Tónsmíðadeildar. Krakkarnir fá svo tækifæri til að upplifa eigin tónlist í flutningi fagfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Hörpu.

a group of people are playing instruments on a stage in a dark room .

Korda Samfónía

Harpa er samstarfsaðili Korda Samfóníu sem hélt tónleika í Silfurbergi í byrjun sumars. Korda Samfónía er óhefðbundnasta hljómsveit landsins, en þar koma saman um 35 einstaklingar á aldrinum 20-70+ ára á ólíkum stöðum í lífinu og með ólíkar sögur að baki með það að markmiði að vinna saman að sköpun nýrrar tónlistar.

Meðlimir Kordu Samfóníu koma úr hinum ýmsu áttum þjóðfélagsins. Þar er að finna sprenglært og þaulreynt starfandi tónlistarfólk sem og nemendur úr Listaháskóla Íslands, sjálfmenntað tónlistarfólk og fólk sem aldrei hefur áður lagt stund á tónlist. en einnig fólk sem orðið hefur fyrir áföllum og er mislangt komið í endurhæfingaferli sem stutt er af starfsendurhæfingastöðvum um allt land. Allar raddir eru jafnréttháar og útkoman er stórkostleg!