Stjórn Hörpu
Að fjárfesta í sjálfbærri verðmætasköpun
Starfsemi Hörpu var með miklum blóma á síðasta starfsári. Blóma hvað varðar ótrúlega grósku og dagskrá menningarviðburða, aðsókn og heimsóknir, ráðstefnuhald og fundi og síðast en ekki síst var rekstrarniðurstaðan góð.
Tvær breytur grundvalla þennan góða árangur. Annars vegar er það skilningur, framsýni og hugrekki stjórnvalda og samfélagsins til að fjárfesta í Hörpu og standa með starfseminni þar. Hitt er svo einstakur hópur starfsfólks og stjórnenda í Hörpu, fólkið sem vinnur að því hörðum höndum alla daga að rækja hlutverk Hörpu og vinna þannig að verðmætasköpun í þágu samfélagsins alls.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, stjórnarformaður
Sjálfbærni er orðin órjúfanlegur hluti af rekstrarlíkani Hörpu og árangur síðasta árs ber þess glöggt vitni hvað varðar allar þrjár stoðir sjálfbærninnar.
Árangur í félagslegri sjálfbærni birtist hvað best í auknum fjölda og aukinni þátttöku í opnum viðburðum og viðhorfs almennings til Hörpu. Birtingamynd þessa er sömuleiðis í fjölda samstarfsverkefna og leiða sem ólíkir hópar hafa til þátttöku í viðburðarhaldi í Hörpu. Allir hópar samfélagsins eiga þangað erindi og geta notið góðra stunda í Hörpu óháð efnahag.
Markvisst er unnið að framþróun í umhverfismálum í Hörpu, allar ákvarðanir eru teknarmeð hliðsjón af þessum þætti og stöðugt er leitað leiða til að gera enn betur í tengslum við viðburðahald og aðra þætti starfseminnar.
Hvað varðar efnahagslega sjálfbærni þá staðfesta niðurstöður greiningar á hagrænum áhrifum að rekstur Hörpu er sannarlega efnahagslega sjálfbær þar sem áætlað er að árleg verðmætasköpun, eða virðisauki, sé í kringum 10 milljarðar króna á ári hverju og heildarskatttekjur séu 9 milljarðar, sem er rúmlega 15 sinnum hærra en hið sérstaka rekstrarframlag sem eigendur leggja til Hörpu. Einnig kemur fram að um 650 störf megi rekja með beinum og óbeinum og afleiddum hætti til starfseminnar í Hörpu.
Verðmætasköpun er hornsteinn hvers samfélags og stendur undir hagvexti og lífsgæðum. Verðmætasköpunina má hins vegar ekki meta eingöngu í efnahagslegu tilliti þó okkur sé það tamast. Verðmætin felast ekki síður í samfélagslegum og menningarlegum áhrifum.
Menningarstarfsemin sjálf og viðburðarhald ýmiskonar stuðlar sannarlega að atvinnusköpun. Listamenn, hönnuðir, sýningarstjórar, kvikmyndagerðarfólk og margir aðrir skapa störf og tækifæri í kringum menningartengda starfsemi. Menningartengd ferðaþjónusta, tónlistarviðburðir, sýningar og hátíðir laða að fólk og virkja samfélagið á skapandi hátt. Þar með skapar menning verðmæti bæði á félagslegum og efnahagslegum forsendum.Svo eru það ráðstefnur, fundir og hvataferðir þar sem oftar en ekki skapast vettvangur þekkingarmiðlunar, skoðanaskipta og viðskiptatengsla með tilheyrandi verðmætasköpun.
Við vitum að þegar samfélag fjárfestir í menningu er það í raun að auka lífsgæði, styrkja samkennd og efla getu okkar til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.Harpa er góður „bissness“ í öllu tilliti. Hún er samfélagslega verðmæt og það er sannarlega ástæða til að gleðjast yfir árangrinum sem hefur náðst í starfseminni, árangri í verðmætasköpun hvers konar og rekstri. Harpa mun halda áfram að vaxa og þroskast, anda með samfélaginu og skapa verðmæti. Við höldum góðri vegferð áfram, minnug þess að Harpa lætur drauma rætast.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir
stjórnarformaður Hörpu
Eigendastefna
Harpa starfar í samræmi við sértæka eigendastefnu sem tók gildi árið 2012. Að auki gilda almennar eigendastefnur íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2022 en þeim er ætlað að tryggja gegnsæja, faglega og skilvirka stjórnun félagsins. Í þeim eru m.a. ákvæði um stjórnarhætti og stjórnsýslu, ábyrgðarskil, samskipti og upplýsingagjöf til eigenda. Eigendanefnd Hörpu er skipuð sex fulltrúum, þremur frá hvorum eiganda og er meginhlutverk hennar að samræma sjónarmið eigenda í málefnum félagsins.
Stjórnarhættir
Stjórn Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss leitast við að viðhalda góðum stjórnarháttum og fylgir eftir „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út árið 2021. Stjórn Hörpu hefur sett sér starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og verksvið gagnvart forstjóra. Í starfsreglum stjórnar er meðal annars að finna reglur um fundarsköp, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf forstjóra gagnvart stjórn og fleira. Reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu félagsins ásamt siðareglum stjórnar og starfsfólks. Stjórn hefur jafnframt sett starfskjarastefnu sem birt er á heimasíðu félagsins. Stjórn samstæðunnar ákveður starfskjör forstjóra. Fundir stjórnar á árinu voru 11 talsins.
Tengt efni
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir
Stjórnarformaður
Ráðgjafi
Árni Geir Pálsson
Varaformaður
Ráðgjafi
Gunnar Sturluson
Meðstjórnandi
Hæstaréttarlögmaður
Hrönn Greipsdóttir
Meðstjórnandi
Framkvæmdastjóri
Jón Sigurgeirsson
Meðstjórnandi
Efnahagsráðgjafi
Varamenn
Varamenn í stjórn Hörpu eru Emelía Ottesen og María Rut Reynisdóttir.
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús
Greiðslumiðlunin Hringur ehf.
Meginstarfsemi og tilgangur félagsins
Greiðslumiðlunin Hringur ehf. er hluti af samstæðu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. (Harpa) og hefur þann tilgang að gefa út skuldabréfaflokk vegna byggingar tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu við Austurhöfn í Reykjavík og annast mánaðarlegar afborganir af útgefnum skuldabréfum í samræmi við ákvæði samnings um rekstur og starfsemi Hörpu.
Framlag íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar vegna byggingar og fjármögnunar Hörpu gengur til greiðslu á lántöku og er veðsett á móti skuldum félagsins. Framlagið byggir á samningi um rekstur og starfsemi Hörpu þar sem íslenska ríkið og Reykjavíkurborg skuldbinda sig til að greiða mánaðarlega framlag í 35 ár til Hörpu. Upphafsgreiðsla var í mars 2011 og greiðslu lýkur árið 2046.
Rekstrarfélagið Stæði slhf.
Meginstarfsemi og tilgangur félagsins
Tilgangur félagsins er að annast rekstur bílastæðahúss Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss við Austurhöfnina í Reykjavík. Félagið er samlagshlutafélag og ósjálfstæður skattaðili. Skattskyldur hagnaður er skattlagður hjá félagsaðilum á grundvelli hlutafjáreignar. Móðurfélag félagsins er Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. (Harpa). Breytingar urðu á eignaraðild félagsins í byrjun desember 2024 þegar Reykjavík Developement ehf. eignaðist 22,94% hlut Reykjavíkurborgar, en Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf er áfram eigandi 77,06%.
Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf.
Meginstarfsemi og tilgangur félagsins
Rekstrarfélagið Hörpustrengir ehf. stendur fyrir menningarviðburðum í Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Starfsemi félagsins á því sviði lýtur að tónlistar- og menningarviðburðum sem hvorki teljast í samkeppni við aðra afþreyingarmarkaði né fasta notendur Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf.
Dótturfélög Hörpu