24. febrúar 2025

Elín Hjálms­dóttir

tekur við mannauðs- og gæðamálum í Hörpu

Elín er með víðtæka reynslu á sviði mannauðs- og gæðamála, þar af um 17 ár sem stjórnandi. Elín starfaði lengst af hjá Eimskip, síðast sem framkvæmdastjóri mannauðssviðs, en kemur til Hörpu frá Alcoa Fjarðarál á Reyðarfirði þar sem hún var framkvæmdastjóri mannauðsmála síðastliðin tvö ár.

Elín hefur unnið að stefnumótun til lengri og skemmri tíma og leitt áfram þróun og breytingar á sviði ráðningamála, fræðslustarfs, kjaramála, vinnustaðarmenningar, stjórnendaráðgjafar, mannauðsmælinga o.fl. Auk þess hefur hún verið í forsvari fyrir fyrirtæki og setið í samninganefndum vegna kjarasamninga.

Elín er með BSc.í viðskiptafræði og MBA frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að vera vottaður markþjálfi frá Coach Masters Academy (CMA) í Singapore. Elín situr í stjórn lífeyrissjóðsins Stapa.

Elín Hjálmsdóttir mannauðs- og gæðastjóri Hörpu.

,,Það er mikill heiður og ég er full tilhlökkunar að fá tækifæri til að leiða málaflokk mannauðs- og gæðamála í Hörpu. Það er gaman að starfa í húsi sem iðar af lífi alla daga enda sækir fjöldi gesta þá fjölbreyttu viðburði sem haldnir eru í Hörpu, auk þess sem fjöldi ferðamanna leggur leið sína í húsið. Ég sé líka strax að í Hörpu starfar framúrskarandi fagfólk með mikla þekkingu, ríka þjónustulund, kraft og metnað fyrir því að Harpa sé á heimsmælikvarða í viðburðahaldi og þjónustu.”

Hjá Hörpu starfa tæplega 100 manns í fjölbreyttum störfum. Árlegar gestakomur eru yfir 1,2 milljónir og haldnir eru rúmlega 1.400 innlendir sem erlendir viðburðir af öllum stærðum og gerðum.

Fréttir