Fjöl­skyldu­dag­skrá

Í stefnu Hörpu er lögð rík áhersla á barnamenningu og fjölskylduvæna viðburði og er það mikilvægur hluti af því að sinna sem best menningarlegu og samfélagslegu hlutverki hússins. Mikið er lagt upp úr vandaðri, gjaldfrjálsri fjölskyldudagskrá sem er aðgengileg öllum óháð fjárhag, uppruna, tungumáli eða búsetu.

Viðburðir á vegum Hörpu sniðnir fyrir börn og fjölskyldur voru um 40 talsins auk Klassíska krakkadagsins – samstarfsverkefni með tónlistarskólum og Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem haldinn var í fyrsta sinn og Menningarnætur þar sem um 50 fríir og aðgengilegir viðburðir stóðu börnum og fjölskyldum til boða. Harpa bauð einnig leikskólabörnum í heimsókn á aðventunni líkt og fyrri ár og þáðu 20 leikskólar af höfuðborgarsvæðinu boðið. Heildarfjöldi viðburða sem tengjast barnamenningu voru alls 263 á árinu og fjölgaði þeim um 92 á milli ára. Sérstök ástæða er að geta þess hve vel Sinfóníuhljómsveit Íslands sinnir barnamenningu, en hljómsveitin hefur um árabil haldið úti metnaðarfullri tónleika- og fræðsludagskrá fyrir börn s.s. með Litla Tónsprotanum, barnastundum, opnum æfingum og skólaheimsóknum.

Samstarf

Tilteknir barnamenningarviðburðir voru unnir í samstarfi við hin ýmsu hagsmunasamtök og einstaklinga svo sem Blindrafélagið, Félag heyrnarlausra, List án landamæra, Rauða krossinn og R.E.C Arts Reykjavík.

Harpa tók þátt í tónlistarhátíðinni Myrkir músíkdagar og bauð börnum og fjölskyldum upp á hljóðbað þar sem gestir gátu baðað sig í tónlist og leikið sér með hljóð og tóna. Húsið skipuleggur einnig barnaviðburði í tengslum við barnatónlistarhátíðina Big Bang sem haldin er árlega í Hörpu á vegum Reykjavíkurborgar. Í byrjun sumars tók Harpa þátt í Listahátíð í Reykjavík og bauð upp á fjölskylduviðburðinn DAKANA þar sem kenndir voru pólskir og úkraínskir leikir.

Leiðbeinendur

Leiðbeinendur í fjölskyldudagskrá Hörpu hafa aldrei verið jafn margir, eða með jafn fjölbreyttan bakgrunn og styrkleika. Það er mikilvægt fyrir börn að kynnast ólíkum fyrirmyndum og er Harpa afar stolt af þessum hópi.

Fjölmenning

Harpa vill ná sem best til allra barna og sýna í verki að þau séu hjartanlega velkomin í Hörpu - geti notið menningar og lista, uppgötvað eða skapað sjálf. Hugað er að fjölbreytni í barnaviðburðum og á árinu voru haldnar sögustundir og skoðunarferðir með Maxímús á sex tungumálum; íslensku, ensku, spænsku, arabísku, pólsku og íslensku táknmáli. Í tilefni af komu Kalabanté fjöllistahópsins var haldin afrísk trommu- og danssmiðja þar sem ungmennum og öðrum áhugasömum var boðið í stórskemmtilegt ferðalag með Kalabanté þar sem tónlist, dans og hljóðfæri frá Vestur-Afríku voru kynnt.

Myndasafn - Fjölskylduviðburðir 2024

Hljóð­himnar barna­rými

Hljóðhimnar er tónlistartengt upplifunar- og uppgötvunarrými fyrir börn á jarðhæð hússins sem er afar vinsælt. Í Hljóðhimnum er hægt að setja sig í stellingar hljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hjúfra sig upp að vögguvísum og sönglögum Íslensku Óperunnar, kíkja inn í músaholur eins og Maxímús Músíkús, sigla um tónlistarinnar höf með Tónstýri Stórsveitar Reykjavíkur og margt fleira. Hljóðhimnar eru opnir á sama tíma og húsið og aðgangur frír.

a hallway with a lot of colorful objects on the floor and ceiling .