börn og fjölskyldan, ókeypis viðburður, tónlist

Fjöl­skyldu­dag­skrá Hörpu: Hvaðan kemur tónlistin?

Verð

0 kr

Næsti viðburður

laugardagur 4. janúar - 11:00

Salur

Harpa

Harpa er ævintýralegt hús þar sem tónlist berst úr öllum hornum. Á hvaða hljóðfæri er spilað og hvaðan kemur tónlistin?  

Tónlistarmaðurinn Már Gunnarsson og leiðsöguhundurinn Max leiða börn og fjölskyldur í hlustunarratleik um húsið og í leit að tónlistinni. Farið verður í gegnum hina ýmsu króka og kima, tónleikasali og ganga Hörpu í skemmtilegri leit að tónlistarfólki sem felur sig hér og þar.

Tónlistarfólk í felum: Sólveig Morávek og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir

Hlustunarratleikurinn hefst við Hljóðhimna klukkan 11:00 og 13:00 og tekur um það bil 45 mínútur. Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður og fullorðinn þarf að fylgja hverju barni. Bókað er miða á hvert barn, hverjum barnamiða fylgja að hámarki tveir fullorðnir.

Leikurinn er sniðinn að 4 ára og eldri, en yngri systkini velkomin með í fylgd fullorðinna.

Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt að skrá sig sökum takmarkaðs pláss. Opnað verður fyrir skráningu föstudaginn 27. desember klukkan 10:00. 

Aðgengi og aldursviðmið

Viðburðurinn er aðgengilegur öllum og sérstaklega útfærður fyrir sjónskerta og blinda.

Viðburðurinn fer fram á íslensku en hægt að spyrja spurninga á ensku.

Viðburðurinn hentar ekki börnum yngri en þriggja ára.
Nánari upplýsingar um heimsóknir í Hörpu og aðgengismál má finna hér.

Már Gunnarsson, tónlistar- og íþróttamaður lítur ekki á sjónleysi sitt sem fötlun. Hann vill útrýma hugtakinu „fatlaður“ og vill ekki dæma fólk fyrir að vera öðruvísi. Hann er mikil fyrirmynd, lætur ekkert stoppa sig og skarar framúr bæði á sviði íþrótta og menningar. Már er sérstaklega jákvæður einstaklingur, vandar vel til verka og hefur gott skopskyn. Hann er afreksíþróttamaður og margfaldur Íslandsmethafi í sundi í fötlunarflokki S11, flokki blindra. Hann var kjörinn Íþróttamaður fatlaðra árið 2019, Íþróttamaður Suðurnesja 2019 og Suðurnesjamaður ársins 2019. Hann er einnig handhafi Kærleikskúlunnar 2019. Már spilar á píanó, semur tónlist og syngur. Hann gaf út plötuna Söngur Fuglsins árið 2019, einnig vann hann í desember 2019 jólalagasamkeppni Rásar tvö ásamt systur sinni Ísold Wilberg með laginu, Jólaósk. Hann hefur einnig tekið þátt í Söngvakeppni Sjónarpsins, sönglagakeppnum erlendis og unnið við dagskrárgerð í sjónvarpi og útvarpi.  

Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir hóf tónlistarnám sitt í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem fiðlan og básúnan urðu fyrir valinu. Eftir að hafa lokið BA gráðu úr heimstónlistardeild Codarts í Rotterdam, tóku við námsferðir til Brasilíu ásamt tónleikaferðalögum með ýmsum hljómsveitum. Eftir þrjú ár í ferðatösku var snúið heim og hefur Sigrún verið virkur flytjandi og útsetjari í íslensku tónlistarlífi. Auk flytjendastarfsins kennir Sigrún í tónlistarskóla Hafnarfjarðar, MÍT auk stundakennslu við Listaháskóla Íslands.

Sólveig Morávek er tréblástursleikari og hljóðfærakennari. Hún byrjaði tónlistarnám sitt 5 ára gömul á blokkflautu hjá Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu en færði sig fljótt yfir á Klarinett. Hún fór svo í Tónlistarskóla FÍH og lauk þar Klassísku burtfararprófi árið 2014. Á meðan hún lærði á klarinettið tók hún saxófón sem auka hljóðfæri og lauk miðprófi í rytmískum saxófónleik og kláraði tónlistarkennara námið frá Tónlistarskóla FÍH árið 2015. Eftir að hún lauk námi frá FÍH tók hún nokkra einkatíma á þverflautu. Hún hefur spilað með öllum helstu hljóðfæraleikurum landsins og komið víða við, allt frá klassík yfir í þungarokk og einnig tekið þátt í leiksýningum á borð við Cabaret með Leikfélagi Akureyrar, Ronju Ræningjadóttur hjá Þjóðleikhúsinu og Emil í Kattholti í Borgarleikhúsinu. Sólveig hóf kennslu árið 2009 og hefur stjórnað lúðrasveit frá árinu 2016 auk þess sem hún leysti af sem skólastjóri Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts frá janúar - ágúst 2022.


Við viljum upplýsa gesti um að ljósmyndari á vegum Hörpu gæti verið viðstaddur þennan viðburð. Ef foreldrar eða forráðamenn vilja ekki að myndir af börnum þeirra birtist í umfjöllun um viðburðinn á miðlum Hörpu þá biðjum við ykkur vinsamlegast um að láta starfsfólk eða ljósmyndara vita á staðnum eða hafa samband í gegnum tölvupóstfangið markadsdeild@harpa.is.


Viðburðahaldari

Harpa

Miðaverð er sem hér segir:

Dagskrá

laugardagur 4. janúar - 11:00

Hápunktar í Hörpu