Framkvæmdastjórn
Harpa – húsið okkar allra
Skýrsla forstjóra á aðalfundi Hörpu ohf. um ársreikning og starfsemi 2024.
Í þessari skýrslu mun ég fara yfir framlagðan ársreikning samstæðu Hörpu ohf., greina frá helstu atriðum í starfseminni á síðasta ári og að lokum sýna aðeins inn í árs- og sjálfbærniskýrslu Hörpu þar sem fjölbreytni starfseminnar birtist vel og undirstrikar skuldbindingu okkar um sjálfbæra sköpun verðmæta fyrir samfélagið.
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri
Líkt og formaður fór yfir einkenndist árið 2024 í Hörpu af grósku á flestum sviðum og betri árangri í rekstri en við höfum áður náð. Kjarnastarfsemin var kraftmikil og fjölbreytt líkt og ég fer nánar yfir hér á eftir.
Ársreikningurinn inniber samstæðuna Hörpu ohf. þ.e. móðurfélagið Hörpu og dótturfélögin þrjú sem eru Greiðslumiðlunin Hringur ehf. sem er í 100% eigu Hörpu, Rekstrarfélagið Stæði slhf. sem sér um rekstur á bílastæðahúsi Hörpu og er 77,1% í eigu Hörpu á móti 22,9% hlutdeild Reykjavík Development ehf. en Eignasjóður Reykjavíkurborgar seldi bílastæði sín í Hörpukjallaranum á liðnu ári, og loks Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf. sem sér um skipulagningu viðburða á vegum hússins og er að fullu í eigu Hörpu.
Áritun endurskoðenda er fyrirvaralaus og staðfestir að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu samstæðunnar á árinu 2024, efnahag 31. desember og breytingu á handbæru fé á árinu í samræmi við lög og settar reikningsskilareglur.
Rekstrarreikningur samstæðu
Rekstrarhagnaður eða framlegð samstæðunnar fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 300,6 milljónir króna árið 2024, samanborið við 197,6 milljónir árið 2023. Jókst framlegðin því um rúmlega helming frá fyrra ári sem er afar ánægjuleg niðurstaða. Sambærileg framlegð af rekstrinum er algjör forsenda þess að Harpa geti fjármagnað áfram nauðsynlegt viðhald og endurnýjun á fasteign og búnaði.
Tekjur af starfseminni hækka um 11,8% á milli ára og námu 1.859 milljónum króna samanborið við 1.663 milljónir árið 2023.
Rekstrarframlög eigenda, íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar eru óbreytt á milli ára og námu 601 milljón. Rekstrartekjur með framlögum eigenda námu því samtals 2.491 milljón og hækkuðu um 8,6%.
Rekstrargjöld samstæðunnar námu alls 2.191 milljón og hækkuðu aðeins um 4,5% sem verður að teljast ásættanlegur árangur í ljósi verðbólgu og þess að kjarnastarfsemin var töluvert umfangsmeiri en árið áður. Nánari sundurliðun á kostnaðarhliðinni sýnir að húsnæðiskostnaður nam alls 814,5 milljónum króna og hækkaði um rúmlega 24 milljónir eða 3,1% á milli ára. Hlutur fasteignagjalda í húsnæðiskostnaði nam 333,8 milljónum króna og lækkaði um 3 milljónir á milli ára.
Laun og launatengd gjöld voru 728,9 milljónir, hækkuðu um tæpar 24 milljónir eða um 3,4%.
Á árinu 2024 voru 112 einstaklingar á launaskrá hjá samstæðunni og er það fjölgun um 7 frá árinu 2023. Stöðugildin voru nánast á pari - fækkaði um 0,4 og voru 51,4. Fastráðið starfsfólk í lok árs var 44 talsins og skiptist í 18 konur og 26 karla og starfsfólk í tímavinnu í 36 konur og 10 karla.
Jafnlaunakerfi Hörpu fékk árlega viðhaldsvottun og félagið fékk viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA fyrir árangur í jafnréttismálum sem er mikið áherslumál hjá okkur. Kynbundinn launamunur heildarlauna var mældur og reyndist hann vera 1,2% konum í vil. Munurinn hækkar lítillega á milli ára en er vel innan markmiða félagsins.
Annar rekstrarkostnaður nam 647,4 milljónum og hækkaði um 7,8%. Stærsti hluti annars rekstrarkostnaðar er aðkeypt þjónusta og annað vegna viðburðahalds eða 417 milljónir.
Tap að fjárhæð 13,8 milljónir króna varð af heildarstarfsemi samstæðunnar á árinu að teknu tilliti til tekjuskatts, afskrifta og fjármagnsliða samanborið við 65,4 milljón króna tap á árinu 2023.
Efnahagur
Fastafjármunir samstæðunnar - sem innibera einnig langtímafjáreign samkvæmt samningi við íslenska ríkið og Reykjavíkurborg frá 2013 - nema 33.7 milljörðum króna. Samstæðan eignfærir framlagið til mótvægis við langtímaskuld í formi skuldabréfs, sem gefið var út vegna byggingar Hörpu, en framlagið er beintengt þeirri skuld.
Fjárfestingar hafa aldrei verið meiri, en á árinu var varið rúmlega 300 milljónum króna í eignfært viðhald og endurnýjun á fasteign og búnaði. Endurnýjunar- og viðhaldsþörfin vex eðlilega með mikilli notkun og aldri hússins sem er að verða 14 ára. Rík áhersla er lögð á fyrirbyggjandi viðhald og vandaða forgangsröðun verkefna.
Veltufjármunir námu 2.299 milljónum og þar af hækkar handbært fé á milli ára og nam tæplega 1.402 milljónum. Vert er að geta þess að tæplega fjórðungur af handbæru fé er vegna miðasölu og fyrir fram innheimtra viðburðatekna í vörslu – en ekki í eigu Hörpu.
Með veltufjármunum nema eignir samstæðunnar samtals 36 milljörðum og er það hækkun upp á tæpar 394 milljónir króna.
Eigið fé samstæðunnar nam rúmlega 10.7 milljörðum í árslok 2024 og er eiginfjárhlutfallið 30%.
Langtímaskuldir samanstanda af tekjuskattsskuldbindingu og skuldabréfinu vegna endurfjármögnunar á stofnkostnaði sem áður var getið. Þær hækkuðu um 303 milljónir á milli ára og námu rúmum 23.7 milljörðum. Skammtímaskuldir námu rúmlega 1.5 milljarði og hækkuðu um rúmlega 104 milljónir. Stærstu liðirnir á bak við það er hækkun á ársafborgun af skuldabréfinu og hækkun á viðskiptaskuldum.
Heildarskuldir samstæðunnar hækkuðu þannig um 407 milljónir króna og námu í árslok 25.3 milljörðum. Eigið fé og skuldir námu samtals 36 milljörðum króna.
Skattspor samstæðunnar nam í heild 1.117 milljónum króna – þar af gjaldfærðir og innheimtir skattar hjá félaginu 666 milljónir sem skiptast í eftirfarandi hlutföllum – sveitarfélög 53,3% og ríkissjóður 46,7%.
Í skýrslu stjórnar kemur fram að allt frá árinu 2013 hafa íslenska ríkið og Reykjavíkurborg lagt Hörpu til rekstrarframlag og hefur það verið forsenda þess að rekstur samstæðunnar gangi. Framlög eigenda árið 2025 samkvæmt heimildum í fjárlögum og fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar munu tryggja rekstrarhæfi samstæðunnar út árið.
Líkt og formaður nefndi er nú í gangi vinna við langtímasamning um rekstur og starfsemi Hörpu sem mun veita félaginu og eigendum mikilvægan grundvöll fyrir langtímaáætlanir.
Að þessu sögðu læt ég lokið yfirferð minni um ársreikning samstæðunnar og vísa til ítarlegra skýringa og frekari sundurliðana í reikningnum.
Starfsemin
Á árinu 2024 fóru fram 1.411 viðburðir í Hörpu samanborið við 1.398 árið áður.
Fjöldi listviðburða jókst umtalsvert frá fyrra ári en þeir voru 879 talsins samanborið við 811 árið áður. Þar af hélt Sinfóníuhjómsveit Íslands 116 tónleika, opnar æfingar o.fl.. Íslenska óperan hélt einn viðburð – en starfsemi hennar lauk í Hörpu í september á sl. ári eftir 14 ára heimilisfesti. Tónleikar og listviðburðir á vegum annarra skipuleggjenda voru því alls 762 talsins, þar af var fjöldi leiksýninga af ýmsu tagi 131. Listviðburðum fjölgaði í heild um 11% á milli ára.
Ráðstefnutengdir viðburðir voru 502 talsins en það eru auk ráðstefna m.a. fundir, veislur og móttökur. Fjöldi slíkra viðburða árið áður var 560 og varð því fækkun á milli ára. Fjöldi viðburða hér segir þó ekki nema hálfa söguna því í þessum flokki telst allt frá litlum fundum til margra daga ráðstefna sem taka allt húsið yfir.
Á árinu voru haldnar 55 ráðstefnur, ráðstefnudagar voru 114 talsins og áætlað er að rúmlega 20.000 gestir hafi sótt þessa viðburði. Í samstarfi við Ráðstefnuborgina Reykjavík (Meet in Reykjavík) hjá Íslandsstofu heldur Harpa úti markaðsstarfi til að sækja verðmæta alþjóðlega viðburði til Íslands. Í árslok er bókunarstaða fyrir komandi misseri góð á þessu sviði.
Ár tónlistarinnar
Árið einkenndist af mörgum stórviðburðum á tónlistarsviðinu en þar á meðal má nefna þrenna afmælistónleika Víkings Heiðars Ólafssonar auk upphafs tónleikaferðar hans með heimspíanistanum Yuja Wang, fyrstu stórtónleika Laufeyjar Lin í Hörpu, viðburði á vegum Listahátíðar í Reykjavík, tónleika SigurRósar og þrenna ólíka tónleika sellóleikarans Yo-Yo Ma, sem kom fram í fyrsta sinn á Íslandi í boði Sinfóníuhljómsveitar Íslands og ráðstefnunnar Arctic Circle – og svo mætti lengi telja.
Á vegum Hörpustrengja má helst nefna tónleika Bamberg sinfóníuhljómsveitarinnar ásamt einleikaranum Hélène Grimaud undir stjórn eins eftirsóttasta stjórnandans um þessar mundir - Jakub Hrůša og vel sóttar fjölskyldusýningar fjöllistahópsins Kalabanté.
Aðrir viðburðir Hörpustrengja voru m.a. Upptakturinn - tónsköpunarverðlaun ungs fólks og Upprásin tónleikaröð fyrir grasrót og ungt tónlistarfólk sem er samstarfsverkefni með Tónlistarborginni Reykjavík, Rás 2 og Landsbankanum. Annað ár Upprásarinnar sýnir svo ekki verður um villst að hér hefur orðið til árangursríkur og eftirsóttur vettvangur í Hörpu.
Viðburðir á vegum Hörpu fyrir börn og fjölskyldur voru um 40 talsins auk Klassíska krakkadagsins sem haldinn var í fyrsta sinn og Menningarnætur þar sem um 50 fríir og aðgengilegir viðburðir stóðu börnum og fjölskyldum til boða. Heildarfjöldi viðburða sem tengjast barnamenningu var alls 263 og fjölgaði þeim um 92 á milli ára sem er afar ánægjuleg birtingarmynd dagskrárstefnu Hörpu.
Á árinu lauk þriggja ára sýningartíma innsetningarinnar Hringáttu en framkvæmdir hófust við að setja upp Volcano Express - nýja upplifunarsýningu, sem rekin er af þriðja aðila á grundvelli langtíma rekstrarleyfissamnings við Hörpu og höfðar jafnt til heimamanna og erlendra gesta. Við lögðum áherslu á að auka þjónustu og framboð á afþreyingu fyrir erlenda ferðamenn – m.a. með reglulegum hádegistónleikum í Eldborg, skipulögðum skoðunarferðum auk samstarfs um upplýsingamiðlun og bókunarþjónustu yfir hásumarið.
Alls voru 29 þúsund fleiri aðgöngumiðar afgreiddir í gegnum miðasölu Hörpu á árinu eða 228 þúsund samanborið við um 199 þúsund árið 2023. Heildarvelta miðasölu í Hörpu jókst um 455 milljónir króna og nam um 1.863 milljónum. Þetta er sérlega jákvætt merki um að tónlistargeirinn sé að ná sér á strik eftir nokkur erfið ár.
Arðbær fjárfesting
Tekjur af umfangsmiklu tónleikahaldi í Hörpu koma ekki nema að örlitlum hluta fram í ársreikningi félagsins því allur þorri miðasöluviðburða er haldinn af öðrum en Hörpu. Líkt og kemur fram í nýrri úttekt sem formaður vísaði til þar sem hagræn áhrif Hörpu eru metin, skapar starfsemin í húsinu atvinnu fyrir stóran og fjölbreyttan hóp. Má þar helst nefna lista- og tæknifólk, sérfræðinga og iðnaðarmenn, skipuleggjendur, starfsfólk í veitingaþjónustu og fjölmarga aðra sem gera svona fjölbreytt viðburðahald í stóru og flóknu húsi mögulegt.
Skýrslan um Hörpu áhrifin verður formlega gefin út í kjölfar þessa aðalfundar og það er mikið tilhlökkunarefni að fylgja henni eftir. Ég vil þakka sérstaklega Rannsóknarsetri skapandi greina og Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir samstarfið og þeim stjórnendum og starfsfólki Hörpu sem unnu hörðum höndum að því að finna til nauðsynleg gögn og tengja við lykilaðila í viðburðahaldinu.
Húsið okkar allra
Harpa gefur nú í þriðja sinn út árs- og sjálfbærniskýrslu samhliða ársreikningi. Í skýrslunni er að finna áhugaverðar upplýsingar um fjölbreytta starfsemi og sjálfbærniáherslur í umhverfismálum, félagsþáttum og stjórnarháttum (UFS) í samræmi við leiðbeiningar frá Nasdaq ESG Reporting Guide. Markmið grænna skrefa í opinberum rekstri, Svansvottun ráðstefnuaðstöðu Hörpu, leiðbeiningar um góða stjórnarhætti fyrirtækja, uppfærð stefna og valin sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna – eru í þessu efni traustur grundvöllur sem við byggjum á.
Við höfum skuldbundið okkur til að vera til fyrirmyndar í sjálfbærni – að skapa menningarleg, samfélagsleg og efnahagsleg verðmæti og fara vel með auðlindir og umhverfi. Árangurinn í umhverfismálum og að draga úr kolefnisfótspori Hörpu er sérstaklega eftirtektarverður eins og sést glöggt í ársskýrslunni. Þar er fyrir að þakka leiðtogum í starfsmannahópnum sem með breiðri þátttöku starfsfólks og samstarfsaðila, styðja dyggilega við markmiðin í stefnu Hörpu.
Lokið var við uppfærslu á stefnu Hörpu til næstu fimm ára – eða til ársins 2030. Í þeirri mikilvægu vinnu felst skýr markmiðasetning, mælikvarðar og aðgerðaáætlun, sem munu varða veginn í átt að áframhaldandi góðum árangri á öllum sviðum. Stefnan var mótuð með þátttöku stjórnar og starfsfólks – og annarra helstu haghafa eða vel á annað hundrað manns.
Framtíðarsýnin er óbreytt – Harpa ávallt á heimsmælikvarða sem undirstrikar hlutverk hússins í alþjóðlegri samkeppni og markmið um að stækka sífellt möguleikana fyrir menningu, atvinnulíf og samfélag. Stefnumarkandi áherslur okkar næstu fimm árin eru skapandi samfélag, táknmynd gæða, mannbætandi upplifun og húsið okkar allra.
Með Hörpu í liði
Velgengni í rekstri og starfsemi Hörpu hvílir m.a. á sterku og jákvæðu orðspori. Harpa leggur metnað í að miðla á lifandi hátt því sem fram fer í húsinu, mæla reglulega upplifun og viðhorf gesta og landsmanna allra og stuðla að sem bestri þjónustu við þá fjölbreyttu hópa sem sækja húsið heim.
Á árinu sýndi könnun Maskínu á landsvísu að 69% höfðu heimsótt Hörpu sl. 12 mánuði, um 68% voru mjög eða frekar jákvæð í garð Hörpu, 25,8% í meðallagi og aðeins um 6% neikvæð. Í heildina eru rúmlega 90% aðspurðra með jákvæð viðhorf. Eftir því sem heimsóknum fjölgar þeim mun meiri var ánægjan og marktæk aukning varð á jákvæðni tekjulægsta hópsins. Sú þróun er í samræmi við þær stefnuáherslur okkar að Harpa sé húsið okkar allra – og t.a.m. fjölskyldudagskráin aðgengileg óháð efnahag eða öðrum takmarkandi þáttum.
Harpa leggur áherslu á að vera eftirsóttur vinnustaður fyrir þau sem vilja starfa í faglegu og skapandi umhverfi. Við fjárfestum í uppbyggilegri og jákvæðri vinnustaðamenningu því öryggi, vellíðan og helgun starfsfólks helst órjúfanlega í hendur við farsælan rekstur.
Við spyrjum reglulega um líðan og viðhorf okkar fólks og fékk Harpa góða niðurstöðu í könnuninni VR fyrirtæki ársins 2024. Heildareinkunnin var 4,43 þar sem ánægja og stolt starfsfólks, viðhorf til stjórnunar og mat á gæðum starfsanda voru þeir þrír þættir sem skoruðu hæst og marktækt hærra en hjá öðrum fyrirtækjum sem tóku þátt í könnuninni.
Dagarnir í Hörpu geta óneitanlega verið erilsamir og umfangsmiklu viðburðahaldi í stóru húsi fylgja óhjákvæmilega miklar kröfur til starfsfólks og annarra sem koma að því að láta allt ganga eins og smurða vél. Við þurfum því að passa vel upp á fólkið okkar og vinna stöðugt að því sameiginlega verkefni að gera Hörpu að enn betri vinnustað.
Ég þakka þessum einstaka hópi fyrir helgunina og metnaðinn sem hefur allt að segja varðandi árangur okkar á síðasta ári – og ekki síður hvernig við nýtum öll mögnuðu tækifærin sem fram undan eru. Sömuleiðis færi ég stjórn og eigendum þakkir okkar starfsfólks Hörpu fyrir ómetanlega hvatningu og stuðning.
31. mars 2025.
Svanhildur Konráðsdóttir
Forstjóri Hörpu
Andri Guðmundsson hefur verið tæknistjóri Hörpu tónlistar og ráðstefnuhúss frá vordögum 2019. Hann hefur unnið hjá Hörpu frá 2014 með hléum. Andri hefur allt tíð starfað í viðburða- og tæknibransanum, um tíma í Bretlandi meðal annars fyrir London Fashion Week, Microsoft og Chelsea Football Club.
Ásta Ólafsdóttir hefur verið framkvæmdastjóri viðskipta og markaðssviðs Hörpu frá janúar 2022. Ásta er með BA próf í íslensku og fjölmiðlafræði og diploma í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Háskóla Íslands. Ásta hefur starfað við ferðaþjónustu mestan hluta starfsferilsins með áherslu á kynningu og markaðssetningu á Íslandi og Grænlandi sem áfangastaðar til betur borgandi gesta þar sem rík áhersla var á vöruþróun, uppbyggingu vörumerkja, markaðsmál og þjónustuupplifunar gesta.
Berglind Ólafsdóttir hefur starfað í Hörpu frá vordögum 2018. Berglind er viðskipta- og rekstrarfræðingur með áherslu á markaðs- og mannauðsmál, en stundaði einnig meistaranám með áherslu á fjármál og stjórnun fyrirtækja. Hún hefur víðtæka stjórnunarreynslu og hefur allan sinn starfsferill starfað við stjórnun rekstrar-, fjármála og mannauðsmála. Berglind var framkvæmdastjóri Borgarleikhússins áður en hún kom til starfa í Hörpu en starfaði í 15 ár áður hjá Reykjavíkurborg þangað sem hún kom úr einkageiranum.
Elín er með víðtæka reynslu á sviði mannauðs- og gæðamála, þar af um 17 ár sem stjórnandi. Elín starfaði lengst af hjá Eimskip, síðast sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs, en kemur til Hörpu frá Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði þar sem hún var framkvæmdastjóri mannauðsmála síðastliðin tvö ár. Elín hefur unnið að stefnumótun til lengri og skemmri tíma og leitt áfram þróun og breytingar á sviði ráðningamála, fræðslustarfs, kjaramála, vinnustaðarmenningar, stjórnendaráðgjafar, mannauðsmælinga o.fl.
Jón Gretar Jónsson hefur verð framkvæmdastjóri fasteigna- og umhverfissviðs Hörpu frá miðju ári 2021. Jón Gretar starfaði sem framkvæmdastjóri rekstar- og útleigusviðs hjá Landfestum hf. Við samruna Landfesta og Eikar fasteignafélags tók hann við starfi framkvæmdastjóra rekstarsviðs og frá árinu 2019-2021 sinnti hann starfi framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Eik.
Svanhildur Konráðsdóttir hefur verið forstjóri Hörpu frá vordögum 2017. Hún starfaði við blaðamennsku og ritstjórn uns leiðin lá til Bretlands í háskólanám í samskipta- og ímyndarfræðum með áherslu á stjórnmál og menningu. Svanhildur starfaði hjá Sjónvarpinu við þáttinn Dagsljós en síðan að menningar-, markaðs- og ferðamálum, lengst af sem sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs hjá Reykjavíkurborg.
Skipurit
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús