börn og fjölskyldan, ókeypis viðburður, smiðjur

Fjöl­skyldu­dag­skrá Hörpu: Hljóðbað á Myrkum Músík­dögum

Verð

0 kr

Næsti viðburður

laugardagur 25. janúar - 11:00

Salur

Hörpuhorn

Margar fjölskyldur hafa það fyrir sið að fara í sund á laugardögum en nú gefst þeim tækifæri til að breyta svolítið til og skella sér í hljóðbað í Hörpu!  

Laugardaginn 25. janúar verður opin tónlistarsmiðja fyrir börn og fjölskyldur í Hörpu þar sem þeim gefst tækifæri til að baða sig í tónlist, leika sér með hljóð og tóna og finna hvernig ólíkir tónar og tíðnir geta haft áhrif á líkamann. 

Smiðjan er opin öllum fjölskyldum milli 11:00 - 13:00 og hægt er að koma og fara eins og hverjum og einum hentar.  

Í Hörpuhorni:
Iðunn Einarsdóttir, Þórður Hallgrímsson og Jón Arnar Einarsson bjóða uppá hljóðrænt ferðalag í gegnum efnisheim pípa í öllum sínum fjölbreyttustu myndum. Fyrir bregður ólíkum hljóðfærum allt frá hefðbundnum tré- og málmblásturshljóðfærum yfir í blokkflautur gerðum úr niðurfallsrörum úr plasti, orgelpípur, drykkjarör úr gleri og margt fleira. Smiðjan byggir á verki þeirra, Pípumessa, sem flutt er á Myrkum músíkdögum sunnudaginn 26. janúar kl. 13 í Kaldalóni.

Undir stiganum, fyrir aftan Hörpuhorn:
Hönnunarteymið ÞYKJÓ aðstoðar fjölskyldur við að búa til sínar eigin hljóðfærahristur úr fjölbreyttum efnivið. Hönnunarstarf ÞYKJÓ miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í samstarfi við mennta- og menningarstofnanir. Á meðal nýlegra verkefna eru Hljóðhimnar í Hörpu oghúsgagnalínurnar Kyrrðarrými og Hreiður. ÞYKJÓ hlaut nýverið Hönnunarverðlaun Íslands fyrir verkefnið "Börnin að borðinu".

Í Þríund (á þriðju hæð):
Tónlistarkonan og tónheilarinn Vala Gestsdóttir leiðir börn og fjölskyldur í töfrandi hljóðbað sem er skemmtileg samblanda tónlistar og tónheilunar. Gestir fræðast um hljóðbylgjur og áhrif þeirra á líkamann og fá að skoða hljóðfæri á borð við tónkvíslar, kirstalsskálar, Tíbetskálar og gong. Grunnur Völu liggur í tónlist en hún lauk BA prófi í Tónsmíðum og Meistaragráðu í Sköpun, Miðlun og Frumkvöðlastarfi við Tónlistardeild LHÍ. Vala lærði einnig hljóðfræði og hljóðupptökur við SAE Institute í London og Tónheilun hjá Acutonics í Englandi.

Hljóðbað er samstarf Hörpu og tónlistarhátíðarinnar Myrkra Músíkdagasem fram fer dagana 24.-26 janúar 2025.

Aðgengi og aldursviðmið

Viðburðurinn krefst ekki sérstakrar tungumálaþekkingar, en hægt verður að spyrja spurninga á íslensku og ensku.

Hentar vel börnum á aldrinum 4-10 ára, en yngri eða eldri systkini eða vinir að sjálfsögðu velkomin með.

Viðburðurinn fer fram í opnu rými með sléttu gólfi og góðu lyftuaðgengi.

Frekari upplýsingar um aðgengi og heimsóknir í Hörpu má finna hér. 

Við viljum upplýsa gesti um að ljósmyndari á vegum Hörpu gæti verið viðstaddur þennan viðburð. Ef foreldrar eða forráðamenn vilja ekki að myndir af börnum þeirra birtist í umfjöllun um viðburðinn á miðlum Hörpu þá biðjum við ykkur vinsamlegast um að láta starfsfólk eða ljósmyndara vita á staðnum eða hafa samband í gegnum tölvupóstfangið markadsdeild@harpa.is.

Viðburðahaldari

Harpa

Miðaverð er sem hér segir:

Dagskrá

laugardagur 25. janúar - 11:00

Hápunktar í Hörpu