Viðburðir á heimsmælikvarða
Árið 2024 var eitt af viðburðaríkustu árum í sögu Hörpu með yfir 1.400 viðburðum, innlendum sem erlendum og af öllum stærðum og gerðum. Met var slegið frá opnun hússins í fjölda tónleika og annarra listviðburða og voru þeir alls 879 talsins eða um 63% af heildarfjölda viðburða.
Árið var stjörnum prýtt og steig fjöldi framúrskarandi tónlistarfólks á sviðið í Eldborg. Þeirra á meðal voru Víkingur Heiðar Ólafsson, Yuja Wang, Yo-Yo Ma, Laufey Lin, Nick Cave, Sigur Rós, Paolo Nutini, Anoushka Shankar, Lise Davidsen og Brad Paisley.
Harpa er sem fyrr heimavöllur íslenskrar tónlistar og endurspeglast það í fjölda fjölbreyttra og einstaklega vel sóttra tónleika alls helsta tónlistarfólks landsins á klassíska sviðinu, í poppi, rokki og annarri hryntónlist, jólatónlist, jazzi og stórsveitarsveiflu, kórsöng, samtímatónlist og tilraunamennsku. Met var slegið í fjölda tónleika og sölu miða á jólatónleika á árinu.
Árið var stjörnum prýtt í tónleikahaldi og steig heimsfrægt tónlistarfólk á sviðið í Eldborg og í Hörpu. Þar á meðal voru Víkingur Heiðar, Yuja Wang, Yo-Yo Ma ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, Laufey Lin, Nick Cave, Sigur Rós, Yung Lean, Paolo Nutini, Anoushka Shankar og Brad Paisley. Dagskráin var einnig prýdd gríðarlega mörgum og fjölbreyttum innlendum tónlistarviðburðum. Jólatónleikahald var með því umfangsmesta í sögu Hörpu, þar sem Vitringarnir 3 héldu 18 tónleika í Silfurbergi. Að venju skipaði klassíska senan einnig sinn sess , auk fjölda kóra og lúðrasveita sem juku enn á fjölbreytileika dagskrárársins.
Víkingur Heiðar Ólafsson og Yuja Wang
Alls voru haldnir 502 viðburðir á sviði ráðstefnuhalds, funda, veisla, sýninga og annara tengdra viðburða á árinu. Fjöldi ráðstefna sem haldnar voru í Hörpu var 55, ráðstefnudagar voru 114 talsins og áætlað er að rúmlega 20.000 gestir hafi sótt þessa viðburði. Má þar nefna alþjóðlegar ráðstefnur á borð við hið árlega heimsþing Arctic Circle - Hringborð Norðurslóða og Heimsþing kvenleiðtoga - Reykjavík Global Forum á vegum samtakanna Women Political Leaders. Harpa er mikilvæg forsenda þess að Reykjavík sé alþjóðlega samkeppnishæf sem ráðstefnuborg og heldur Harpa í samstarfi við Meet in Reykjavík, ráðstefnuskrifstofu Íslands, úti markaðsstarfi á lykilmörkuðum með það að markmiði að kynna Hörpu og Reykjavík sem tilvalinn fundarstað mitt á milli Evrópu og Bandaríkjanna.
Haustráðstefna Advania
Harpa er eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og margverðlaunað listaverk. Mikill fjöldi ferðamanna leggur leið sína í Hörpu og voru 157 listviðburðir haldnir fyrir ferðamenn á árinu. Endurvaktir voru hádegistónleikar í Eldborg yfir sumarið, Midday Music, en þar fengu áheyrendur það einstaka tækifæri að sitja á sviði Eldborgar og njóta tónlistarflutnings með hinn fallega sal í bakgrunni. Harpa býður einnig upp á skoðunarferðir með leiðsögn um húsið þar sem farið er yfir sögu Hörpu, hönnun, byggingu og starfsemi hússins. Sýningin How to Become Icelandic in 60 Minutes hélt sína þúsundustu sýningu um sumarið og hefur verið starfrækt við góðar undirtektir ferðamanna sem og heimamanna frá því í maí 2012.
Hátíðir eiga sér fastan sess í Hörpu og hófst árið sem fyrr með Myrkum músíkdögum þar sem áherslan er að flytja og kynna klassíska samtímatónlist með áherslu á nýja íslenska tónlist og flytjendur. Músíktilraunir, tónlistarhátíð ungmenna á aldrinum 13-25 ára, fór fram í Norðurljósum. Barnamenningarhátíð og Big Bang fóru fram víðs vegar um húsið við góðar undirtektir yngstu gesta Hörpu. Um sumarið var Listahátíð í Reykjavík með stórkostlegt opnunaratriði, Metaxis, ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, auk alþjóðlegra viðburða. Tónlistarhátíðin Seigla bauð upp á fjölbreytta viðburði þar sem hefðbundið tónlistarform er brotið upp. Árlega á Menningarnótt tjaldar Harpa öllu til og heldur hátíð fyrir landsmenn með fjölbreyttum viðburðum við allra hæfi. Jazzhátíð Reykjavíkur var haldin í lok sumars en hún er vettvangur alls þess helsta sem gerist á sviði innlendrar jazztónlistar.
Menningarnótt
Tónleikaröðin Sígildir sunnudagar hefur verið haldin um árabil í Hörpu og voru 25 tónleikar haldnir á árinu. Áherslan er á klassíska tónlist og að gestir geti sótt fyrsta flokks kammertónleika reglulega yfir veturinn. Upprásin var haldin í annað skiptið og voru haldin 10 tónleikakvöld með þremur tónlistaratriðum hvert kvöld. Tónleikaröðin er tileinkuð grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur. Velkomin heim tónleikaserían er haldin árlega í júlí en þar gefst ungu tónlistarfólki, sem er nýkomið heim úr námi, tækifæri til að koma fram og kynna sig. Alls voru fernir tónleikar haldnir í Hörpuhorni í röðinni um sumarið.
Upprásin í Kaldalóni
Í samstæðunni er rekstrarfélagið Hörpustrengir sem hefur þann tilgang að standa fyrir völdum viðburðum í Hörpu sem marka spor í íslenskt tónlistar- og menningarlíf og myndu ekki verða að veruleika án aðkomu félagsins. Á árinu stóðu Hörpustrengir fyrir komu Bamberg sinfóníunnar ásamt Hélène Grimaud undir stjórn Jakub Hrůša og fjöllistahópsins Circus Kalabanté, glæsilegri hátíðardagskrá á Menningarnótt, fjölda barnaviðburða og Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna.
Circus Kalabanté í Eldborg