Fólkið okkar
Markmið Hörpu er að vera eftirsóttur vinnustaður og fyrsti valkostur þeirra sem vilja starfa í faglegu, skapandi og menningartengdu umhverfi.
Harpa býður upp á fjölbreytt starfsumhverfi í fallegu húsi sem hentar einstaklingum sem sækjast eftir að vera í hringiðu mennningar- og viðburðatengdrar starfsemi.
Vinnustaðurinn
Markmið Hörpu er að vera eftirsóttur vinnustaður og fyrsti valkostur þeirra sem vilja starfa í faglegu, skapandi og menningartengdu umhverfi. Harpa býður upp á fjölbreytt starfsumhverfi í fallegu húsi sem hentar einstaklingum sem sækjast eftir að vera í hringiðu mennningar- og viðburðatengdrar starfsemi.
Á árinu 2024 var unnin endurskoðuð og ný stefna fyrir Hörpu til næstu 5 ára sem starfsfólk tók mikinn þátt í að móta. Framtíðarsýnin var sett, tilgangurinn skýrður og skerpt vel á helstu áherslum í starfseminni. Metnaðarfull stefna leit dagsins ljós og Í framhaldinu hafa verið sett skýr markmið og áætlun um aðgerðir til að tryggja framkvæmd.
Gæði viðburða, þjónustu og upplifunar þeirra sem nýta sér þjónustu hússins skal ávallt vera á heimsmælikvarða og því stefna Hörpu að hafa besta fagfólkið á sínu sviði innanborðs.
Starfsfólk
Starfsfólk Hörpu telur um 100 einstaklinga. Fastráðnir einstaklingar í fullu starfi eru um 50 en aðrir eru í hlutastarfi og sinna fyrst og fremst þjónustu við viðskiptavini á þeim fjölmörgu og fjölbreyttu viðburðum sem haldnir eru. Að auki eru eftir atvikum í húsinu verktakar sem sinna viðburðum hverju sinni og þá í góðu samstarfi við starfsfólk Hörpu varðandi undirbúning og framkvæmd viðburða.
Vinnustaðarmenning Hörpu einkennist af miklum áhuga starfsfólks á viðfangsefninu hverju sinni og metnaði til að ná framúrskarandi árangri og að upplifun gesta Hörpu sé á . heimsmælikvarða. Slíkur árangur næst ekki nema að hugað sé að gæðum, bæði í stórum og smáum þáttum hvers viðburðar.
Áhersla er lögð á að skapa jákvætt, nærandi og faglegt starfsumhverfi þar sem öll samskipti eru byggð á trausti, virðingu og skýrleika. Samskiptasáttmáli starfsfólks Hörpu endurspeglar þessi markmið og er leiðbeinandi í daglegu starfi. Með því að fylgja viðmiðum sáttmálans treystir starfsfólk böndin og vinnur sem ein heild að sameiginlegum metnaðarfullum markmiðum.
Vinnuaðstaða starfsfólks er almennt góð með uppfærðum kerfum, tækni og búnaði til að skapa góðar vinnuaðstæður. Starfsfólki býðst að fá styrki til íþróttaiðkunar auk þess sem árlegar heilsufarsmælingar eru í boði. Umbóta- og nýsköpunarhugsun er ríkjandi og áhersla á að finna leiðir til góðra lausna. Mikið samstarf er á milli eininga og samstaða hópsins í að ná árangri eftirtektarverð.
Starfsánægja
Reglulega er starfsfólki gefinn kostur á að meta ýmsa þætti vinnu umhverfisins og eigin líðan. Undanfarin ár hefur HR Monitor, samstarfsaðili Hörpu á þessu sviði, séð um framkvæmd þessarar greiningar. Með því að fela óháðum aðila framkvæmdina er trúnaður tryggður, og ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga.
Í hverri mælingu eru metnir átta fastir þættir á skala frá 1 til 5. Niðurstöðurnar flokkast í þrjú svið: „á aðgerðarbili“, „góðar niðurstöður“ eða „mjög góðar niðurstöður“. Starfsfólk hefur einnig tækifæri til að svara opinni spurningu með textasvari. Meðaltal niðurstaðna gefur heildarárangur hverju sinni
Þeir þættir sem ávallt eru metnir eru eftirfarandi:
Á árinu 2024 voru tvær kannanir lagðar fyrir, sú fyrri í janúar og sú seinni í september. Meðaltal niðurstaðna þessara tveggja kannana sýna mjög góðar niðurstöður, eða heildarárangur 4.23 af 5 mögulegum.
Fyrirtæki ársins - VR könnun
Auk reglulegra starfsmannakannana tekur Harpa þátt í árlegri könnun VR á „Fyrirtæki ársins“. Í þeirri könnun er spurt um viðhorf til níu lykilþátta í innra starfsumhverfi og gefst starfsfólki Hörpu kostur á að svara þeirri könnun óháð félagsaðild í VR. Yfir 70% starfsfólks tók þátt í könnuninni árið 2024 og var heildareinkunn Hörpu 4,31 af 5 mögulegum.
Þekking og þróun
Starfsfólk Hörpu er hvatt til að fylgjast með þeim breytingum og þróun sem á sér stað í þeirra fagi og í samfélaginu hverju sinni og þróa hæfileika sína á sínum forsendum. Starfsfólk og stjórnendur bera sameiginlega ábyrgð á þekkingaröflun og þróun. Þar fer saman drifkraftur starfsfólks til að bæta við sig þekkingu og stuðningur stjórnenda til að svo megi verða. Regluleg starfsmannasamtöl eru mikilvægur hlekkur í skipulagi þekkingaröflunar, þar sem uppbyggileg umræða og endurgjöf á sér stað og markmið sett sem leiða til aukins árangurs. Auk þessa gefst starfsmönnum kostur á aðild að ýmsum fræðslufélögum sem er mikilvægt fyrir aukna þekkingaröflurn og tengsl við í fjölbreyttum greinum.
Jafnrétti
Í Hörpu er virk jafnréttis- og mannréttindastefna. Kjarninn í þeirri stefnu er að skapa sveigjanlegt og jákvætt starfsumhverfi þar sem virðing og jöfn tækifæri eru höfð í hávegum. Stefnan er skuldbinding Hörpu til að vinna markvisst að umbótum í jafnréttis- og mannréttindamálum, þar sem fylgt er eftir lögum og reglum um jafna stöðu og tækifæri starfsfólks.
Órjúfanlegur hluti jafnréttis- og mannréttindastefnunnar er skuldbinding Hörpu um að launasetning sé í samræmi við kröfur jafnlaunavottunar. Harpa er með faggilta jafnlaunavottun, en meginmarkmið slíkrar vottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
Jafnréttis- og mannréttindastefna
Jafnvægisvogin
Á árinu hlaut Harpa viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, sem er mælitæki sem hefur eftirlit með stöðu og þróun kynjajafnréttis í stjórnum og framkvæmdastjórnum. Tilgangur verkefnisins er að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi og er markmiðið að hlutföllin milli kynja séu 40/60 í framkvæmdastjórnun fyrirtækja á Íslandi.
Verkefnið gengur út á að virkja íslenskt viðskiptalíf til að vera fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir, og að taka saman heildræna stöðu og niðurstöðu greininga á stöðu stjórnenda í íslensku atvinnulífi og birta niðurstöður.
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni FKA og unnið í samstarfi við Creditinfo, Deloitte, forsætisráðuneytinu, Pipar\TBWA, RÚV, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.
Fjölskylduvænn vinnustaður
Starfsmannafélag Hörpu heitir Harkan. Flest starfsfólk sér hag sinn í að vera félagsmenn enda stendur félagið fyrir smærri og stærri viðburðum á hverju ári. Viðburðirnir eru stundum eingöngu fyrir starfsfólk en mikil áhersla hefur verið á að bjóða upp á fjölskylduvæna viðburði þar sem starfsfólki gefst kostur á að mæta með fjölskyldur sínar og taka þátt í skemmtilegum viðburðum fyrir mjög hóflegt verð. Að auki njóta félagsmenn afsláttarkjara á ýmsum stöðum.
Heilsa og öryggi
Ár hvert gefst starfsfólki kostur á að fara í almenna heilsufarsmælingu auk heyrnarmælingar. Sérfræðingar á sviði forvarna og heilsuverndar mæla almenna þætti tengda góðri heilsu og vellíðan og veita ráðleggingar á því sviði eftir atvikum. Harpa greiðir jafnframt árlegan íþróttastyrk gegn framvísun kvittunar og á árinu voru það 21 starfsmenn sem nýttu sér það.
Á árinu voru hvorki skráð slys né næstum slys. Harpa er með virkt ábendingakerfi þar sem haldið er utan tilkynningar sem varða öryggismál. Kerfið er opið starfsfólki Hörpu sem og íbúum Hörpu og fólk hvatt til að setja þar inn ábendingar varðandi öryggismál og skrá atvik ef þau verða.
Samgöngusamningur
Starfsfólk er hvatt til að nýta sér umhverfisvæna fararkosti til og frá vinnu. Með umhverfisvænum kostum er átt við allan ferðamáta annan en einkabíl, svo sem að ganga, hjóla eða ferðast með strætisvögnum.
Starfsfólki stendur til boða að gera samgöngusamning, sem gengur út á það að starfsfólk nýti sér umhverfisvænan fararkost og fái þá ákveðna upphæð í samgöngustyrk. Styrkurinn getur gilt fyrir allt árið eða eingöngu frá maí til september. Fjöldi starfsfólks Hörpu vinnur ekki á hefðbundnum dagvinnutíma og hefur það verið ein áskorun í því að hvetja starfsfólk til að nýta sér möguleikann á samgöngusamning. Á árinu 2024 voru 12 einstaklingar með samgöngusamning.
Könnun meðal starfsfólks sýnir að heildarlosun af samgöngum starfsfólks var 8,7 tCO₂ fyrir árið 2024, en 17,3 tCO₂ fyrir árið 2023 og 25,6 tCO₂ fyrir árið 2022. Má rekja það til þess að fleira starfsfólk hafði valið sér aðrar leiðir til vinnu en að fara á einkabíl eins og að ganga, hjóla eða taka strætó. Notkun á almenningsamgöngum hækkaði á milli ára, eða 1,2 tCO₂í á árnu 2024.