Markaðsmál
Starfsemi Hörpu er víðtæk og gegna markaðs- og kynningarmál lykilhlutverki í uppbyggingu vörumerkisins og ásýndar Hörpu á innlendum og erlendum vettvangi.
Hlutverk Hörpu er að vera vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf sem og hvers konar ráðstefnur, fundi og samkomur, innlendar og erlendar. Markaðs- og kynningarstarf hefur því margar hliðar og greining markhópa og rétt miðlun gríðarlega mikilvæg.
Velgengni í rekstri og starfsemi Hörpu hvílir m.a. á sterku og jákvæðu orðspori og velvild eigenda sem eru landsmenn allir. Harpa miðlar á lifandi hátt því sem fram fer í húsinu og gerir reglulegar mælingar á upplifun og viðhorfi gesta og almennings svo hægt sé að stuðla að góðri þjónustu við þá fjölbreyttu hópa sem sækja húsið heim.
Erlend markaðssókn
Harpa er mikilvæg forsenda þess að Reykjavík sé alþjóðlega samkeppnishæf sem ráðstefnuborg. Fjöldi ráðstefna sem haldnar voru í Hörpu var 55, ráðstefnudagar voru 114 talsins og áætlað er að rúmlega 20.000 gestir hafi sótt þessa viðburði. Í samstarfi við Meet in Reykjavík, ráðstefnuskrifstofu Íslands, heldur Harpa úti markaðsstarfi á lykilmörkuðum með það að markmiði að sækja alþjóðlega viðburði til Íslands. Alþjóðlegar ráðstefnur skapa ekki eingöngu efnahagsleg verðmæti fyrir Hörpu heldur samfélagið í heild.
Harpa vekur athygli
Harpa vekur athygli víða fyrir einstaka hönnun og arkitektúr og er einn af stærstu ferðamannaseglum höfuðborgarsvæðisins. Tónlistar- og ferðavefir, ferðabloggarar, tímarit og vefmiðlar erlendis fjalla reglulega um listaverkið Hörpu, arkitektúrinn og starfsemi hússins.
Lykiltölur
1.411
1,4 milljón
228 þúsund
157
Samfélagsmiðlar
Harpa nýtir samfélagsmiðla einna mest í markaðsstarfi sínu og er með mjög virkan fylgjendahóp sem sífellt fer stækkandi. Markaðsefni er sérsniðið og reynt að höfða til réttra markhópa hverju sinni.
Harpa nýtir einnig sína miðla til að styðja við markaðsstarf viðburðahaldara í húsi eftir fremsta megni. Það er gert með því að deila áfram efni viðburðahaldara á samfélagsmiðlum Hörpu. Harpa deilir einnig skemmtilegu efni frá gestum, innlendum sem erlendum, sem hafa merkt Hörpu á sínum miðlum.
Facebook mælingar 2024
155.700 (+ 112%)
978.300
83.500 (+104%)
17.300 (+49%)
Viðhorfs- og þekkingarkönnun Maskínu
Maskína framkvæmdi árlega viðhorfs- og þekkingarkönnun fyrir Hörpu haustið 2024 með það að markmiði að kanna viðhorf og þekkingu á Hörpu og starfsemi í húsinu. Framkvæmd var netkönnun meðal hóps af fólki dregnu af handahófi úr þjóðskrá. Svarendur voru alls 994 talsins, 18 ára og eldri og áttu að endurspegla þjóðina út frá aldri, búsetu og menntun.
Könnunin sýndi að á landsvísu höfðu 69% svarenda heimsótt Hörpu sl. 12 mánuði, um 68% voru mjög eða frekar jákvæð í garð Hörpu, 25,8% í meðallagi og aðeins um 6% neikvæð. Í heildina eru því rúmlega 90% með jákvætt viðhorf í garð Hörpu. Eftir því sem heimsóknum fjölgaði, þeim mun meiri var ánægjan og marktæk aukning varð á jákvæðni tekjulægsta hópsins. Sú þróun er í samræmi við þær stefnuáherslur að Harpa sé húsið okkar allra – og er t.a.m. fjölskyldudagskrá hússins aðgengileg óháð efnahag eða öðrum takmarkandi þáttum.
Maskína sept. 2024
Hörpusveitin
Hörpusveitin er vildarklúbbur Hörpu sem veitir meðlimum aðgengi að forsölu og sértilboðum á spennandi viðburði. Reglulega eru send út vönduð fréttabréf með upplýsingum um dagskrá og nýja viðburði í Hörpu auk þeirra fríðinda og kjara sem Hörpusveitinni stendur til boða hverju sinni. Það geta allir skráð sig í Hörpusveitina.
Alls voru 86 fréttabréf send út árið 2024 sem telur um 1,4 milljónir senda pósta. Opnunarhlutfall fréttabréfsins er mjög gott eða um 40% og smellihlutfallið er 1,1%. Þessi góðu viðbrögð sýna að fréttabréfið er ein öflugasta leiðin til að upplýsa Hörpusveitina um það helsta sem er á döfinni í Hörpu.