Stjórn Hörpu skipar á fyrsta fundi sínum að loknum aðalfundi ár hvert þrjá einstaklinga í endurskoðunarnefnd. Í nefndinni sitja nú einn aðili óháður félaginu og tveir fulltrúar stjórnar. Aðalhlutverk endurskoðunarnefndar er mat á eftirlitsumhverfi félagsins, greining á virkni innri endurskoðunar, eftirlit með framkvæmd endurskoðunar, gerð tillögu um val á ytri endurskoðanda í samráði við Ríkisendurskoðun skv. 7. gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreiknings, ásamt mati á óhæði endurskoðanda, mat á virkni áhættustefnu, áhættuvilja og áhættustýringu og tryggja fylgni við gildandi lög og reglur. Meðal annarra verkefna nefndarinnar er að yfirfara fjárhagsupplýsingar og fyrirkomulag upplýsingagjafar frá stjórnendum og ytri endurskoðendum og að staðreyna að upplýsingar sem stjórnin fær um rekstur, stöðu og framtíðarhorfur félagsins séu áreiðanlegar og gefi sem gleggsta mynd af stöðu félagsins á hverjum tíma. Í nefndinni sitja Hjörleifur Pálsson formaður, Árni Geir Pálsson og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir.
Dagskrárráð Hörpu fundaði þrisvar sinnum á árinu til þess að fjalla um erindi sem bárust eða hugmyndir sem komu fram á vettvangi ráðsins. Samtals voru til umfjöllunar um 65 verkefni sem fengu faglega umfjöllun hjá dagskrárráði sem skipað var Guðna Tómassyni formanni, Ásmundi Jónssyni, Elísabetu Indru Ragnarsdóttur og Sóleyju Stefánsdóttur. Ráðið er skipað af stjórn Hörpu til tveggja ára í senn og starfaði með Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur þáverandi verkefnastjóra dagskrárgerðar og Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu. Dagskrárráðið hefur ráðgefandi hlutverk um val á þeim verkefnum sem Hörpustrengir framleiða. Nýtt ráð var skipað í lok árs og urðu þær breytingar að Ásmundur Jónsson tók við formennsku af Guðna Tómassyni og Unnsteinn Manúel Stefánsson gekk nýr til liðs við ráðið. Til viðbótar við eigin dagskrárgerð og miðasöluviðburði á heimssviðinu, tók Harpa þátt í ýmsum samfélagsverkefnum á árinu. Þeirra á meðal má nefna Klassíska krakkadaginn í samstarfi við fjölmarga tónlistarskóla og Sinfóníuhljómsveit Íslands og tónleika Korda Samfónía, sem er óhefðbundnasta hljómsveit landsins. Þar koma saman um 35 einstaklingar á aldrinum 20-70+ ára á ólíkum stöðum í lífinu og með ólíkar sögur að baki með það að markmiði að vinna saman að sköpun nýrrar tónlistar.