20. febrúar 2025

Sigrún Harð­ar­dóttir tekur við

sem verkefnastjóri barnamenningar í Hörpu

Sigrún Harðardóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri barnamenningar í Hörpu. Sigrún hefur víðtæka reynslu á sviði tónlistar, listsköpunar og verkefnastjórnunar og hefur unnið að fjölda metnaðarfullra verkefna fyrir unga áhorfendur, jafnt á sviði sem í útvarpi og sjónvarpi.

Sigrún lauk B.Mus gráðu í fiðluleik frá Listaháskóla Íslands og M.Mus í fiðluleik frá University of Denver, en þar stundaði hún einnig Suzuki-kennaranám. Sem fiðluleikari hefur hún starfað m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kammerhópnum Cauda Collective og ýmsum tónlistarmönnum á borð við Mugison, Björk og Ólaf Arnalds, en með honum hefur hún einnig leikið á tónleikaferðalögum víða um heim. Hún er stofnmeðlimur leikhópsins Miðnættis, þar sem hún hefur verkefnastýrt leiksýningum og leikferðum erlendis, samið tónlist og leikið í vinsælum sýningum á borð við Tjaldið, sem sýnt var yfir 150 sinnum í Borgarleikhúsinu. Þá hefur Sigrún starfað við tónlistarkennslu um árabil, skrifað barnabókina Þorri og Þura eignast nýjan vin og framleitt útvarpsefni á Rás 1 um barnamenningu.

Barnamenning hefur blómstrað í Hörpu undanfarin ár og ég hlakka mikið til að fá tækifæri til að leiða áfram þróun fjölskylduviðburða Hörpu og leggja mitt af mörkum til menningaruppeldis yngstu kynslóðarinnar“.

- Sigrún Harðardóttir

Rík áhersla á barnamenningu í Hörpu

Í stefnu Hörpu er lögð rík áhersla á barnamenningu og er það mikilvægur hluti af því að sinna sem best menningarlegu og samfélagslegu hlutverki hússins. Mikið er lagt upp úr vandaðri fjölskyldudagskrá á vegum Hörpu sem er aðgengileg öllum börnum óháð fjárhag, uppruna, tungumáli eða heimili, þeim að kostnaðarlausu.

Undanfarin ár hefur Harpa staðið að um 40 barna- og fjölskylduviðburðum yfir árið auk hátíðardagskrár á Menningarnótt þar sem tugir viðburða eru ætlaðir fjölskyldufólki.

Hljóðhimnar er tónlistartengt upplifunar- og uppgötvunarrými fyrir börn á jarðhæð hússins sem er afar vinsælt og að auki heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands opnar barnastundir og fjölskyldutónleika. Tvö barnaleikrit eru jafnframt í reglulegri sýningu í Hörpu og er því úr nægu að velja í fræðslu, upplifun og skemmtun fyrir börn.

Nánar um fjölskyldudagskrána og viðburði

Fréttir