Íbúar Hörpu
Markmið ríkis og Reykjavíkurborgar með byggingu og rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu er að efla íslenskt tónlistar- og menningarlíf. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Stórsveit Reykjavíkur hafa fast aðsetur í Hörpu fyrir starfsemi sína.
Sinfóníuhljómsveit Íslands lék á yfir hundrað fjölbreyttum tónleikum á árinu 2024 fyrir um 80.000 gesti í Hörpu. Meðal hápunkta ársins má nefna hinn heimsþekkta sellóleikara Yo-Yo Ma sem lék sellókonsert Elgars með hljómsveitinni ásamt dúó-tónleikum með píanóleikaranum Kathryn Stott. Barbara Hannigan stjórnaði og söng í konsertuppfærslu af óperueinleiknum Mannsröddinni eftir Francis Poulenc. Á Listahátíð í Reykjavík frumflutti hljómsveitin rýmisverkið METAXIS eftir Önnu Þorvaldsdóttur undir stjórn Evu Ollikainen. Barítónsöngvarinn Ólafur Kjartan Sigurðarson staðarlistamaður sveitarinnar kom fram í glæsilegri Wagner-veislu. Fjölmargir einleikarar komueinnig fram með hljómsveitinni. Auk þess hélt hljómsveitin tónleika með Unu Torfadóttur, Baggalúti, Páli Óskari og hlaðvarpsfélögunum í Fílalag. Boðið var upp á bíóupplifun með lifandi undirleik við Harry Potter 3 og Home Alone. Líkt og fyrri ár voru skólatónleikar og samfélagsverkefni fyrirferðamiklil í starfi sveitarinnar ásamt Barnastundum og tónleikaröðinni Litla tónsprotanum fyrir yngstu áheyrendurna.
Þau tímamót urðu á árinu að Íslenska óperan lauk starfsemi sinni í Hörpu eftir að hafa verið með fast aðsetur og fjölbreytta starfsemi frá opnun hússins. Breytt áform stjórnvalda um umgjörð óperustarfsemi á Íslandi liggja þar til grundvallar en í undirbúningi er að stofna nýja óperu sem eigi áfram meginaðsetur sitt í Hörpu.
Stórsveit Reykjavíkur heldur úti reglulegum tónleikum á hverjum vetri. Starfsemi þeirra blómstrar í Hörpu og sómir Stórsveitin sér vel á glæsilegum og stjörnum prýddum tónleikum í Eldborg sem og í minni sölum hússins. Á árinu hélt Stórsveitin fjölbreytta tónleika; árlega nýárstónleika, fjölskylduball með Sveiflustöðinni á Menningarnótt, 60 ára afmælistónleika Sigurðar Flosasonar og 100 ára afmælistónleikar Henry Manchini og stórsveitamaraþon þar sem öllum stórsveitum landsins, ungum sem öldnum, nemendum sem atvinnumönnum, er boðin þátttaka.
Maxímús Músíkús á föst heimkynni í Hörpu og á þátt í að skipuleggja skemmtilega viðburði fyrir smáfólk allt árið um kring. Hann er reglulegur gestur á barna- og fjölskylduviðburðum Hörpu og barnatónleikum Sinfóníunnar. Maxímús fer reglulega í skoðunarferðir og heldur sögustund fyrir börn á hinum ýmsu tungumálum, s.s. íslensku táknmáli, íslensku, ensku, spænsku, pólsku og arabísku.