3. október 2024

Hagrænt fótspor Hörpu greint í fyrsta sinn

Harpa hefur samið við Rannsóknarsetur skapandi greina um greiningu á hagrænum áhrifum Hörpu.

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús hefur samið við Rannsóknarsetur skapandi greina um greiningu á hagrænum áhrifum Hörpu. Áhrifin verða skoðuð út frá menningar- og ráðstefnustarfsemi Hörpu, rekstri og útleigu fasteignarinnar og þeirri þjónustu sem veitt er af þriðja aðila í húsnæðinu.

Lagt verður mat á beint, óbeint og afleitt framlag þessarar starfsemi til hagkerfisins og hins opinbera. Í undirbúningi fyrir rannsóknina verður litið til erlendra fyrirmynda að sambærilegum úttektum á hagrænum áhrifum annarra tónlistar- og/eða ráðstefnuhúsa víða um heim. Leitað verður til ýmissa samstarfs- og hagaðila Hörpu við gagnaöflun og greiningarvinnu, svo sem Meet in Reykjavík, Tónlistarmiðstöðvar og stærri viðburðahaldara.

,,Kortlagning á hagrænu fótspori Hörpu er nokkuð sem okkur hefur lengi þótt bæði áhugavert og mikilvægt að gera. Harpa er í opinberri eigu og nýtur stuðnings ríkis og borgar til að reka og halda við þessu listaverki sem húsið er og sinna mikilvægu menningar- og samfélagshlutverki. Það er því ekki síst gagnlegt fyrir eigendur að sjá hvaða víðtækari hagræn áhrif starfsemin hefur en birtist bara í ársreikningum félagsins. Það er svo sérstakt tilhlökkunarefni að vinna þessa greiningu með Rannsóknarsetri skapandi greina og eiga þannig þátt í að byggja upp þá mikilvægu starfsemi fyrir geirann,” segir Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu.

Rannsóknarsetur skapandi greina (RSG) var stofnað árið 2023 með það að markmiði að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina. Setrið sinnir bæði fræðilegum rannsóknum og þjónustuverkefnum, auk þess að halda málþing og efla nýliðun og samtal innan fræðasamfélagsins og milli þess og annarra hagaðila og notenda. Setrið hefur undanfarið ár komið að þremur smærri þjónustuverkefnum, haldið tvö málþing, mótað rannsóknastefnu og sótt í innlenda rannsóknasjóði. Hagræn áhrif Hörpu er fyrsta þjónusturannsóknin sem er alfarið í höndum RSG og markar því ákveðin tímamót í uppbyggingu setursins.

,,Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og niðurstöðurnar munu varpa ljósi á víðfeðma starfsemi stærsta viðburðahúss landsins og áhrif hennar á samfélag og hagkerfi. Við hlökkum til að vinna með Hörpu og öðrum hagaðilum að rannsókninni og fögnum þessum tímamótum í uppbyggingu RSG,” segir Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona rannsóknarsetursins.

Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar verði kynntar fljótlega á nýju ári.

Fréttir